06.04.1936
Sameinað þing: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

1. mál, fjárlög 1937

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ræða sú, sem hv. form. Sjálfstfl. flutti hér í kvöld, var í öllum meginatriðum sú sama, sem hann hefir flutt við eldhúsumr. á tveimur síðustu þingum; þó var einn munur á ræðu hans nú og á síðasta þingi, og hann var sá, að á síðasta þingi var hv. þm. með getgátur og dylgjur í þá átt, að samvinna stjórnarflokkanna væri að gliðna og að þeir væru að búa sig undir kosningar með ýmsum málum, er fram væru komin. En nú er svo komið að form. Sjálfstfl. hv. þm. G.-K., kemur hér fram og heimtar þingrof í umboði flokksins. Þessu þarf ég ekki öðru að svara en því, að stjórnarflokkarnir munu ekki spyrja andstæðingana um það, hvenær skuli rjúfa þing, heldur mun stj. sjálf meta, hvenær hún telur afstöðu flokkanna eða málum svo komið, að ástæða sé til að leggja þau undir dóm þjóðarinnar. En stj. mun aldrei láta hv. þm. G-K. leggja sér lífsreglur um hvenær hún gerir það.

Hv. þm. lýsti mjög dapurlega ástandi því, sem nú er og þeim erfiðleikum sem framundan væru. Var margt af því réttmætt en fátt nýtt. En hv. þm. gerði meira, hann fullyrti að erfiðleikarnir væru að mestu eða öllu leyti sök núv. ríkisstj. og þess þingmeiri hl. sem hún styðst við.

Fyrir tveimur árum eða haustið 1934 flutti þessi sami hv. þm. eldhúsræðu hér í útvarpið, sem e. t. v. einhverjir hér innan þings og utan kannast við. Ég ætla þó að rifja upp nokkur atriði til samanburðar við ástandið eins og það er nú. þegar hv. þm. var að lýsa aðstöðunni, sem útgerðin hafi, þá byrjar hann með mikilli lofgerðarrollu og segir, að þar fari allt saman ríkustu fiskimið, dugmesta sjómannastétt og djarfir og ráðkænir útgerðarmenn.“ Þá höfðu safnaðarmenn ekki tekið þátt í stjórn nema rúma tvo mánuði. En hvernig var svo ástandið að dómi sama hv. þm. Um það segir hann: .„Meðalaldur togaranna er orðinn yfir 14 ár, línuveiðara 30 ár, og vélbátarnir ganga unnvörpum úr sér. Minnist ég þess, að fyrir stríðið þótti varhugavert að kaupa 5 ára gamla togara, og talið var, að þeir hefðu lifað sitt fegursta, er þeir voru orðnir 12 ára. Hitt er og augljóst, að fyrir fiskiveiðaþjóð, eins og Íslendinga, hlýtur það að vera ófrávíkjanleg skylda af því það er lífsnauðsyn að halda vel við og endurnýja fiskiflotann eftir eðlilegum hætti.“ Svona var þá útkoman þrátt fyrir ríkustu fiskimiðin, duglegustu sjómannastéttina, og djarfa og ráðkæna útvegs- menn, og það áður en þessi stj. tók við völdum. Og svo heldur hv. þm. áfram að lýsa ástandinu, og segir: „Og ef til vill sýnir ekkert eins vel eymd og volæði atvinnulífsins eins og það að nær fullkomin þögn ríkir um þá staðreynd, að árin eru smátt og smátt að breyta fiskiflotanum í ryðkláfa og fúaduggur. Svo hörð er lífsbaráttan, svo hörð glíman við hið lága afurðaverð og stígandi skattpíningar ríkisvaldsins, að útvegsmenn gefa sér hvorki tíma til þess að líta um öxl eða horfa fram á veginn, en einblína á þann hallann, sem næstur er, til þess að missa ekki fótanna. Þannig drógu þrengingar líðandi stundar athyglina frá þeim voða sem fram undan bíður, þegar útvegsmenn, sjómenn og verkamenn þegar öll íslenzka þjóðin vaknar til fulls skilnings á þeirri hræðilegu staðreynd, að fiskiskipin eru orðin hræðilegir,mannskaðabollar, ósjófærar fleytur, sem samt verða notaðar, af því okkar fátæka þjóð á ekki annars úrkosta til lífsframfæris notaðar, þangað til þeim smáfækkar, sem líkkistur dugmestu sjómanna heimsins.“

Svona var ástandið, þegar ekki voru liðnir nema tveir mánuðir frá því, að fulltrúi Sjálfstfl., Magnús Guðmundsson, var ráðh. yfir sjávarútvegsmálunum, og stóllinn, sem hann sat þar í, varla hættur að vera volgur. Þess vegna er eng- in leið til þess að kenna þetta ástand núverandi ríkisstj. Og þó að Sjálfstfl. hefði mikinn meiri hl. voru ekki afgreidd nokkur lög, eða aðrar framkvæmdir gerðar, til þess að bæta úr þessu ástandi. Enn heldur hv. þm. áfram að lýsa ástandinu og segir: „Á ég þar við hinn geigvænlega voða sem Íslendingum er búinn af haftastefnum viðskiptaþjóðanna. Verður ekki enn með vissu sagt, hverjar afleiðingar verða fyrir Íslendinga, en eins og nú horfir, má telja, að þeim málum skipist sæmilega ef Íslendingar fá að halda áfram 2/3 hlutum síns sölumarkaðs í Suðurlöndum.“

Síðar í ræðu sinni kemur svo hv. þm. að því, að fullar horfur séu á, að eftir muni verða af fiskaflanum allt að 30 þús. tonn, ef ekki verði eitthvað sérstakt aðgert.

Ég vil nú biðja menn að athuga það að þessir ræðukaflar voru ekki fluttir í þessum eldhúsumr. þó þeim svipi til þess, heldur voru þeir fluttir í eldhúsinu 1934, þegar núverandi stj. var rétt aðeins nýtekin við, en fulltrúi Sjálfstfl. nývikinn úr sæti atvmrh., en þrátt fyrir þessa dapurlegu lýsingu, sem því miður var rétt, þá hefir þó svo vel tekizt, að heppnazt hefir að selja allar afurðir landsmanna fyrir árin 1934–l935, svo að fullvíst má telja, að þær verði ekki fyrir framleiðslu þessa árs. Það, sem nú er enn óselt of sjávarafurðum, sem er nokkuð af fiski, má telja fullt öryggi um, að verði selt svo snemma, að það ekki þvælist fyrir framleiðslu þessa árs.

Að því, er snertir hag ríkissjóðs og þjóðarbúsins í heild sinni, hverjum breyt. hann hefir tekið frá því árið 1934, þá er skemmst að minnast þess helzta í því efni, sem sumpart var gefið upp um áramótin s. l. sem skýrsla um heildarafkomu ríkissjóðs á árinu 1935 og sumpart við fyrri hl. þessarar umr. Skal ég nú drepa á höfuðatriði þess máls.

Árið 1935 tókst þó að hafa svo ríkisbúskapnum, að tekjuafgangur varð sem svaraði ríflega hálfri millj. kr., og mætti í raun og veru telja hann heldur meiri ef framlag til fiskimálanefndar er talið sér. Þetta er stórfelld breyt., ég ætla hálfrar þriðju millj. kr. breyt. frá því, sem var árið á undan, 1934, þegar atvinnumálunum var stjórnað af samflokksmönnum hv. þm. G.K.

Um greiðslujöfnuðinn við útlönd var niðurstaðan sú að árið 1935 var þó flutt út nokkru meira heldur en inn. Sé ekki talinn með innflutningur til Sognsvirkjunarinnar, sem var um 700 þús. kr. og er alveg óvenjulegur innflutningur má segja, að útflutningur hafi verið 2 millj. kr. meiri en innflutningurinn að verðmæti. Þetta er einnig í fyrsta skipti um margra ára skeið sem þessi hefir orðið niðurstaðan. Hv. þm. G.-K. segir að þetta sé ekkert til að raupa af því að ríkisstj. hafi hvorki meira né minna en bætt ofan á drápsklyfjar skatta og tolla 5 millj. kr. gjöldum á þjóðina. Það hefir verið sagt, að fæstir ljúgi meiru en um helming. En hv. þm. G.-K hefir í þessu tilfelli ekki látið sér nægja slíka smámuni, heldur hefir hann hér fimmfaldað hina raunverulegu upphæð, að ég hygg. Hverjar verða, nú öruggustu tölurnar í þessu sambandi? Það eru þær tölur, sem sýna, hverjar tekjurnar hafa orðið árið 1934 og hinsvegar 1935. Tekjur ársins 1935 hafa reynzt að verða 14½ millj. kr. En tekjur ársins 1935 hafa reynzt (eftir að búið er að bæta þessum 5 millj. kr.(!) hv. þm. G.-K, við) 15,5–15,7 millj. kr. eða 1–1.2 millj. kr. meiri en árið áður. Reikningar sýna ekki meira en 1.2 millj. kr. mun til hvers sem hv. þm. G.-K. hefir svo notað afganginn af þessum 5 millj. kr.(!) Yfirleitt er hv. hlustendum óhætt að taka þær tölur, sem hv. þm. G.-K. flytur hér með ákaflega mikilli varasemi og bera þær saman við þær heimildir, sem þeir eiga kost á að kynna sér í þessum efnum, áður en þeir leggja trúnað á þær. — Hv. þm. G.-K. kom með lítið af einstökum dæmum og enn minna af staðreyndum í ræðu sinni. En í þess stað kom hann með mjög mikið af fullyrðingum, eins og hv. hlustendur hafa tekið eftir, og lauk svo venjulega hverri fullyrðingu með því að segja: Nú hefi ég sannað þetta. Hann sagði t. d. að fjárþröng hjá bæjar- og sveitarfélögum, svo að af þeim sökum hefði orðið að athuga möguleika fyrir nýjum tekjustofnunum handa þeim, væri ástæðan til þess að tekjuskatturinn hefði verið hækkaður svo gífurlega. Sjálfsagt veit hv. þm. G.-K. að þetta er fjarri sanni. Hann veit að hækkun tekjuskattsins nemur ekki nema litlu broti af útsvarsþörf sveitar- og bæjarfélaga og aðeins nokkur hluti af tekjuskattshækkuninni gengur til hlutaðeigandi bæjarsjóða.

Ástæður til þess að þörf er á auknum tekjustofnum eru í sjálfu sér tvær. Annarsvegar er það, að með versnandi árferði verður örðugra að afla nægilegra tekna. og hinsvegar jafnframt óhjákvæmilegt vegna versnandi árferðis að stofna til nýrra útgjalda til þess að jafna kjör manna.

Um þau fjárl., sem fyrir liggja til umr., má segja að heildarsvipur þeirra sé hinn sami og þeirra fjárl., sem lágu fyrir síðasta þingi. Upphæðirnar sem gert er ráð fyrir að komi í ríkissjóð, og ákvæðin um notkun þeirra eru í öllum aðalatriðum eins í báðum tilfellum. Ástæðan til þess er sú, að stjórnarflokkarnir og stj. líta svo á, að einmitt vegna þeirra erfiðleika, sem atvinnurekstur einstaklinga á við að búa og viðurkennt er af stjórnarandstæðingum, að stafi af ástæðum, sem við höfum ekki vald yfir að einmitt vegna þessara erfiðleika sé knýjandi nauðsyn á að hið opinbera noti getu sína út í yztu æsar til þess að draga úr afleiðingum kreppunnar og afleiðingum markaðsörðugleikanna, sem nú steðja að, og atvinnuleysinu, sem af þeim hlýzt. En þetta verður ekki gert á annan veg en þann að reyna að afla ríkissjóði tekna, þar sem hægt er að fá tekjur. Og tekjur er helzt hægt að fá með því að leggja gjöldin á þá menn marga eða fáa, sem kreppan mæðir minnst á, sem þrátt fyrir erfiðleika atvinnuveganna hafa ríflegar tekjur eða eiga verulegar eignir. Og að svo miklu leyti, sem það ekki hrekkur, að leggja þau þá á sem gjöld af viðskiptum með almennar nauðsynjavörur, og þá fyrst og fremst á þær vörur, sem hægast er að vera án.

Hv. þm. G.-K. fullyrti, að tollarnir hafi stórkostlega hækkað. Þetta er að sumu leyti satt, en að mestu leyti ósatt. Tollarnir á ýmsum einstökum vörutegundum hafa hækkað, og það verður að viðurkennast, að þær hækkanir voru gerðar mjög fúslega. En það hefir orðið að viðurkenna þá nauðsyn, sem knúð hefir stj. til þessarar tollhækkunar. En heildarupphæð tolla hefir þrátt fyrir þetta lækkað. Þær heildartekjur, sem ríkissjóður hefir af tollum af neyzluvörum almennings hafa lækkað stórlega fyrir það að innflutningur á þeim hefir minnkað stórkostlega á undanförnum árum. Í núgildandi fjárl. er gert ráð fyrir því, að viðskiptagjald, vörutollur og verðtollur nemi samtals 300 þús. kr. minna heldur en vörutollur- og verðtollur námu árið 1934. Og það segir sig sjálft, að á meðan ríkissjóður byggir tekjuvonir sínar á tollum, er óhjákvæmilegt, þegar innflutningurinn minnkar, að hækka tollana á einstökum vörutegundum, ef' sama upphæð eða nokkuð svipuð á að nást með tollunum. Þessi tollahækkun hefir að vísu verið gerð, en þó ekki svo sem gera má ráð fyrir, að þurfa mundi til að vega upp á móti minnkun innflutnings, á sömu vörutegundum og lækkun tolltekna af þeirri ástæðu.

Það er rétt að geta um það hér í þessu sambandi að ein ástæðan til þess, hversu gjaldeyrisvandræðin hjá okkur eru nú sérstaklega mikil og áberandi liggur í því, að á síðastliðnu hausti og í vetur hafa viðskiptaþjóðir okkar. Spánverjar og Ítalir, gert þær ráðstafanir hjá sér, sem valdið hafa því, að við höfum ekki getað fengið greitt á sama hátt og undanfarið fyrir fisk þann, sem við höfum flutt þangað. Svo að nú er svo komið að við eigum þar innistandandi sem nemur fast að 3 millj. kr. fremur venju. Og ómögulegt er annað en að slíkt hafi mikil áhrif á greiðslugetu okkar á líðandi stund. Hv. þm. G.-K sagði m. a., að sjálfstæðismenn hefðu eitt ráð sem dygði við þessum vandræðum öllum og þeir eru svo góðgjarnir í garð föðurlands og þjóðar og jafnvel ríkisstj. og hennar flokka, að þeir hafa boðið stjórnarflokkunum upp á samvinnu til að koma þessum ráðum í framkvæmd. Þessi bjargráð eru að spara útgjöld á fjárl. Þeir hafa haft það við orð fyrr. Ég hefi margsinnis spurt þá á hvaða liðum fjárlaganna þeir vildu spara. Þeim hefir jafnan orðið erfitt um svar. Á síðasta þingi bentu þeir á nokkra liði, sem þeir töldu, að mætti spara á, og er þar fyrst að nefna framlag til atvinnubóta, sem þeir vildu lækka úr 500 þús. og niður í 300 þús. kr. Mér er ekki grunlaust um, að þessi liður sé sá helzti, sem þeir vilja spara á. Því get ég ekki neitað því að mér verður hálfömurlegt að ég ekki segi flökurt. þegar Ólafur Thors, hv. þm. G.-K., og hv. 10. landsk., Þorsteinn Briem í sameiningu eru að gráta krókódílstárum yfir atvinnuleysinu í landinu og vilja sýna umhyggju sína fyrir fátæklingunum og þeim sem stj. rekur nú út á gaddinn, góðgirni sina, fórnfýsi og meðaumkun. Ég minnist þess nú, án þess að þurfa að fara mjög langt aftur í tímann, að öðruvísi þaut í þeim skjám. Ég man ekki betur en að allar fjárveitingar til atvinnubóta frá því, er þær hafa fyrst komið á fjárl., hafi svo að segja undantekningarlaust mætt mjög mikilli andúð og mótblæstri af hálfu Sjálfstfl., og Bændafl., eftir að bandalag tókst á milli þeirra flokka, og jafnvel fyrr. Þetta er ekkert nýtt fyrirbrigði, heldur hefir þetta verið svona frá byrjun. Ég minnist þess, að árið 1923 var borið fram frv. um skráningu atvinnuleysingja í landinu. Form. Sjálfstfl. þáv., Jón Þorláksson mælti mjög gegn því frv. og taldi því öll tormerki, að nokkurt gagn gæti orðið að því að setja slík lög, taldi að það mundi verða aðeins þýðingarlaust pappírsgagn. Hann sagði við umr. um það mál:

„Hvenær eru þessir menn atvinnulausir? Hvernig er unnt að taka skýrslu um atvinnuleysi í hóp sem stundar svo lausa og stopula vinnu sem eyrarvinnu í Reykjavík? Ég hygg að það, sem tillagan fer fram á, verði ekki framkvæmanlegt almennt. Ég hygg að úr því mundi verða gagnslaust pappírsflóð til einhverrar skrifstofu í Reykjavík, sem ekkert yrði unnið úr, fyrr en svo seint, að það yrði að engu liði.“

Þetta talaði sá maður, sem mest mælti gegn þáltill., sem borin var fram á Alþ. um þetta mál 1923 og felld þá. Og það var ekki fyrr en árið 1928, sem till. um þetta efni var samþ., eftir harða baráttu.

Hvenær sem íhaldsmenn eru spurðir um það, á hvaða liðum þeir vilji koma fram sparnaði, þá verður þeim allra fyrst fyrir að benda á framlagið til atvinnubóta. Og svo koma þessir heiðursmenn og tala klökkir um vonzku núverandi stj., og hvað þeim renni sárt til rifja vandræði atvinnuleysingjanna.

Á síðasta þingi voru samþ. 1., gegn vilja þeirra um hækkun á fjárframl. til atvinnubóta og framlögum til verklegra framkvæmda, þau tvö mál, sem mest bæta úr atvinnuleysinu af ráðstöfunum þessi opinbera. Það er því ekkert annað en hræsni ein þegar þessir menn látast nú harma ástandið í þessu efni hjá fátæklingunum í landinu, þ. e. atvinnuleysið. Hv. þm. G.-K. lét svo um mælt, að fyrsta loforðið, sem ríkisstj. hefði gefið þjóðinni, hefði verið, að hún skyldi útrýma atvinnuleysinu í landinu. Hv. 10. landsk. var því það nær sannleikanum, að hann sagði, að það væri markmið stj. að útrýma atvinnuleysinu í landinu. Það er nokkurnveginn rétt frá skýrt. Ég verð að segja það, að ríkisstj. hefir eftir atvikum gert það sem hún gat gert til þess að draga úr atvinnuleysinu og hindra aukningu þess, einmitt með því að ganga svo langt í skattaálögum sem hún hefir gengið, hvað fordæmt er af þessum hv. þm. báðum. Ef ekki hefði verið svo langt gengið í því að afla ríkissjóði tekna sem gert hefir verið, þá hefði verið ómögulegt að halda uppi þeirri atvinnuaukningu í landinu, sem þó hefir tekizt fyrir þessi framlög. Hv. þm. G.-K. sagði, að í byrjun þingsins hefði verið fullkomið samkomulag um það í fjvn. að skera niður ýmsa útgjaldaliði á fjárl., en að stjórnarflokkarnir hefðu að lokum komið sér saman um að éta upp þennan sparnað, að mér skildist sér til mungáts og fagnaðar. Það er rétt, að á móti þeirri lækkun á gjöldum ríkissjóðs, sem var tæpl. 1 millj. kr., sem samþ. var á fjárl. á síðasta þingi, þá varð samkomulag á milli stjórnarflokkanna um aðrar tilsvarandi hækkanir, eða nokkuð ríflegri. En hverjar voru þær? Um hálf millj. (510 þús. kr. á fjárl.) til alþýðutrygginganna, um 250 þús. kr. í nýja vegi, fyrir utan hækkun á framlagi til annara vega, sem námu 150 þús. kr. a. m. k. Þá er framlag til skuldaskilasjóðs 180 þús. kr., til iðnlánasjóðs 25 þús. kr. og nokkrir fleiri póstar.

Haldið þið, að ástandið hefði verið betra, ef þessir liðir hefðu verið sparaðir. ef atvinnubótaféð hefði verið lækkað, dregið úr vegavinnunni. ef ekkert hefði verið gert til þess að koma n alþýðutrygginum Hvenær er þörf á tryggingum, ef ekki á þeim tímum, þegar efnahagur almennings er slíkur, að hvað lítið sem út af ber vegna veikinda eða af öðrum orsökum, þá brestur megn til að mæta áföllunum? Einmitt á vandraðatímum er mest þörf á alþýðutryggingum og óhjákvæmilegt að setja l. um þær. En það er ekki til neins að setja l., ef ekki eru gerðar ráðstafanir til þess ,ð framfylgja þeim. Og í því tilliti þarf viðvíkjandi þessum l. að sjá fyrir kostnaðinum, sem af framkvæmd þeirra leiðir. Að skattahækkanir þær, sem þingmeirihl. hefir samþ. og á var minnzt, dragi eða hafi dregið úr atvinnuvegunum, er fjarstæða ein af þeim ástæðum, að þær skattahækkanir, sem á hafa verið lagðar, koma ekki niður á atvinnurekstri landsmanna nema að hverfandi litlu leyti. Tekju- og eignarskattshækkunin kemur ekki niður á þeim fyrirtækjum, sem rekin eru með tapi, eins og fullyrt er nú, og það með miklum rétti um sjávarútveginn, og eins sennilega á sér stað og hefir átt sér stað síðustu árin um landbúnaðinn að verulegu leyti. Enda bera skattskýrslurnar þess órækt vitni, að þessir skattar lenda ekki á þessum fyrirtækjum.

Lendir viðskiptagjaldið, sem áætlað var 750 þús. kr., á þessum atvinnuvegum? Nei, allar framleiðsluvörur til lands og sjávar eru undanþegnar því með öllu. Það má að vísu segja, að sá hluti viðskiptagjaldsins, sem lagður er á nauðsynjavörur almennings, lendi á framleiðslunni á þann hátt, að fyrir það þurfi verkafólk hærra kaup til þess að geta keypt sitt lífsviðurværi. Enn hafa þó engar kröfur komið fram um kauphækkun af þeim ástæðum, hvað sem verður síðar.

Mér fannst það dálítið einkennilegt, þegar hv. þm. G.-K. sagði, að haftastefna okkar væri nú að sigra suður á Spáni og Ítalíu. Ég hafði ekki haldið, að ríkisstj. Íslands, þó að hún sé nú kannske nokkuð gustmikil, að beinlinis hún setti þeim reglur þar niðri frá um það, hvernig þeir skyldu haga sínum verzlunarmálum, né að þeir sæktu fyrirmyndir hingað til okkar. Enda var farið að beita þeim höftum víðsvegar í löndum mjög ákveðið, áður en núv. ríkisstj. tók við völdum.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að þeim kafla í ræðu hv. þm. G.-K., sem hann lagði nú mestan raddstyrkinn í og hv. 10. landsk. reyndi að taka undir með honum eftir beztu getu. En það er í stuttu máli það sem hann vildi sagt hafa, að mér skildist, að á þeim erfiðleikatímum, sem hann lýsti að nú væru, þá bættist sú hörmung ofan á, sem þungbærust væri af öllu, að opinber stofnun, fiskimálanefnd, væri nú gersamlega að eyðileggja sölumöguleika sjávarafurða okkar, ef ekki alstaðar, þá a. m. k. í Norður-Ameríku allri, og að þetta gerðist fyrir hroka og ofmetnað eins manns, Héðins Valdimarssonar. og dáðleysi annars, Haraldar Guðmundssonar. Ég verð nú að segja það, að ef ekkert væri annað efiðara viðfangs í veginum til að tryggja ótæmandi markaði fyrir okkar afurðir í Ameríku heldur en það að lægja hrokann í Héðni og auka kjarkinn í mér eitthvað dálítið, þá væri ekki svo mjög dimmt framundan í okkar afurðasölumálum. En það var sama snið á ræðumennsku hv. þm. G.-K., er hann falaði um þetta atriði. eins og endranær í ræðu hans, að hann tilfærði engin dæmi, heldur lét sér nægja fullyrðingarnar einar. En ég vil nú nokkuð greina frá því. hvernig þessi mál eru vaxin.

Á fyrsta þinginu eftir að stjórnarskiptin urðu, sneri ríkisstj. sér og þingflokkarnir að þeim málum, sem tvímælalaust skipta langmestu máli og mest veltur á, ég á við sölu afurða okkar innanlands og utan. Á því þingi voru sett lög um kjötsöluna og mjólkursöluna. Og ef ég gizka rétt á, þá verður rætt mikið um þau l., það sem eftir er af þessum eldhúsumr. Jafnframt voru þá sett l. um sölu fisks og síldar, þar má nefna l. um fiskimálanefnd og síldarútvegsnefnd ok annað fleira. Þegar l. um fiskimálanefnd voru til umr. á þinginu haustið 1934, þá barðist Sjálfstfl. allur gegn því, að þau 1. næðu fram að ganga. og fullyrti, að tilgangurinn með þeim l. væri sá einn að drepa þann félagsskap, sem landsmenn höfðu stofnað með sér til að selja sínar afurðir, nefnilega Union svokallaða. Ég hélt því fram þá aftur á móti, að eina ráðið til þess að tryggja það, að saltfisksalan færi fram með skipulegum hætti væri það að samþ. l. um fiskimál,nefnd og þar með það, sem ákveðið var í þeim l. um skipulag á saltfisksölunni. Það varð svo ofan á, að þessi l. voru samþ., og síðan hafa verið gerðar á þeim lítilsháttar breyt., þar sem stj. var gefinn réttur til að skipa 2 menn í stj. fiskimálan., en lækkað var nokkuð ákvæðið um fiskmagn það, sem aðili þurfti að hafa til þess að teljast aðalútflytjandi, til þess að fiskinmálan. gæti orðið aðalútflytjandi. Afleiðing þess var svo sú, að fiskeigendur víðsvegar að landinu héldu með sér fund og sömdu ný lög fyrir sölusumband, sem þeir mynduðu. Um mánaðamótin maí-júní s. l. fékk svo þessi félagsskapur löggildingu atvmrh. til þess að vera aðalútflytjandi á saltfiski. Í l. þessa félagsskapar, sem samþ. voru á þessum fundi, var það skýrt sagt að hann væri stofnaður til þess að selja saltfisk félagsmanna. En enginn hreyfði því þá, að tilgangurinn með félagsskap þessum væri sé að gera tilraunir með öðruvísi verkaðan fisk, hertan eða frosinn t. d. Enginn hreyfði því á fundinum, og enginn vildi gera þar breyt. á l. að þetta yrði tekið með inn á starfssvið félagsins. Enda var slíkt ekki eðlilegt, því að í l. um fiskimálanefnd var því beinlínis slegið föstu, að önnur stofnun (heldur en þessi félagsskapur) hefði þær tilraunir með höndum.

Stjórn þessa félags skipa 7 menn, 2 eru skipaðir af stj., og eru það þeir form. fiskimálanefndar, Héðinn Valdimarsson, og forstjóri S. Í. S., Jón Árnason, auk þess eru 2 bankastjórar, sinn frá, hvorum banka. Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands og 3 aðrir eru kjörnir á fundum, og eru það þeir Sigurður Kristjánsson, Jón Kjartansson og sá þriðji sem ég man ekki í svipinn, hver er.

Stj. er þá svo skipuð, að5 af þeim, sem í henni eru, eru kosnir af félögunum sjálfum, en 2 eru tilnefndir af atvmrh. Fiskimálanefnd aftur á móti er þannig skipuð, að 6 eru kosnir af stefnunum sem hafa sjávarútveg að gera, en einn Héðinn Valdimarsson sem líka á sæti í stjórn fisksölusambandsins er skipaður af atvmrh.

Fisksölusambandið hefir haft saltfisksölu fiskframleiðslunnar á árinu 1935 með höndum fram til þessa dags. Þegar fisksölusambandið hafði fengið löggildingu, flutti Jón Árnason till. 4. júlí um að gera tilraun með sölu á saltfiski til Suður-Ameríku en eldri Union hafði ekki reynt það nema lítilfjörlega fyrir 1930, en þá féll algerlega niður öll sú starfsemi.

15. ágúst eftir að málið hafði verið athugað nánar, ber svo Magnús Sigurðsson bankastjóri fram till. um að senda mann til Suður-Ameríku til þess að reyna að vinna þar markað fyrir saltfisk. Þetta hefir verið gert og gefið þann árangur, að líklegt verður að teljast að töluvert af saltfiski megi senda þangað. Á þessu ári hafa verið seld þangað 5–6 þúsund tonn af saltfiski, og ég verð að segja það, að þegar það er athugað að ekkert annað hefir verið gert til þess að fá þennan markað en að senda þangað mann til að ná í samband, þá verður þetta að teljast mjög góður árangur. Hefði slíkt verið gert áður, áður en svo mjög fór að þrengjast um markaðsmöguleika í Evrópulöndunum, þá hefðum við staðið miklu betur að vígi. Ef við hefðum verið búnir að vinna 5–10 þúsund tunna markað í Ameríku, hefði orðið ólíku þægilegra fyrir okkur að mæta markaðsrýrnun á Spáni og Ítalíu.

9. október flutti svo Héðinn Valdimarsson till. um að senda mann til Norður-Ameríku og Kuba í sömu erindum. Fiskimálanefnd hafði áður skrifað sölusambandinu og beðið það að sendi manninn. Þegar svo að sölusambandið hafði ákveðið að senda mann þá bauðst fiskimálanefnd til að kosta manninn að nokkru leyti, ef hann gerði fleira en athuga markaðsmöguleika fyrir saltfisk. Hinn 12. okt. bar svo Magnús Sigurðsson fram till. um, að þessu tilboði fiskimálanefndar yrði tekið samvinna væri höfð um sendimanninn og hann látinn dvelja lengur vestra heldur en sölusambandið annars hafði ætlazt til, en sölusambandið hafnaði þessu og sendi manninn upp á eigin spýtur erinda sinna. og maðurinn hafði skamnta dvöl og gat lítið gert.

Nokkrir menn þar vestra höfðu áður skrifað Union, og þess vegna var hendi næst að ná í þá menn. Sendimaðurinn fór þess vegna fyrst til þeirra og réð þá sem umboðsmenn fyrir sölusambandið þar vestra.

Það, sem fiskimálanefnd hafði sérstaklega fyrirlagt manninum að athuga, voru möguleikar fyrir því að selja bæði frosinn og hertan fisk til Bandaríkjanna. Þegar hann hóf þessa athugun kom brátt í ljós, að frosinn fiskur er mikið notaður í Bandaríkjunum og, að útlit var fyrir, ef fiskurinn kæmist þangað þannig að hann væri fyllilega markaðshæfur, að mikill markaður náðist fyrir hann.

Þegar maðurinn kemur heim, hefst Union handa um að útbúa tilraunasendingu af freðfiski til Bandaríkjanna. Nú er ekki í lögunum til þess ætlazt, að fisksölusamhandið hafi slík: starf með höndum. Í lögunum er það ákveðið, að það skuli vera starf fiskimálanefndar, og hún hafði falið Kristjáni Einarsyni að athuga þessa markaðsmöguleika. Fisksölusambandið ákveður nú eins og ég sagði áðan að útbúa tilraunasendingu af frosnum fiski. Það lætur Sænsku frystihúsið frysta nokkuð af fiski og fær Esphólínfrystan fisk í frystihúsi n. Allt var þetta gert án vitundar og samþykkis fiskimálanefndar. N. leyfði svo sölusambandinu að senda þann fisk, sem það hafði látið frysta, en þann fisk, sem frystur hafði verið með tækjum og starfsmönnum n., sendi hún sjálf vestur. Jafnframt var ákveðið, ef þessi tilraunasending líkaði vel, að leigt yrði þá skip og sendur stærri farmur.

Nú hafði Kristján Einarsson látið þá umboðsmenn, sem hann fékk vestra, skilja það, að ekkert væri því til andstöðu að Union annaðist sölu á frosnum fiski samhliða saltfisksölunni, og hafði samið um, að þeir fengju nokkuð at frosnum fiski til sölu. En þegar K. E. kemur heim, telur fiskimálan., að án heimildar og samþykkis síns geti Union ekki flutt út annað en saltfisk. og í öðru lagi telur fiskimálan. að ekki sé næg þekking á sölumöguleikum fyrir frosinn fisk í Bandaríkjunum, og samþykkir því að sendu mann vestur til þess að fylgjast með því hvernig salan gangi, og athuga hvert fyrirkomulag muni að öllu leyti verða heppilegast til þess að vinna þar varanlegan markað fyrir frosinn fisk. Fisksölusambandið tekur þetta óstinnt upp. Það telur sig rétt borið til þess að verzla með allan fisk og telur það glapræði at fiskimálanefnd að sletta sér út í þessi mál og þar framkvæmdir, sem þeir séu að gera í þeim.

Fiskimálanefnd vildi ekki láta ónotaða þá möguleika, sem kynnu að hafa skapazt þar vestra, og þegar K. E. var kominn heim, átti sölusambandið tal við mig og spurði mig, hvort hægt mundi vera að fá útflutningsleyfi fyrir öllum farmi Steadies, ef hægt væri fyrir fram að tryggja sölu á honum, og taldi ég ekkert því til fyrirstöðu. Af fiskimálanefnd var svo lagt til, að af þeim 200 tonnum, sem senda átti, fengju þeir menn, sem K. E. hafði talað við, 130 tonn, þannig að tveir þeirra fengju sin 50 tonnin hvor, en sá, þriðji fengi 30 tonn en þau 70 tonn, sem þá voru eftir, átti að reyna að selja öðrum og leita eftir markaðsmöguleikum með þeim, einkum í New-York. Þessi firmu, sem K. E. hafði samið við, önnuðust svo um söluna með þeim árangri, að eitt þeirra gat selt 45 tonn, en hin gátu ekkert selt, og þessi 45 tonn voru seld þannig, að skipinu var ætlað að fara héðan frá Reykjavik í byrjun marzmánaðar og vera komið til New-York þann 16–20. sama mánaðar. Steady-farmurinn er svo sendur til þessa umboðsmanns, sem K. E. hafði ráðið vestra. Fiskimálanefnd var með öllu ókunnugt um þann samningsgrundvöll, sem lagður hafði verið fyrir sölunni, að salan væri bundin því skilyrði að skipið kæmi vestur þann 16.–20. marz.

Nú gerist það eftir að skipið leggur af stað héðan, að afli eykst í Bandaríkjunum, og ísa fer að leysa þar of vötnum, og verður þetta til þess, að verð á fiski lækkar þar frá því, sem verið hafði, þegar samið var um þessa sölu. Skipið kemur svo ekki vestur fyrr en að morgni þess, 21. marz eða 6–8 klt. síðar en tilskilið var, og þessa átyllu notar svo kaupandi til þess að segja sig lausan frá kaupunum. Þetta kemur flatt upp á fiskimálanefnd, sem vissi ekki annað en að skipið ætti að koma um þann l6.–20. marz, en hafði enga hugmynd um, að umboðsmaðurinn hafði gengið þannig frá kaupunum, að þau voru bundin við þann 20.

Þegar svo að þess er gætt, að fiskur hafði aukizt vestra og verð fiskjar hafði lækkað, þá er engin von til þess, að tekizt hefði að selja fiskinn, ef enginn maður hefði verið fyrir vestan til að taka á móti farminum. Það er bersýnilegt, að umboðsmenn K. E. höfðu ekki gert störf sín svo vel.

Sigurður Jónasson snýr sér svo til manna fyrir vestan og tekst að selja nokkurn hluta fiskjarins fyrir nokkru ægra verð en áður hafði verið um talað, en hærra verð en umboðsmaðurinn ætlaði að selja fyrir. Hann hefir fengið 2 eða 3 tilboð, svo miklar líkur eru til þess, að fiskurinn breiðist út og verði viðkunnur og að það sýni sig, hvernig fólki gezt að honum. Þá fást líka upplýsingar um það, hvernig þarf að búa um fiskinn og það hefir sýnt sig, að umbúðirnar eru ekki góðar, bæði þarf aðra tegund af pappír, og einnig þarf að vera áletrun á pökkunum. o. fl. þarf að taka til athugunar.

Ég hirði ekki um að rekja þessa sögu mikið lengra, en ég hefi aldrei vitað lubbalegri aðferð en beitt er gegn fiskimálanefnd nú. Allir eru sammála um, að ein sú þýðingarmesta tilraun, sem gerð hafi verið til að vinna nýjan markað, sé sú tilraun, sem nú er verið að gera með sölu á freðfiski til Vesturheims, og á meðan verið er að gera þessa tilraun, áður en nokkuð er séð um árangurinn, og þótt engar heimildir séu komnar hingað þá er hóað saman fundum til þess að rægja fiskimálanefnd fyrir starf hennar, lygasögur eru prentaðar stórum stöfum, fiskeigendum er stefnt saman og því logið í blöðum sjálfstæðismanna, að hægt hafi verið að selja Steady-farminn með 20 þúsund kr. hagnaði.

Ég mætti á fundi, sem boðað var til af nokkrum sprautum Sjálfstæðisflokksins. Sumpart voru þar félagsmenn úr sölusambandinu og sumpart menn, sem höfðu fengið umboð. Ég bar fram á þessum fundi till. þess efnis, að fundurinn harmaði þann ágreining, sem risið hefði á milli þessara tveggja stofnana, fiskimálanefndar og sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda og að fundurinn treysti því, að samvinna tækist á milli þeirra. Ég hygg, að ekki sé ofmælt að það sé eingöngu að þakka lögunum frá 1934, að fisksölusambandið er nú starfandi, og mér er kunnugt um, að það kostaði ekki litla vinnu að gera þetta félag starfshæft og koma allri saltfisksverzlun á eina hönd. En ef beitt hefði verið sömu aðferðum gegn sölusambandinu sem beitt hefir verið gegn fiskimálanefnd, þá er ég hræddur um, að það hefðu farið að heyrast kveinstafir úr þeirri átt — Það minnsta, sem verður að krefjast, er að beðið sé með að fella dóm um söluna. þangað til reynslan sker úr með það. hvernig hún tekst með þennan farm, sem sendur var til Ameríku.

Ég hefi þá ákveðnu skoðun á þessum málum, að það sé nauðsynlegt vegna söluerfiðleika, að saltfiskverzlunin sé öll á einni hendi, svo að dreifðir útflytjendur spilli ekki hver fyrir öðrum og ég hefi unnið að því, að þetta fyrirkomulagi kæmist á saltfisksöluna. Hinsvegar er það jafn sjálfsagt, að sérstakar tilraunir séu gerðar með nýja sölumöguleika og nýjar verkunaraðferðir, en það á ekki að vera í höndum sömu manna, vegna þess að það er óskylt mál. og auk þess hafa þeir menn, sem í Union hafa gengið, gert það til þess, að félagið ynni að sölu á saltfiski, en ekki öðru.

Ég skal svo að lokum bæta því við, að ég held ef menn athuga lýsingu hv. þm. G.-K. á ástandinu eins og það var 1934 í útvegsmálum og atvinnumálum þjóðarinnar undir stjórn hinna ráðkænu útvegsmanna og bera svo saman við þá lýsingu sem þessi sami hv. þm. gaf út, þá finnist þeim ekki, að munurinn sé mikill. — En þrátt fyrir allar hrakspár 1934 hafa þó allar afurðir landsmann. selzt og ekki orðið mikil afföll. En úr því að snilli og ráðkænska útvegsmanna hafði ekki getað skapað betra ástand og glæsilegri skilyrði heldur en raun bar vitni um 1934, þá er ofur eðlilegt, að menn fari að hugleiða það. hvort það sé rétt og sjálfsagt að fá þessum mönnum allt í hendur. — Ég tel ekki, að það sé rétt.