04.03.1936
Neðri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

16. mál, útflutningsgjald

*Jónas Guðmundsson:

Hv. þm. Ísaf. sagði, að nú væri um annaðhvort að velja að hætta að verka beinin eða að afnema tollinn. Þetta er alrangt. Því að þó að tollurinn væri afnuminn og verðið lækkaði, yrði samt ekki hætt að hirða og verka beinin. Í því atvinnuleysi, sem þjóðin á nú við að búa, þá reyna menn að gera sér sem mest úr þeim vörum, sem þeir hafa á milli handa, hvort sem þeir fá mikið eða lítið fyrir. Ég gæti meira að segja frekar trúað því, að það mundi frekar flýta fyrir því, að hætt yrði að verka beinin, ef hætta er annars á því, ef tollurinn yrði afnuminn, af því að þá væri þeim aðilja, sem líklegastur er til að halda verðinu uppi, ísl. verksmiðjunum, gert svo erfitt fyrir um að starfa, að hann mundi sennilega gefast upp. Og þá get ég ímyndað mér, að svo færi, að menn hættu að verka beinin. En á meðan ísl. verksmiðjurnar hafa möguleika til að ná þessu hráefni og geta haldið áfram fiskimjölsframleiðslunni, þá eru áreiðanlega möguleikar á því fyrir fiskimenn að skapa sér atvinnu með því að þurrka beinin og að fá vöruna borgaða.

Sami hv. þm. baðst undan því að vera talinn umboðsmaður erlendra milliliða, heldur þóttist hann vera umboðsmaður sjómanna. Ég skal ekki vera að hafa af honum þann heiður. En það eru þó fyrst og fremst íslenzkir sjómenn og útgerðarmenn, sem hafa hagnað af þessu, en ekki verksmiðjurnar. Að tollurinn valdi þessum mönnum tjóni, er rangt, því að þeir greiða hann ekki, heldur kaupendurnir.

Hv. 3. landsk. hefir oft sagt, að það væru hinir innlendu framleiðendur, sem greiddu tollinn. Þetta er rangt. Hver, sem vill selja bein, spyr fyrst íslenzku verksmiðjurnar: Viljið þið kaupa? Ef svo kemur Norðmaður og býður hærra verð, þá er honum auðvitað seld varan. En þegar tollurinn er afnuminn, munu erlendir kaupendur aðeins bjóða litlu hærra í tonnið en það, sem hér er boðið. Verksmiðjurnar standast ekki samkeppnina, og fellur þá niður öll sú innlenda vinna, sem þær hafa haldið uppi. Afleiðingin verður sú, að verðið lækkar, menn hætta að hirða beinin og við töpum miklu af erlendum gjaldeyri.

Hv. þm. sagði, að verðfall hráefnisins næmi 50% miðað við verð það, sem var í fyrra. Þetta er rangt, að svo miklu leyti, sem ég þekki til um blautbeinakaup. Hinsvegar hefir mjöl fallið um 15% eða meira á erlendum markaði. En þó ber að taka tillit til þess, að þó að mjöl hafi síðan l931 fallið um 100 kr. tonnið á erlendum markaði, þá hefir verðið ekki breytzt í innlendri sölu.

— Nú er ég dauður í þessu máli. Ég get reyndar búizt við, að ég fái enn gusu, en það verður þá að bíða til 3. umr., að ég svari fyrir mig.