10.03.1936
Efri deild: 20. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

50. mál, eftirlit með útlendingum

Magnús Guðmundsson:

Það er ekki hægt að segja, að hæstv. forsrh. taki brtt. n. vel. Hann vill þó sýna þá náð að samþ. leiðréttingarnar, en annað ekki. Nú vil ég drepa dálítið nánar á þetta heldur en ég gerði áðan. Í 2. gr. frv. stendur: „Mönnum, sem koma hingað til lands, skal óheimilt að stíga á land, nema þeir hafi vegabréf eða önnur skilríki, sem sýni á fullnægjandi hátt, hverjir þeir eru.“ Sem sagt er öllum mönnum, samkv. orðalagi þessarar gr., óheimilt að stíga hér á land, nema þeir hafi vegabréf eða önnur skilríki. Þetta gildir bæði um Íslendinga, sem koma hingað frá útlöndum, og farþega á skipum, sem koma hingað til lands; þetta gildir undantekningarlaust um alla menn, sem hingað koma. Ég verð að segja það, að ég skil varla, að unnt sé að orða hugsun á öllu óheppilegri hátt en hér er gert, því að frv. ber það að öðru leyti með sér, að hér er í rauninni átt við útlendinga aðeins, þótt orðalag gr. bendi til þess, að vegabréf eigi að heimta af Íslendingum líka. Samkvæmt þessu orðalagi yrði að heimta skilríki af sjálfum forsrh., sem sýndi, hver hann væri, þegar hann kæmi hingað til lands af konungsfundi.

Það hlýtur að liggja í augum uppi, að þetta er skakkt orðalag, og mér finnst, að hæstv. forsrh. ætti að taka þessari leiðréttingu með þökkum í stað þess að taka henni illa. Svo hefir hann misskilið það, sem ég sagði viðvíkjandi skilríkjunum. Ég sagði, að n. legði þann skilning í sína brtt., að vegabréf væri eitt af þeim skilríkjum, sem væri hægt að heimta, en hún vildi ekki tala beinlínis um vegabréf af því að hún vildi forðast í lengstu lög að heimta vegabréf. Það getur hver ráðh., sem er, gefið út reglugerð samkv. 11. gr. þessa frv. og heimtað þessi skilríki af útlendingum, sem hingað koma, og vitanlega eins vegabréf, ef hann vill, en samkv. 2. gr. er ekki eingöngu átt við vegabréf; það var ekkert annað, sem vakti fyrir n. en það, að henni þótti ekki heppilegt, að það væri heimtað það skilríki, sem heitir vegabréf. Mér finnst brtt. n. við 2. gr. frv. ekki raska neitt því, sem hægt er að gera samkv. þeirri gr., nema að því leyti, að samkv. brtt. er ekki hægt að heimta þessi skilríki af Íslendingum, enda hefir það heldur aldrei verið meiningin. En svo er það allt of sterkt til orða tekið að segja: „mönnum, sem koma hingað til lands, skal óheimilt að stíga á land ....“ Það er hvergi farið að á þennan hátt, eins og ég hefi tekið fram. Ég hefi t. d. á yfirstandandi ári komið við í Englandi, farið í land og verið þar heilan dag, án þess að nokkurt skilríki hafi verið heimtað af mér.

Þá kem ég að brtt., sem hæstv. ráðh. sagði, að væri meinlaus, og mér skildist hann ekki vera beinlínis mótfallinn henni; það er brtt. við 4. gr. frv., og skal ég ekki fara langt út í það mál, en ég vil bara benda á, að það er að sjálfsögðu miklu betra og tryggilegra, að lögreglustjórar fái strax að vita, eftir að skip er komið eða farið, frá skipstjóra sjálfum, hvaða farþegar séu settir á land eða fluttir úr landi í lögsagnarumdæmi hans, þar sem þeir eiga innan viku að tilkynna, í hvaða tilgangi þeir séu komnir. Auðsætt er, að ekki er tilgangurinn að bíða eftir því, að það komi tilkynning um þetta frá öðrum lögreglustjóra í landinu. Ég vil gjarna spyrja hæstv. ráðh., eftir hvaða lögum á Norðurlöndum þetta frv. er tilbúið. Hann upplýsti sjálfur, að vegabréf væru ekki lengur viðhöfð á milli Norðurlanda; þess vegna getur þetta ákvæði um vegabréfin ekki verið tekið þaðan. Ég lít svo á, að það sé miklu heppilegra fyrir hæstv. ráðh. að fá lög, sem eru þannig úr garði gerð, að hann er óbundinn um það, hverskonar skilríki hann heimtar. Þá gæti hann heimtað vegabréf eða önnur skilríki eftir vild. Hæstv. ráðh. sagðist ekki vita, hvaða önnur skilríki gæti verið um að ræða, en hann nefndi samt sjálfur skilríki, sem hann benti á, að Norðurlönd létu sér nægja. Hvers vegna skyldum við ekki geta gengið inn á sömu braut? Ég finn á orðum hæstv. ráðh., að hann hefir algerlega misskilið þetta atriði. Út af brtt. við 1. málsgr. 12. gr. vil ég benda á það, að hún er engin efnisbreyt.; orðin „einkum ef“ ... o. s. frv., sem í frv. standa, eru alveg óþörf. Þessi orð þurfa ekki að hafa minnstu áhrif á niðurstöðu dóms um refsingar.