28.03.1936
Efri deild: 36. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

49. mál, sala á prestsmötu

Frsm. (Páll Hermannsson):

Á mörgum jörðum í þessu landi hefir hvílt sú kvöð, sem kölluð er prestsmata. Með lögum nr. 38 frá 27. júní 1925 var jarðeigendum heimilað að kaupa af sér þessa kvöð. En þeim ákvæðum, sem um það fjalla, er snertir verðlag á þessari kvöð, er þannig háttað, að verðlagið er langt fyrir ofan það, sem getur kallazt eðlilegt. Þetta frv. felur í sér að lækka verð prestsmötunnar um 3/8 verðs, ef bændur vilja kaupa hana af jörðum sínum. Það eru enn margar jarðir, sem þessi kvöð hvílir á; samkv. skýrslu frá biskupi landsins eru þær 77, og þau kúgildi, sem hvíla á þessum 77 jörðum, eru samkv. sömu skýrslu 651½. Það má ganga út frá því, að þeir, sem jarðirnar eiga, reyni eftir megni að kaupa af þeim þessa kvöð, ef það er fáanlegt fyrir viðunanlegt verð. Sú leiga, sem hefir verið tekin fyrir þessi kúgildi, hefir oft verið svo há, að það gengur okri næst.

Þetta mál hefir verið afgr. í hv. Nd., og landbn. mælir með því, að frv. sé samþ. eins og það liggur fyrir.