06.04.1936
Sameinað þing: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

1. mál, fjárlög 1937

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti! Góðir tilheyrendur

Ég mun í þessari ræðu aðallega svara því, er snertir minn verkahring. Ég vil segja það um áskoranir hv. formanns Sjálfstfl. hv. þm. G.-K., að það er hætt við, að ríkisstj. fari fremur eftir vilja einhverra annara um það, hvenær hún rýfur þing og lætur fram fara kosningar heldur en eftir áskorunum hans. Þó hann lyki ræðu sinni með því að lýsa yfir, að hann hefði sannað æði margt, þá býst ég við, að tilheyrendurnir séu á í annari skoðun í því efni. Annars skal ég ekki í þessari ræðu eltast við hinn lítilmótlega sparðatíning andstæðinganna, sem daglega er rekinn ofan í þá í blöðunum, heldur snúa mér að höfuðmálunum og gefa nokkurt yfirlit yfir framkvæmd þeirra samkvæmt þeirri reynslu og þeim staðreyndum, sem nú liggja fyrir. Það mun þá koma í ljós hvað sannur hann hefir verið málflutningur andstæðinganna.

Þau mál, sem aðallega er deilt um af þeim, sem ég hefi til meðferðar í ríkisstj., eru afurðasölumál landbúnaðarins. Það hefir ekki komið fram ádeila á nein önnur mál sem undir mitt ráðuneyti heyra. Ég mun því snúa mér að þessum málum, og það vill nú svo til, að nú liggja fyrir um þau opinberar skýrslur, sem taka af öll tvímæli um hvernig framkvæmd þeirra hefir tekizt.

Þó hlustendur muni hafa fengið meira en nóg af tali okkar hv. 10. landsk. um mjólkurmálin í síðustu útvarpsumr, verð ég þó að gefa stutta skýrslu um þau nú, til þess að hrekja helztu ósannindi hv. þm. Ég ætla þá fyrst að minnast á ástandið eins og það var í afurðasölumálum bænda. Íhaldið og hv. 10. landsk., Þorsteinn Briem, gerðu einskonar tilraun til að koma skipulagi á mjólkursöluna á þingi 1933, og árangurinn kemur fram í l. nr. 97 frá því ári. Lögin eru að því leyti einkennileg, að þau eru aðeins ein grein. Undir forystu íhaldsins í Ed. voru allar frumvarpsgreinarnar felldar, nema þessi eina, sem er einskonar múrveggur utan um hagsmuni Korpúlfsstaða og nágrennis Reykjavíkur. Í þessari gr. eru ákvæði um það, að öll mjólkurbú skuli gerilsneyða þá mjólk, sem þau selja til kaupstaða og bæja. En jafnframt er svo ákveðið, að undanþiggja megi frá þessu ákvæði þau bú, sem hafa aðstöðu til þess að hreinsa mjólk og selja hana þannig á markað. Þessi undanþága er beinlínis sett til þess að vernda hagsmuni Korpúlfsstaða, sem seldi þessa tegund mjólkur. Í öðru lagi er svo ákveðið í þessum 1. hv. 10. landsk. að barnamjólk skuli undanþegin þessu ákvæði, eimitt sú mjólk, sem Korpúlfsstaðir höfðu jafnframt selt hér á Reykjavíkurmarkaðinum, og sérstaklega auglýst á 60 aur. líterinn Að lokum er svo ákveðið í þessari lausn hv. 10. landsk. á afurðasölumálum bænda að þeir, sem framleiða mjólk innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur, þurfi ekki að gerilsneyða sína mjólk, og ekkert verðjöfnunargjald áttu þeir að greiða; það sá íhaldið um að fella niður úr lögunum í Ed. — Eins og sjá má af þessum ákvæðum, sem er raunverulega lausn hv. 10. landsk. á mjólkurmálinu, þar sem hann var ráðh. þá var essi eina lagagr. múrveggur utan um sérhagsmuni Korpúlfsstaða og bænda í nágrenni Reykjavíkur. Framkvæmd þessara l. hefði því hlotið að stórauka mjólkurframleiðsluna í þessu sérhagsmunasvæði, en jafnframt gereyðilagt mjólkurframleiðsluna austanfjalls og í Borgarfirði. Það er ekki furða, þó þessi hv. þm. tali digurbarkalega um lausnina á afurðasölumáli bænda. En þessi l. voru aldrei framkvæmd. Það hefir átt að bíða að láta afleiðingar þeirra koma fram, þangað til eftir kosningarnar, en þá hefðu þær líka komið fram.

Ástandið í mjólkurmálunum þessi tvö ár sem hv. 10. landsk. var ráðh. var þannig samkv. skýrslu Eyjólfs Jóhannssonar í Morgunblaðinu 1933, að mjólkin var seld fyrir 40 au. til neytendanna, en 16 au. fóru í kostnað. Bændur hér í nágrenninu fengu 23–24 au. fyrir líterinn, og verðið í vinnslubúunum var mjög lágt. Í slíkri eymd og niðurlægingu voru mjólkurmálin, þegar Þorsteinn Briem og íhaldið hrökklaðist frá völdum. En þó hefði ástandið orðið ennþá verra, þegar tekið hefði verið að framkvæma gömlu mjólkurlögin með sérhagsmunina fyrir Korpúlfsstaði og nágrenni Reykjavíkur. Eitt af fyrstu verkum núv. ríkisstj. var að afnema þessa hneisu, sem Þorsteinn Briem skyldi eftir sig, og setja önnur ný mjólkurlög. Og um þessa löggjöf og framkvæmd hennar hafa staðið stöðugar deilur í blöðunum og í tveimur eldhúsdagsumr. En nú í dag liggja fyrir staðreyndir um megnið af þeim atriðum, sem deilt hefir verið um, og nú er komið að reikningaskilunum fyrir þá, sem hafa haldið uppi látlausum ofsóknum á þetta skipulag, því nú liggja fyrir opinberir reikningar um útkomuna, og á þessa reikninga ætla ég nú að henda.

Þegar á fyrsta ári, en þ. e. 1934, hafa framleiðendur þann hagnað af lögum þessum, að hægt var að þvinga mjólkurbúðirnar, og þá aðallega bakarameistarana, til að lækka útsölukostnað mjólkurinnar úr 8 au. niður í 4 au. Þetta var m. a. ástæðan til þess, að Mjólkurfélag Reykjavíkur gat á þessu ári borgað út 25,8 au. á líter, og er þó vafasamt, að það hafi getað það, án þess að nota til þess að nokkru leyti hagnað af öðru. Þegar athuga á árangur mjólkurlaganna verður því að taka árið 1933 til samanburðar við árið 1935, sem reikningar liggja nú fyrir um frá mjólkurbúunum og samsölunni. Mjólkurverð hefir verið lækkað úr 40 au. niður í 38 au. til neytendanna. Þó er útkoman sú, að bændur í nágrenni Reykjavíkur, sem hafa ræktað land fyrir alla sína framleiðslu, fá 29 au. nettó fyrir lítra og öruggan markað fyrir alla sína framleiðslu, sem þeir höfðu ekki áður, nema með verðundirboðum. Bændur í Mosfellssveit og hér vestan fjalls fá 26 au. netto. Þar frá segist mjólkurfélagið þurfa að drag. ½ eyri vegna mjólkurafgangs, sem fari í vinnslu. En mjólkurfélagið græddi það mikið á rekstri mjólkurstöðvarinnar, að nema mun 2 au. á lítra til meðlima þess. Fá því þessir bændur um 27–28 au., í stað 23–24 árið 1933. Það sýnir líka greinilega, hvernig menn líta á mjólkurframleiðsluna hér vestan fjalls, að nú á tveimur fyrstu mánuðum þessa árs hefir framleiðslan hér í nágrenni Rvíkur og Mosfellssveit aukizt um 95 þús. lítra. Eru það aðallega peningamenn, sem setja fjármagn sitt í að framleiða mjólk, a. m. k. hafa eitt eða tvö ný bú risið upp, sem peningamenn hafa lagt fé sitt í. Í vinnslubúunum hefir framleiðslan einnig stóraukizt, eða um 40%. Á árinu 1934 var útborgun fyrir mjólk úr hinum þrem vinnslubúum, Borgarnesi, Ölfusbúi og Flóabúi, kr. 597 þús., en árið 1935 kr. 934 þús. Búin borga bændum út 346 þús. kr. meira árið 1935 heldur en árið 1934. Og verðið fyrir hvern lítra af mjólk er árið 1934 17.8 au., en árið 1935 19.8 au. Þetta eru nú staðreyndirnar um útkomu mjólkursölunnar, þess skipulags, sem mest hefir verið rægt og mest hefir verið deilt á stj. fyrir af öllu, sem hún hefir gert. Áður en þetta skipulag kom var kapphlaupið um markaðinn orðið svo gengdarlaust, að menn vissu raunar aldrei hvað verðið mundi verða næsta dag vegna undirboða og geysilegs kostnaðar við mjólkurbúðirnar, sem voru orðnar 108. Mjólkurstríð var þannig að nokkru leyti skollið yfir. Hvernig halda menn, sem vilja líta á þessi mál með rólegri yfirvegun, að hefði farið, þegar aukningin á framleiðslu vinnslubúanna verður 40% á einu ári. Hvernig halda menn að útkoman hefði orðið á mjólkurmarkaðinum fyrir Rvík og nágrenni og fyrir alla, ef þessari mjólk hefði verið hellt inn neyzlumjólkurmarkaðinn. En vegna skipulagsins, vegna verðjöfnunargjaldsins, sem vestanfjallsmenn hafa greitt með illu, og sumir ekki fyrr en með lögtökum, hefir verið mögulegt að láta setja þessa framleiðsluaukningu í vinnslu, nota verðjöfnunargjaldið til að bæta upp verð mjólkurinnar og halda henni þannig úti af neyzlumjólkurmarkaðinum. Á þennan hátt hefir mjólkurskipulagið bjargað þeim, sem búa eiga að markaðinum, frá þeirri yfirvofandi eyðileggingu, sem fyrrv. landbrh. var að koma þessum málum í.

Það er enginn efi á, að ef það skipulag hefði staðið áfram, sem réð, þegar þessi ríkisstj. tók við völdunt. og 40% framleiðsluaukning komið í ofanálag á það sem var fyrir, þá hefði mjólkurmarkaðurinn í Rvík lent í fullkominni óreiðu. En þetta er niðurstaða reynslunnar samkv. opinberum reikningum, sem fyrir liggja.

Þá skal ég jafnframt víkja að þeim tveimur atriðum, sem hafa verið aðaluppistaðan í rógburði andstæðinganna um samsöluna síðastliðið ár í blöðum og útvarpserindum. Annað er tilboð bakaranna og mjólkurfélagsins um að taka að sér mjólkursöluna fyrir ákvæðisverð. Látlausum rógi var haldið uppi gegn samsölustjórn, og þó sérstaklega gegn mér fyrir það, að þessum tilboðum væri ekki tekið sem talin voru til stórhagnaðar fyrir samsöluna. Var því haldið fram, að þessum tilboðum væri ekki tekið, þó að þau væru hagstæð, vegna þess að jafnaðarmenn ættu að hafa hagnað af samsölunni.

Nú liggja ársreikningarnir fyrir, og það sýnir sig, að ef þessum tilboðum hefði verið tekið, hefði samsalan skaðazt um kr. 3181.35 yfir tvo mánuði ársins 1935, nóvember og desember, eða um allt að 20 þús. kr. á ári. Þá var það eitt rógsmálið sl. ár, að Mjólkurbú Flóamanna ætti um 16 km. af osti, sem væri að grotna niður og að búið mundi verða gjaldþrota o. s. frv. Og þegar blaðið Framsókn sagði frá þessu, heyrði maður hlakka í því. En aðalfundur þessa mjólkurbús er nýafstaðinn, og hvað segir reynslan um þennan róg? Búið stendur sig betur en nokkurn tíma áður, ánægja félagsmanna yfir stjórn búsins lýsti sér í samhuga þakklæti fundarmanna til framkvæmdastjórnarinnar ostarnir, sem andstæðingarnir sögðu að myndu grotna niður, seldust til útlanda og reyndust fyrsta flokks vara.

En þegar þessi rógur er hruninn fyrir óhrekjandi sönnunargögnum. er reynt að flytja nýjan róg. Það er eftirtektarvert að blaðið Framsókn segir ekki með einu orði frá þessum fundi. En þar er sagt að ríkisstjórnin hafi slakað til í vor þess vegna hafi orðið sætt. Það þarf ekki að rifja það upp fyrir hv. þm. né hlustendum, að samkomulagið, sem varð um að fela þeim Agli Thorarensen og Eyjólfi Jóhannsyni umboð samsölustjórnar var með þeim fyrirvara, að ef þá greindi á átti stjórn samsölunnar að skera úr. Það hefir því aldrei orðið nein breyt. á stjórn samsölunnar. En eins og ég tók fram, hefir fyrirtækinu fleygt fram dag frá degi.

Ég ætla þá næst að koma að skipulaginu á kjötsölunni, sem einnig hefir verið látlaust árásarefni á ríkisstjórnina. Ég ætla að benda á þá reynslu sem nú liggur fyrir endanlega af árinu 1934. Það er nýlega komin út eftir formann kjötverðlagsnefndar mjög merkileg skýrsla um verð á 1. flokks dilkakjöti á árinu 1933, í stjórnartíð Þorsteins Briem og á 1934. Skýrslan er í marzhefti Freys á bls. 47–48. Skýrslan sýnir, að meðalverð á kg. af dilkakjöti 1933 og 1934 hefir verið 10.2 au. hærra 1934 en 1933. Hjá Sláturfélagi Suðurlands hefir munurinn verið um 18 au. Þetta er staðreyndin um árangur kjötskipulagsins þrátt fyrir allan róginn, og mér er óhætt að fullyrða að á árinu 1935 mun kjötverðið enn hækka töluvert.

Þegar skipulag þetta hófst, voru skrifaðar í tugatali árásargreinur á það í íhaldsblöðunum, og í blaði hins svonefnda Bændafl. var þetta kallað eignarnám. Í blaði hins svokallaða Bændafl. var haldið uppi látlausum rógi út af verðjöfnunargjaldinu, sem tekið væri af Sunnlendingum, en síðan væri norðlenzka kjötið flutt inn á sunnlenzka markaðinn og mundi það gereyðileggja allan árangur af skipulaginu. Nú eru árásirnar þagnaðar. Nú er reynt að draga sig í hlé og láta það gleymt að róginum hafi verið haldið uppi. Það er rétt að vekja athygli á því um leið, að samkv. l. nr. 90 frá 1933, um útflutning á kjöti, hafði fyrrv. ríkisstj. heimild til þess samkvæmt 8. gr. þeirra l. að skipuleggja kjötsöluna fyrir 1933 með því að gefa út reglugerð. En ríkisstj. gerði það ekki, þrátt fyrir það hörmungarástand, sem var árið 1932 í kjötsölumálum undir stjórn Þorsteins Briems, og reyndar einnig 1933, þótt það væri lítið eitt skárra. Þessi fyrrv. ráðh. hefir látið eftir sig órækt vitni um það, hvaða kröfur hann gerir um verðlag á landbúnaðarafurðum bænda. Á aukaþinginu 1933 flutti Páll Hermannsson alþm. þáltill. um verðuppbót á útflutt kjöt. Í þeim umr. segir Þorst. Briem, (Alþt. 1933 aukaþingið. D, bls. 246) að ef bændur fái 72 au. fyrir kg., dragi hann í efa, að hann telji fært að láta verðuppbót á það kjöt, enda segir hann að hann búist ekki við því, að heimild sú til verðuppbótar, sem samþ. hefði verið á þinginu á undan, hefði fengizt samþ., ef vitað hefði verið, að bændur mundu fá 72 au. fyrir hvert kg. af útfluttu kjöti. Og Þorst. Briem er svo mikið í mun að slá þessu föstu, að þegar Páll Hermannsson svarar með því að leggja það á vald stj. að gæta þarfanna í þessum efnum, þá segir Þorsteinn Briem í svarræðu sinni, að hann skilji Pál Hermannsson svo, að hann vilji ekki mæla með því að uppbót verði gefin á útflutt freðkjöt, er selt verði á 72 au. pr. kg. — Ég minni á þetta til að sýna, hverjar kröfur þessi hv. þm. gerði til sjáfs sín, þegar hann var ráðh., og er fróðlegt að bera það saman við þær kröfur, sem nú eru gerðar af hans hálfu, þegar talið er, að verðlagið ætti að vera kr. 1.27 pr. kg.

Ég hefi minnzt á þessi tvö mál hér vegna þess, að um þau hefir verið haldið uppi mestum andróðri gegn núv. stjórn. og sérstaklega gegn mér. En reynslan hefir nú skorið alveg tvímælalaust úr um það, að hvortveggja þetta skipulag hefir orðið bændum til hinna mestu hagsbóta, enda talið að á kjötskipulaginu einu hafi bændur grætt um 600 þús. kr. á fyrsta ári þess. Eg get því mjög vel unað við þessa niðurstöðu, þar sem það hefir verið aðalárásarefnið á mig, að ég hafi komið þessu skipulagi á. Þá má minna á, að n. í afurðasölumálinu var af Þorsteini Briem auðsjáanlega skipuð aðeins til þess að sýnast, þar sem það var ekkert gert í þessi tvö ár, sem hann var ráðh. en hlaupið í að skipa þessa n. rétt fyrir kosningur, til þess að láta skína í gegn að eitthvað ætti að gera. En n. þessi gerði ekkert, þar til núv. stj. var tekin við völdum.

Í framhaldi af þessu vil ég minna á það, að ég tel að sú löggjöf, sem sett var á síðasta þingi um grænmetisverzlun ríkisins og um verðlaun fyrir aukna kartöflurækt, sé tvímælalaust löggjöf, sem telja megi svo merka að rétt sé aðbera hana saman við kjötsölulögin og mjólkursölulögin, sem nú hafa sýnt sinn árangur. Framkvæmd grænmetisverzlunarinnar hefir verið falin S. Í. S., og mun Árni G. Eylands annast framkvæmd hennar. Hann hefir nú dvalið erlendis, aðallega Noregi til að kynna sér meðferð slíkra mála þar, útvega útsæði o. fl. Það er enginn efi, að ef vel tekst um framkvæmd þeirra mála, þá mun þessi löggjöf stórauka tekjur ýmsra bændu, sem aðstöðu hafa til kartöfluræktar. Ég vil í þessu sambandi og minna á það að afnám útflutningsgjalds af landbúnaðarafurðum, sem núv. ríkisstj. beitti sér fyrir hefir aukið tekjur bænda um 85 þús. kr. á árinu 1934. Ég get jafnframt í þessu sambandi minnzt á vaxtatillagið, sem einnig er spor í áttina til þess að auka tekjur bændastéttarinnar frá því, sem áður hefir verið. Starf stj. í þessa átt hefir verið algerlega skipulagsbundið, og jafnhliða þessu hafa einnig verið stigin stór spor í þá átt að létta opinberum gjöldum af því fólki, sem í sveitum býr. Það orkar ekki tvímælis, að hin nýju framfærslulög, sem samþ. voru á síðasta þingi eru eitthvert stærsta sporið, sem stigið hefir verið til þess að létta af mestu sveitarþyngslunum, framfærslu þeirra manna, sem búa í kaupstöðunum, en eiga framfærslurétt í sveit. Þessi ómegð hefir verið vel á vegi með að eyðileggja gjaldþol hreppsfélaganna og hefir í raun og veru þegar gert það í sumum sveitum. Fyrir sveitirnar er þetta eitt af allra mestu réttarbótunum, því að það er vitanlega ranglátt að sveitirnar, sem ala upp vinnukraftinn, sem síðan streymir til kaupstaðanna, þurfi svo oft og einatt, ef heilsa fólksins, sem úr sveitunum flyzt, bílar, að framfæra það í hinum dýru kaupstöðum.

En um leið og ýmsum réttarbótum er komið í framkvæmd, hefir verið samþ. löggjöf um kreppuhjálp sveitarfélaganna og er það beinlínis gert til þess, að hægt sé að gera upp gömlu skuld inni sem safnazt hafa m. a. vegna hinnar ranglátu framfærsluskyldu og hjálpa á þann hátt hreppsfélögunum til þess að koma fjármálum sínum í sæmilegt horf um leið og fátækralöggjöfinni er breytt. Kaupstaðirnir utan Rvíkur fá samskonar aðstöðu jafnhliða. En í framhaldi af þessu hefir síðasta þing stigið mjög merkilegt spor í sögu íslenzks landbúnaðar, spor sem áreiðanlega stuðlar að því en flest annað í sambandi við það sem ég hefi nú talið upp, að halda fólkinu í sveitunum og stöðva strauminn þaðan. Á ég hér við lögin um nýbýli og lögin um erfðaábúð og óðalsrétt. Með lögunum um erfðaábúð og óðalsrétt getur hver ábúandi á jarðeignum ríkisins tryggt sér þar erfðaábúð fyrir sig og sína afkomendur, og þar með tryggt niðjum sínum ávöxt þeirra umbóta, er hann gerir á jörðinni. Með lögunum um nýbýli er stigið stærsta sporið, sem enn hefir verið stigið í sögu landsins til þess að styrkja menn til þess að stofna ný heimili í sveitum landsins með beinum styrkveitingum og aðstoð um lánveitingar. Eftirspurn eftir nýbýlum samkv. þessum lögum er mjög mikil. Þetta starf, sem ég hefi talið upp, sem sumpart miðar til þess að auka tekjur bændanna, svo sem skipulag mjólkur- og kjötsölunnar, afnám útflutningsgjalds af landbúnaðarafurðum og vaxtatillagið, sumpart til að létta af opinberum gjöldum, t. d. með hinni nýju fátækralöggjöf og kreppuhjálp sveitarfélaganna. sumpart til þess að halda unga fólkinu í sveitunum svo sem nýbýlalögin og lögin um erfðaábúð og óðalsrétt, þetta starf hefir verið unnið á tveimur síðustu árum, og ég staðhæfi alveg hiklaust, að þessi löggjöf, sem ég hefi nú minnzt á, er stórt spor í rétta átt fyrir íslenzkan landbúnað.

En það er með þessi mál ein, og önnur, að hv. 10. landsk. gleymdi þeim á meðan hann var ráðh., þá gleymdi hann öllum mestu nauðsynjumálum bændanna. Nú talar hv. 10. landsk. um gengislækkun sem eitt helztu bjargráð fyrir bændurna en hann gleymdi því meðan hann var ráðh., en mundi bara allt í einu eftir því, þegar núv. ríkisstj. var tekin við. Hv. þm. talar einnig um, að þörf sé á að auka garðræktina, en hann mundi ekki eftir því, meðan hann var ráðh. Hann gleymdi að létta af sveitarfélögunum ranglátum framfærslukostnaði: það eru stjórnarflokkarnir sem nú hafa gert það, enda er það hið mesta réttlætismál. Og þó sveitirnar væu að sligast undir fátækraframfærslunni, þá gleymdi hann kreppuhjálpinni handa þeim. Og hann gleymdi unga fólkinu, sem vantar nýbýli, og ennfremur gleymdist að láta leiguliðana fá erfðaábúð á jörðunum. Og svo þegar þurfti að leysa mjólkurmálið, þá bara gleymdi þessi fyrrv. ráðh. bændunum á Suðurlandsundirlendinu og í Borgarfirði, en mundi hinsvegar vel eftir Korpúlfsstöðum.

Þá gleymdi hann að leysa kjötsölumálið eða a. m. k., að til væri heimild í l. til þess að setja reglugerð og gera þær ráðstafanir, sem þurfti, eða þá að hann hefir minnt, að 72 au. fyrir kg. veri nægilegt verð. En svo þegar hann er ekki lengur ráðh., þá man hann allt í einu eftir því, að bændur þurfa að fá 1.27 kr. pr. kg. Það hefir því farið þannig fyrir hv. 10 landsk., að á meðan hann var ráðh. gleymdi hann öllum mestu nauðsynjamálunum, en nú ræðst hann á stj. fyrir að framkvæma allt það, sem hann gleymdi að framkvæma meðan hann sat í ráðherrastólnum.

Þá er eitt eftir, sem ég má til að minnast á. Hv. 10 landsk. hefir borið fram frv. um allmiklar breyt. á jarðræktarlögunum. En hvernig eru þær? Þær eru flestar þannig, að hægt er að kona þeim á með reglugerð með því að breyta ákvæðunum um, hvernig skuli lagt í dagsverk. En það bara gleymdist eins og annað meðan hann var ráðherra.

Ég vil að síðustu benda á, að ég held að það sé ekki heppilegt fyrir þjóðina að hafa þá menn í ríkisstjórn sem gleyma öllum þörfum fólksins, meðan þeir eru ráðherrar, og rumska ekki við sér, fyrr en þeir eru búnir að missa traust þess og oltnir úr sætum sínum.