10.03.1936
Efri deild: 20. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

50. mál, eftirlit með útlendingum

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. forsrh. sagði síðast, að það væri ekkert lögmælt eftirlit með mönnum, þegar þeir stíga á land, og þess vegna kvaðst hann vera á móti því, að felld yrðu burt orðin: „einkum ef menn skjóta sér undan lögmæltu eftirliti, þegar þeir stíga hér á land.“ Hver getur skilið þetta? Það er rétt, að það er ekki fyrirskipað eftirlit, þegar menn stíga hér á land; þeir eiga að skýra hlutaðeigandi yfirvöldum frá fyrirætlun sinni innan tiltekins tíma. En hvaða vit er þá í því að vísa í 12. gr. til þess sem brots af hálfu útlendings að stíga í land án þess að sýna skilríki? Það er vitleysa og ekkert annað, einmitt af því að það er ekki brot að stíga í land án þess að sýna skilríki.

Um brtt. n. við 2. gr. verð ég að segja, að mér þykir leitt, að hæstv. ráðh. hefir ekki skilið afstöðu nefndarinnar, en hún er sú, að gefa honum sem frjálsastar hendur, þar sem till. hennar gengur út á, að ráðh. skilgreini sjálfur, hverskonar skilríki hann heimtar, og ef hann kýs að heimta vegabréfið, þá getur hann það. Till. n. er um að fella burtu úr gr. orðin „vegabréf eða önnur“, sem stóðu í frv., eins og það kom frá hæstv. ráðh., m. ö. o., brtt. n. hagga í engu upphaflegri meiningu eða skerða vald ráðh. um eftirlitið, því að það er lagt í hans vald, hverskonar skilríki skuli heimta. Ég get því ekki með mínum bezta vilja skilið hæstv. ráðh., er hann telur þetta aðalatriði, því hér er sagt í brtt. nákvæmlega það sama og í frv., aðeins með öðrum orðum, en honum finnst þetta stórt atriði, bara af því hann er að snúa út úr. Þá var hann og að snúa út úr því, er ég benti á um upphaf 2. gr., að ef Íslendingar ættu að teljast með mönnum, sem ég tel engan vafa, þá hefðu þeir komið undir ákvæði 2. gr., eins og orðalagið er í frv., og fannst ná því réttara að hafa þar útlendingar, en ekki orðið menn.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, en held fyrir hönd n. fast við till., því að ég sé ekki, að hún rýri gildi frv. í einu eða neinu.