10.03.1936
Efri deild: 20. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

50. mál, eftirlit með útlendingum

Magnús Guðmundsson:

Ég held, að hæstv. ráðh. hafi gleymt því, að hér stendur: „skilríki, sem sýni á fullnægjandi hátt“, en það þarf skírnarvottorð alls ekki að gera. — Annars skil ég ekki, hvers vegna hæstv. ráðh. er svona hörundssár, því ég er einmitt að segja honum, að hann geti sjálfur ákveðið í reglugerð, hver skilríki skuli heimtuð. (Forsrh.: Ég á nú ekki víst að vera alltaf við völd.) Ég býst nú samt við, að hann verði það svo lengi, að tími vinnist til að setja reglugerð. (Forsrh.: En þeirri reglugerð getur ráðh. breytt.) Það er alveg rétt, en hann getur það hvort sem er, þó að stæði „vegabréf eða önnur skilríki“ í lögunum. (Forsrh.: Þ. e. a. s. einhver slík skilríki, sem væru jafngild vegabréfi, því enginn mundi skilja l. öðruvísi en þau yrðu að vera jafngild.) Er ráðh. búinn með sína ræðu? (Forsrh.: Já, ég býst ekki við að tala aftur, svo að ég ætla að leiðrétta jafnóðum.)

Ráðh. var eitthvað að tala um, að skírnarvottorð eða önnur vottorð bæru ekki með sér, hvort maður hefði verið í fangelsi, en ég vil segja það, að hingað geta komið menn með vegabréf, sem hafa verið í fangelsi eða tekið út einhverja hegningu, án þess að það verði séð á vegabréfinu, því það er alls ekki siður að taka slíkt fram í vegabréfum, svo að með þeim er engin fullkomin trygging fengin, um slíkt. (Forsrh.: En þau eru fullkomnasta tryggingin.) Já, það skal ég viðurkenna, en úr því að Norðurlöndin með samningum sín á milli hafa getað látið sér nægja önnur skilríki, þá sé ég ekki annað en við getum það líka.