07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

1. mál, fjárlög 1937

Jón Pálmason:

Það er alþjóð kunnugt, að við sjálfstæðismenn erum búnir að vera í minni hl. á Alþ. nálegu um 9 ára skeið. Allan þann tíma hafa núv. stjórnarflokkar ráðið í landinu. Þegar allt breytist eins ört og gerist nú á tímum, þá eru 9 ár langur og áhrifarikur valdatími. Um það er því eigi að villust, að það ástand, sem nú er hér í fjármálum menningu og atvinnulífi, er reynsla sem þjóðin hefir fengið af þessum valdaflokkum, að því leyti, sem innlendir menn mega því ráða.

Um það bil, sem framsóknarmenn með aðstoð Alþfl. voru að brjótast til valda í landinu 1927 þá var þerra höfuðherorð þetta: „Alhliða viðreisn í sveitum landsins.“

Þetta herorð var hrópað landshornanna á milli. og ekkert Tímablað kom út, án þess að loforðið væri þar í ýmsum útgáfum. Nú hafa þessir sömu flokkar bráðum ráðið 9 ár, ekki einasta yfir landbúnaðarmálum heldur yfir öllum fjármálum þjóðarinnar á Alþingi og í ríkisstjórn. Þeir hafa haft yfirstjórn í banka- og peningamálum. Þeir hafa ráðið í Sambandi ísl. samvinnufélaga og Búnaðarfélagi Íslands. En þær stofnanir eru sterkar um áhrif í íslenzkum sveitum. Það mætti því ætla, að nú hefðu bændur og sveitamenn ekki ástæðu til að kvarta. Nú væri alhliða viðreisnin, sem lofað var, komin í framkvæmd. Það er því allrík ástæða til að bregða upp nokkrum myndum af því ástandi sem nú er í sveitunum.

Það hefir oft verið bent á þá miklu ræktun sem fram hefir farið í sveitunum á undanförnum árum, sem sönnun þess, að mjög miklar almennar framfarir hafi þar átt sér stað og nú stæði sveitafólkið miklu betur að vígi en nokkru sinni fyrr.

Það er nú staðreynd, að síðustu 12 árin hefir meira verið ræktað í landinu en nokkru sinni áður, og hafa margir bændur sýnt frábæran dugnað í því efni. En hvaða orsakir liggja til þessa? Þær eru aðallega tvær.

Í fyrsta lagi sú, að þetta eru áhrif tveggja laga, sem sett voru áður en núverandi stjórnarflokkar fengu völd: jarðræktarlaganna og ræktunar- sjóðslaganna.

Í annan stað hafa bændur verið blátt áfram neyddir til að bjarga lífi sínu sem framleiðendur á þann hátt að minnka sem allra mest þörfina fyrir að nota þann vinnukraft, mannsaflið, sem gerður hefir verið torfengnari og dýrari en nokkur dæmi eru til áður í hlutfalli við arðinn af framleiðslunni.

Í þessu ljósi ber meðal annars að skoða ræktunarframkvæmdirnar. Þær eru ekki afleiðing eðlilegrar umbótaþróunar og fjárhagslegrar velgengni, heldur annarsvegar áhrif opinberra, að vísu réttmætra styrkja, hinsvegar ávöxtur þess, ástands, sem svipar mjög til þess, sem sagt er um arabíska, hestinn, að hann taki harðasta sprettinn, þegar hann er kominn að því að springa.

En hvernig er nú búið að fara með ræktunarsjóðinn? Og hvernig á að fara með jarðræktarlögin. Ræktunarsjóðurinn hefir verið aðaluppistaðan í Búnaðarbanka Íslands og eina deildin sem hefir sæmilega vel annað sínu hlutverki. En nú virðist sá tími liðinn. Fé þessarar stofnunar er búið að festa mjög mikið í öðru. Þar fæst ekki einn eyrir til ræktunar. Þeir bændur sem einskis hafa notið af hinni svonefndu kreppuhjálp annars en tjóns, eru sem aðrir útilokaðir frá öllu lánsfé til ræktunar á þessum stað. Þetta er gersamlega óþolandi og sýnir eina myndina af fjármálaaðförunum.

Jarðræktarlögunum ætla stjórnarflokkarnir nú að breyta í það horf, að þar fái sumir styrk en sumir ekki, og mest þeir, sem lítið eða ekkert hafa áður gert.

Frumvarp um það efni er tilbúið frá mþn., en hefir ekki enn verið afhent öðrum þm. en stjórnarliðum. Þó nú að svona sé þá er í ræktunarmálum að finna björtustu myndina af ástandinu í sveitum á stjórnartímabili núv. valdaflokka.

En hvernig er nú með fólkið sjálft? Hvaða mynd sýnir þess ráðbreytni á síðustu 9 árum? Frá því í ársbyrjun 1927 og til ársloka 1934 hefir alls fjölgað í landinu um 13013 manns. Á sama tíma hefir fækkað í sveitum um 2160 en fjölgað í kaupstöðum og kauptúnum með yfir 300 íbúa um 15173. Sveitirnar hafa á þessu 8 ára tímabili tapað allri fjölguninni 2160 í viðbót.

En ef miðað er við fólksfjölgunina í heildinni á þessu tímabili, hefir flutzt úr sveitum um það bil 8870 manns.

Nú hefir straumurinn verið mestur 1935, en um það eru eigi skýrslurnar til. Þó er víst óhætt að gera ráð fyrir, að talan verði að því viðbættu 10 þús. manns. Þetta fólk hefir flúið úr sveitunum á 9 ára valdatíma stjórnarflokkanna.

Og hvaða fólk er nú þetta?

Meginhluti þess er ungt fólk og fólk á bezta aldri. Það er dýrmætasta eign sveitanna. Það er sá auður, sem þeirra framtíð átti að byggjast á og gat byggzt á. Við það voru björtustu vonirnar bundnar. Þetta er eigi hægt að reikna til verðs, en væri það gert eftir mælikvarða tryggingarlaganna nýju, þá er þarna um 60 millj. kr. tjón að ræða fyrir sveitir landsins.

Auk þess hafa flutzt burtu með þessu fólki millj. í fjármunum, sem í sveitunum hafa aflazt. Aðalorsakirnar til þessa liggja í áhrifum þeirra manna sem þetta tímabil hafa stjórnað landinu, ekki einasta áhrifum þeirra í landsstjórn og á þingi, heldur engu síður í félagslífi, menning- armálum og blaðamennsku.

Nú er það svo, að þó sveitunum hafi verið óbætanlegt tjón í burtflutningi þessa fólks og þeirra fjármuna, sem því hafa fylgt, þá hefir kaupstöðum og kauptúnum eigi orðið þetta tilsvarandi hagur, af því að atvinnuskilyrði þar hafa ekki aukizt að sama skapi.

En hvernig er nú með það fólk, sem eftir er í sveitunum og smáþorpum? Hvaða fólk er það? Og skyldi það vera hrifið af alhliða viðreisninni, sem lofað var fyrir 9 árum?

Yfirgnæfandi meiri hl. fólksins í flestum sveitum eru börn innan fermingar og fólk sem er komið yfir miðjan aldur. Það sem komizt hefir af barnsaldri til æskuára, síðan viðreisnartímabilið byrjaði, hefir farið.

Það er því engin furða, þegar svona er komið, þó vonleysi grípi marga þá bændur, sem allar framtíðarvonir sínar og sinna barna hafa áður bundið við héraðið sitt, sveitina sína og jafnvel jörðina sína. Enda er það svo, að fjöldi bænda bíður fyrsta færis að geta selt og farið á eftir börnunum sínum.

Þetta er sannarlega eigi að kenna landinu eða lífsskilyrðum sveitanna. Aukin þekking aukin tækni og fjölgandi atvinnugreinar sýna það og sanna betur nú en nokkru sinni fyrr, að þar getur lifað mörgum sinnum fleira fólk en þar er og liðið vel. Þetta stafar heldur ekki af hallæri eða tröllalátum okkar trylltu náttúruafla á undanförnum árum. Heldur stafar þetta af óhæfu stjórnarfari og öllu því ölduróti og óreiðu, sem kröfupólitík og öfgakenningar sósíalismanns hafa leitt inn í þjóðlífið.

Eitt af því, sem sýnir glöggt, hvernig nú er komið er það hvernig ástatt er með undirstöðu sveitaframleiðslunnar, jarðeignirnar. Verðið á þeim er öruggasti mælikvarði fyrir því, hvernig sveitamennirnir sjálfir líta á framtíðina. Frá aldamótum og fram um 1927 var mjög mikil eftirspurn eftir jörðum. Fengu þær færri en vildu, og þær seldust háu verði, oft margföldu við matverð.

Nú er þetta orðið svo breytt, að jarðir eru lítt seljanlegar og alls eigi nema fyrir lítið verð. Ég þekki dæmi til, að bóndi keypti jörð fyrir 10 árum á 10 þús. kr. en seldi hana síðastliðið vor fyrir 3600 kr. Hafði þó orðið fyrir stórtapi í vaxtagreiðslum á tímabilinu. Þarna var verðfallið 64% að mati bóndans sjálfs á valdatíma stjórnarflokkanna, en þó er lítið verðfall á afurðum, ef miðað er við 1927 og1935.

Um það hafa staðið miklar deilur milli sjálf- stæðismanna og stjórnarliða, hvort bændur eða ríkið ætti að eiga jarðirnar.

Formælendur ríkiseignastefnunnar eru komnir vel á veg með að sigra þann leik, af því að þeirra stjórnarfar og félagsmálastefna er búin að koma því til leiðar, að flestar jarðir í einkaeign eru toppveðsettar.

Nú álíta þeir líka hina réttu stund upp runna. því nýlega hafa þeir lagt fyrir þingið frumv. um jarðkaup ríkisins, sem vitanlega stefnir að því, að allar jarðir verði ríkiseign. Þetta frumv. er borið fram sem bjargráðamál fyrir bændur, og það er engin fjarstæða, að svo geti reynzt mörgum einstaklingi.

En af hverju?

Af því að fjármálaóstjórn núv. valdaflokka er búin að kom hag margra bænda á það stig, að þeir hafa um tvennt að velja, ef þetta nær lagagildi, — annað að ganga slyppir frá hinni veðsettu jörð, sem peningastofnanir taka upp í skuld, eða afhenda hana ríkinu og fá að hírast áfram sem leiguliðar. Þannig er myndin af alhliða viðreisninni.

Að laga það ástand, sem við augum blasir, er nú orðið hægra sagt en gert. Það er erfitt verk að byggja upp húsið, þó eigi kosti nema eina eldspýtu að brenna það til ösku á lítilli stundu. Það er nú líka vitað, að núna er við að stríða margvísleg utan að komandi vandræði, sem þjóðinni eru ósjálfráð, svo sem markaðshömlur, harðindi og aflaskort. Þeir, sem nú ráða, vilja kenna þeim annmörkum um allt hið illa ástand, sem nú ríkir í landi voru, en slíkt er fjarstæða. Hitt er aftur á móti rétt, að afleiðingar innanlandsóstjórnar og mistaka koma fyrr í ljós, og eru alvarlegri af því verzlunarhömlur og önnur vandræði bera að höndum. Þessu er eins farið og því, að bóndinn, sem að hausti setur fénað sinn í bersýnilegan voða, hann er jafnsekur, hvort sem kemur góður vetur eða harður. Hann getur sloppið nokkurn veginn ef vel viðrar. Komi harðindi, fær hann að kenna á sínu fyrirhyggjuleysi. Sökin er sama, hvort sem verður, og eins er nú ástatt með afstöðu okkar þjóðar. Vandræðin eru ekki sprottin af viðskiptareglu, en hegningin fyrir óstjórn og ráðleysi hefði getað dregizt og orðið minni ef áfram hefði haldizt sæmilega frjáls viðskipti og endalaust góðæri. Það er nú kunnugt, að gjöld ríkissjóðs hafa verið frá miðju ári 1927 til þessa dags um 150 millj. kr. a. m. k. Á sama tíma hafa öll gjöld sveitar- og bæjarfélaga numið 40–50 millj. kr., og talsverður hluti þeirra gjalda fer alltaf eftir því, hvernig fjármálum ríkisins er stjórnað. Þetta er ægileg upphæð, og eigi furða, þó illa sé komið, jafnvel þó talsverður hl. þessa fjár hafi farið til nauðsynlegra hluta. Auðvitað hefir þetta komið harðast niður á framleiðendum, því öll gjöld lenda á framleiðslunni fyrr eða síðar eða safnast í skuldum, sem aldrei greiðast. Áhrifin hafa komið fram í aukinni dýrtíð á öllum sviðum lægra verði á framleiðsluvörum vegna tilkostnaðar við verkun og sölu, auk allra beinna skatta. Jafnhliða hefir verið unnið að því af Alþfl. beinlínis og Framsfl. óbeinlínis vegna félagsskaparins að hækka laun og kaupgjald langt umfram það, sem framleiðslan þolir. Þetta hefir verið gert undir því yfirskini, að verið væri að vinna fyrir hagsmuni verkamanna, og þeir undramargir ginntir til fylgis við stjórnina á þann veg. En hér hefir annað verra að baki búið, sem sé það að eyðileggja það þjóðskipulag, sem verið hefir í landinu til síðustu tíma og byggt er á atvinnufrelsi, eignarrétti, vinnufriði og félagsfrelsi, en stofna þess í stað sósíalistaríki, þar sem allir eiga að eiga allt en enginn neitt. Að verkamenn hafi öðrum fremur haft hag af þessu er algerlega rangt, ef almennt er á málið litið. Unga fólkið hefir meir og meir hópast í stétt verkamanna vegna vonar um vel borgaða atvinnu, en fjöldinn smám saman orðið svo mikill, sem um vinnu sækir, að eigi getur nema nokkur hl. fengið hana. Hitt er atvinnulaust nema tíma og tíma, af því hin gamla eðlilega atvinna við almenn framleiðslustörf hefir fallið úr eða rýrnað til stóru muna, einkum í sveitum. Við þetta hefir verkafólkið lent í fullkomnu ófrelsi. Sumt orðið að kaupa atvinnu fyrir há tillög til verkalýðsfélaga, auk kjörfylgis við öfgastefnu, en sumt farið á sveitina eða í hina svonefndu atvinnubótavinnu, sem er sveiturframfæri nr. 2. Og nú er enn á ný búið að búa út nýja gildru til að ginna fólkið með úr sveitum landsins, en það er atvinnuleysistryggingin, sem svo er kölluð. Í því felst fyrst og fremst það, að borga mönnum kaup fyrir að gera ekki neitt. Verkalýðurinn hefir því sannarlegu ekki ástæðu til að hrósa happi yfir ástandinu. Hann eins og allar stéttir landsins fær að kenna á því, ef þjóðfélagsmálum er ill, stjórnað, og það er þeim æfinlega, þegar ósamræmi er milli framleiðslu og tilkostnaðar. Verkafólkið veit það sjálft, að því er heppilegri örugg vinna með lægra kaupi en vinna lítinn tíma árs með hærra dagkaupið. Árskaupið, en ekki tímakaupið, er það, sem mesta hefir þýðinguna. Þeim hl. þjóðarinnar er því sem öðrum full þörf að varast ginningar og flærðarhjal ábyrgðarlítilla lýðskrumara. Það hefir leitt og mun leiða til sívaxandi atvinnuleysis, síhækkandi fátækraframfæris, sífjölgandi öreiga og síhækkandi skulda hjá öllum aðiljum nema þeim, sem stikla upp tröppurnar á heimsku fjöldans. Þegar svo gengur, og þannig hefir gengið síðustu 9 árin, þá stefnir allt til þess, að ábyrgðarleysi fer vaxandi okkar nauðsynlegu dyggðum, fyrirhyggju, hagsýni og sparsemi, er sparkað út fyrir þröskuldinn, en sá hugsunarháttur fær blásandi byr, að gera látlausar kröfur til hins opinbera og grípa fegins hendi hvern þann feng sem hönd á festir, jafnvel hvað sem til þarf að vinna.

Til dæmis um það, hve langt er gengið á þessari leið, má nefna, að aðalblað Alþfl. réðst nýlega á fátækrastjórn höfuðstaðarins með óbótaskömmum fyrir það, hvernig hún kveldi þurfamenn bæjarins. Var einn sérstaklega tekinn til dæmis. En þegar farið var að rannsaka, komi ljós, að sá hafði fengið tæpar 7 þús. kr. í fá- tækrastyrk síðastl. ár. Á sama tíma verður yfirgnæfandi meiri hl. bænda og verkamanna í landinu að láta sér nægja 1–2 þús. kr. í árstekjur. Ég gerði yfirlit í vetur um „brúttó“-tekjur allra bænda í einni sýslu í hvorum landsfjórðungi árið 1934 samkvæmt skattskýrslunum. Meðaltekjur bónda í þessum 4 sýslum voru rúmar 1500 kr., og mun láta nærri meðaltali á öllu landinu. Af því verða þeir að borga vexti af skuldum, útsvör og skatta og framfæra sig og sína fjölskyldu af afganginum. Þegar þetta er athuguð, þá er engin furða, þó fólkinu finnist það ekki mikill glötunarvegur að komast á þurfamannaframfæri undir yfirstjórn Alþfl., enda er svo komið nú þegar, að þurfamannaframfærsla er komin langt út fyrir þau eðlilegu takmörk, að vera bundin við það fólk eingöngu, sem óviðráðanlegar orsakir knýja til að leita þessarar hjálpar undir eðlilegu og heilbrigðu stjórnarfari. Hér í Reykjavík er nálega tíundi hver maður á bæjarframfæri auk þeirra, sem stunda atvinnubótavinnu. Í sumum kauptúnum er fjórði hver maður orðinn þurfamaður. Þar á milli liggja mörkin í kaupstöðum og þorpum og í sveitum stefnir á sama veg þó að víðast sé skemmra komið áleiðis. Fjölmörg dæmi finnast þess, að fullfrískir menn eru á sveitarframfæri samtímis því, sem atvinnurekendur sveitanna fá engan vinnukraft. Þetta sem fleira er að miklu leyti afleiðing af kröfupólitík og kynningum sumra þeirra manna, sem nú ráða landinu, og er sprottin af þeim hugsunarhætti, sem speglast í þeim orðum núv. atvmrh. á Alþ. 1933, að það þurfi að granda þjóðskipulaginu.

Síðan um síðustu kosningar hafa verið með allra samþykki sett ýms lög, sem réttmæt eru og eðlileg, en í flestu, sem mestu varðar hefir verið stefnt í öfuga átt, eins og margoft hefir verið bent á. Skattar og tollar hafa verið hækkaðir í stórum stíl. Kaupgjald hefir verið hækkuð. Vinnufriður hefir ekki verið tryggður. Launafólki hefir verið fjölgað, laun hafa ekki verið lækkuð, svo verulegu nemi. Dýrtíðin hefir verið aukin. Einstaklingsfrelsi og félagsfrelsi hefir verið rýrt að mun, og allt þetta hefir orðið til þess að auka misræmið milli arðs og tilkostnaðar í framleiðslu landsmanna. Þetta er gersamlega öfugt við það, sem þarf, eins og bent hefir verið á. Meira að segja er búið að sökkva okkar fjármálafrelsi svo djúpt, að mikill efi er á, hvort unnt er að bjarga á annan veg en þann, sem nú er eigi beinlínis líklegur, að hægt væri að útiloka fjandskapinn, sem myndazt hefir milli manna og flokka og þjóðin öll sem vinsamleg félagsheild tæki verkefnin, sem fyrir liggja, réttum og heilbrigðum tökum. Þá væri án efa fært að rétta við, því nóg eru lífsskilyrði í landinu okkar og nógur kraftur í þjóðinni, ef honum væri beitt í þá átt að vinna með heildarhag fyrir augum, en eigi flokkshag eða einkahag þeirra manna sem með völdin fara, eins og mjög bólar á hjá núverandi valdhöfum. Að svo er, sannast meðal annars af framkvæmd mjólkursölulaganna. fiskimálahneykslunum, raftækjaverzluninni, launamálinu o. fl.

Það virðist nú t. d. fátt ólíklegra til að gera að pólitísku æsingamáli en það, hvernig á að selja mjólk. Það hefir þó núv. stj. tekizt. Allir flokkar þings voru sammála um að setja lög um mjólkursölu með opinberri verðskráningu og verðjöfnunargjaldi frá þeim, sem sætu að bezta markaðinum. Það hefði nú mátt ætla, að framsóknarmenn, sem telja sig samvinnumenn, vildu leysa þetta mál á hreinum samvinnugrundvelli og láta framleiðendurna eina hafa stjórn þessara mála í höndum. En viti menn. Við slíkt var ekki komandi. Samvinnustefnan var þarna með öllu óhæf. Ríkisstjórnin og sósíalistarnir máttu til að hafa ráðin. Áður en lögin komu til framkvæmda, var svo stofnað til æsingafunda um alla Árnes- og Rangárvallasýslu til að panta þakklæti fyrir að hafa sett bráðabirgðalög um mjólkursölu og útmála, hvað við sjálfstæðismenn værum fjandsamlegir öllum aðgerðum í þessu efni, þó vitað væri, að við vorum frá upphafi fylgjandi því að setja slík lög til styrktar við samvinnufélög bænda, en ekki til að taka ráðin af þeim. Allur ferillinn í framkvæmd þessara laga hefir svo verið í samræmi við byrjunina. Sú saga er saga ofríkis og glappaskota. Hún sýnir ljóst, hvernig ekki á að framkvæma umbætur á viðkvæmum málum, sem ríður á að hafa frið um.

Þá er launamálið gott dæmi um starfshætti stjórnarflokkanna. Við sjálfsæðismenn bárum fram till. á þingi 1933 um skipun milliþm. í launamálið til að gera till. um samræming launa lækkun hærri launa og fækkun starfsmanna. N. var kosin og starfaði sem kunnugt er. Hún skilaði áliti í fyrravetur. Starf n. er að vísu mjög athugavert, en þó liggur málið frá hennar hálfu það ljóst fyrir, að ekkert er því til fyrirstöðu, að Alþingi tæki það til afgreiðslu, ef vilji væri til. En hvernig hefir gengið. Rétt áður en þingi er frestað, var málið lagt fyrir og kosin í það þingnefnd. Í haust, þegar þingið kom saman, þá tilkynntu fulltrúar stjórnarflokkanna í n., að málið ætti ekki að fá afgreiðslu á því þingi, en skyldi afgreitt á þingi 1936. Samt hélt nefndin fjölda funda, en fulltrúi Alþfl. mætti aldrei. Hinir 4 nm. afgreiddu nokkra smærri þætti málsins en ekki aðalfrumv. Þegar svo þetta þing kom saman, gerðum við sjálfstæðismenn ráð fyrir að nú yrði málið tekið til afgreiðslu. En hvað skeður? Fyrstu þrjár vikurnar bólar ekkert á málinu, svo er það lagt fram af form. mþn. hv. 1. þm. Árn. Síðan leið vika, þar til n. er kosin í málið. Hún hefir ekki getað haldið nema örfáa fundi af því fulltrúa stjórnarflokkanna hefir vantað á víxl, enda hafa þeir nú fengið að vita hjá sínum flokkum, að málið ætti ekki að afgreiðast. Það eitt vilja þeir fá afgreitt að fækka prestum í sveitum landsins um 40, svo að þeim fækki ríflega í hlutfalli við fækkun annars sveitafólks. Það er auðsætt að á þessu sviði á ella ekkert að gera frá hálfu þeirra, sem ráðin hafa. Ég býst því við að gefa út sérstakt nál. nú á næstunni, því í þessari n. þýðir ekki að vera öllu lengur.

Það er nú upplýst að ríkið og opinberar stofnanir greiða í laun og styrktarfé hátt á 8. millj. kr. á ári, og þar fyrir utan er kaupgjald í opinberri vinnu um 2 millj. kr. Ríkið er því sá aðili sem aðallega ræður launum og kaupgjaldi í landinu. Gjöld ríkisins er eigi hægt að færa niður, svo verulega muni um, á annan veg en þann að taka þetta allt í gegn og færa niður á þeim upphæðum og svo á verklegum framkvæmdum. Nú er það vitað, að ekki eru miklar líkur til að hægt sé að spara til muna á launum þeirra manna, sem taka laun eftir launalögunum frá 1919, en utan þeirra laga er aragrúi af launafólki, og flest þau störf hafa verið stofnuð síðan 1927 af núverandi valdaflokkum. Þess vegna vilja, þeir eigi taka launamálið í gegn að bæði launalækkun og starfsmannafækkun kæmi aðallega niður á þessu liði. Yfirgnæfandi meiri hl. allra þeirra starfa hafa á þessu tímabili verið veitt eftir pólitískum lit. Verndarvængur valdhafanna þarf því auðvitað að hvíla yfir hag hinna trúu þjóna. Þó bændur, útgerðarmenn, sjómenn, fjöldi atvinnulítilla verkamanna og annað landsfólk stynji undir byrðum dýrtíðar, opinberra gjalda og skulda, sem stofnazt hafa síðan 1927 í, þá má ekki hreyfa við því að fækka eða spara við starfrækslu ríkisins og stofnana þess, heldur fjölga sí og æ. Hið eina, sem þessir menn telja fært, er að fækka sveitaprestum um 40. Í þeim telja þeir minnstan skaðann, þó álíka margir starfsmenn séu hér í áfengisverzlun ríkisins, svo eitt dæmi sé nefnt. Annars virðist hugmyndin sú að láta allt fljóta, meðan flotið getur, og hirða hvergi, þó óðfluga beri,t fram að hengiflugi fjárhagslegrar og stjórnarfarslegrar glötunar. En hvernig er nú með gengi okkar peninga; Þar blasir við augum eitt viðfangsefni, sem mikla þýðingu hefir, eins og drepið hefir verið á í þessum umr. Okkar gengi hefir hingað til, eins og kunnugt er verið fjötrað við enska mynt án tillits til þess, hver væri verðmáttur okkar krónu og hvert hlutfall væri milli arðs og tilkostnaðar hjá afvinnuvegum landsmanna. Þetta hefir verið liðið átölulítið af almenningi, af því að menn hafa til ýtrustu marka gert sér vonir um, að reynt mundi að rétta við á annan veg en með gengisfalli. Nú er svo komið okkar fjárhag, að deilan um það, hvort krónan falli eða ekki, er raunverulega úti. Um hitt er og hlýtur að verðu stór deila, hvenær á að fella og hvað mikið á að fella gengið, þ. e. hvenær á að viðurkenna á eðlilegan hátt það sem orðið er. Af hverju skyldi það nú stafa, að svo er komið? Auðvitað er þar að finna eina alvarlegustu afleiðingu fjármálaóstjórnar liðinn, ára. Að fá gengisfall er sannarlega ekki ánægjulegt eða sársaukalaust fyrir landsfólkið. En þegar svo er komið sem komið er, þegar engar aðrar skynsamlegar ráðstafanir fást fram, þegar alltaf er aukið á ósamræmi milli arðs og tilkostnaðar og öll framleiðsla er rekin með tapi, þá virðist ekki lengur undanfæri að rétta hlutfallið með krónulækkun til að koma að nokkru leyti í veg fyrir enn meir, hrun atvinnulífsins. Á þessu sviði sem öðrum gildir það, að því lengur sem dregið er að láta það ske, sem hlýtur að koma þess óviðráðanlegri verður skriðan og þess fleiri og dýrmætari þau verðmæti, sem hún sópar með sér. Hér sem annars staðar lítur út fyrir að núverandi valdsmenn ætli að bíða, þar til allt strandar.

Að síðustu vil ég svo segja þetta: Þess er brýn þörf að þm. og allur landslýður rökhugsi þá spurningu, hvort starfsemi Alþingis og landsstjórnar hafi verið slík síðustu 9 árin, að hún sé til heilla fyrir þjóðina og framtíð hennar. Ef einhverjir trúa því enn, að svo sé, þá vilja þeir náttúrlega, að áfram haldi í sömu átt. Allir hinir sem sjá og skilja, að svo er ekki, eru skyldugir til sjálfs sín vegna, sinna afkomenda og allra landsmanna að vinna af alefli að því, að slíkt haldi ekki áfram.