21.03.1936
Efri deild: 30. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

16. mál, útflutningsgjald

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þetta frv. var flutt í hv. Nd., og hefir legið fyrir sjútvn. Eins og sjá má á nál. á þskj. 171, þá hefir n. einróma fallizt á, að frv. verði samþ. óbreytt. Efni frv. er í stuttu máli það, að tollur af fiskbeinum, sem nú er samkv. lögum 3 kr. af 100 kg. verði lækkaður niður í 1 kr. af hverjum 100 kg. Ástæðan fyrir þessari lækkunartill. er sú, að það hefir almennt vakið mikla óánægju, hvað þessi tollur er hár. En hinsvegar hefir, að minnsta kosti í bráðina, orðið talsvert verðfall á beinunum, sem stafar af verðfalli á beinamjöli. Þess vegna er nokkur hætta á því, að ef tollurinn er hár, þá dragi það úr því, að beinin verði hirt og hagnýtt. Af þessari ástæðu hefir n. fallizt á, að tollurinn verði lækkaður niður í 1 kr. af 100 kg. — Ég hygg, að hv. d. geti fallizt á þetta frv. og samþ. það, eins og ástæður eru nú fyrir hendi og horfur í útvegsmálum. Ég þarf svo ekki að hafa um þetta fleiri orð, nema tilefni gefist til þess.