04.03.1936
Neðri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

16. mál, útflutningsgjald

*Pétur Ottesen:

Ég ætla ekki að nota mér það að hv. þm. er dauður. En það er sagt, að sá dauði hafi sinn dóm með sér, og eftir okkar trúarbókstaf getur hann ekki komizt klakklaust gegnum eilífðina, ef hann hefir lifað svo, að mjög skorti á. Hann verður þá að gjalda þar fyrir. Og í þessu máli hefir framkomu hv. þm. verið sú, að ástæða væri til að taka honum tak. Þó mun ég ekki gera það nema lítillega.

Hann sagði, að engin rök hefðu verið færð fyrir því, að þessi mikli tollur lækkaði verðið fyrir framleiðendurna, þ. e. sjómenn og útvegsmenn. Frá umr. hér á síðasta þingi og svo í dag mætti hann muna, að það hefir verið sýnt og sannað, að þessi tollur bitnar eingöngu á framleiðendum. Það liggur í því, að útlendingar, sem hingað koma til þess að kaupa þessar afurðir, verða að greiða 30 kr. hærra verð fyrir tonnið en innlendar verksmiðjur, til þess að geta orðið samkeppnisfærar við þær, því að þeir verða að borga í ríkissjóð 30 kr. af hverju tonni.

Nú er í frv. ekki farið fram á, að tollurinn sé niður felldur, heldur er gert ráð fyrir, að verksmiðjurnar séu látnar njóta þeirrar verndar, sem 10 króna tollurinn veitir. En þessi 20 króna mismunur, sem annars fer beint í ríkissjóð, færi þá beint til framleiðenda. Þegar hv. þm. segir, að þessi mismunur færi í milliliði, þá er það ekki til annars en að slá ryki í augu manna. En þetta ryk rennur furðu fljótt úr augum þeirra aftur, og hann þreifar nú þegar á því, að þessi blekkingarvefur er sundur rakinn fyrir honum.

Nei, þessi mismunur er nú tekinn beint af framleiðendum. Skyldi það ekki vera einmitt af því, að þessir menn standa einhuga á móti þessum tolli? Eða ætlar hv. þm. að halda því fram, að þeir séu slíkir skynskiptingar, að þeir skilji ekki, hvernig í hlutunum liggur? Nei, honum þýðir ekkert að ætla að gera svo lítið úr sjómannastétt landsins.

Þá ber og á það að líta, að ekki er einungis samkeppni milli útlendinga, er hingað koma, og innlendu verksmiðjanna, heldur á sér líka stað samkeppni milli útlendinganna innbyrðis. Þessi samkeppni er venjulega réttastur mælikvarði á hið raunverulega verðlag. En þessa samkeppni vill hv. þm. kveða niður með því, að ríkisvaldið leggi á þessa vöru svo háan toll, að allir standi þar höllum fæti nema verksmiðjurnar. Miðað við verð það, sem var á þessum afurðum síðasta ár, nemur tollurinn nálægt þriðjungi, en miðað við verðlag nú mun hann vera orðinn allt að helmingi af verðmæti vörunnar. Er því ekki langt í land til þess að taka vöruna alla af framleiðendum.

Eins og bent hefir verið á, hlýtur fyrsta afleiðingin af slíkum tolli að verða sú, að menn hætta að hirða beinin. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að nú stefndi að því, að það svaraði varla kostnaði að verka vöruna. Og þetta er af því, að ríkisvaldið gengur svo langt, að það tekur helming verðmætisins í toll.