07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

1. mál, fjárlög 1937

Jónas Jónsson:

Hv. þm. G.-K. hélt hér í gær langa ræðu um fjármál og talaði mikið um skuldasöfnun ríkissjóðs. Þessi maður, sem er einn af forstjórum Kveldúlfs, skuldugasta fyrirtækisins hér á landi, ætti sem minnst að tala um fjármál. Hann ætti að minnast þess og honum ætti að vera það ljóst, að hann er skuldugasti maður landsins. Hann ætti að minnast þess, að Kveldúlfur skuldar 5 millj. kr., og það eru 5 eða 6 fjölskyldur, sem eiga Kveldúlf og skulda þetta. Hann ætti að minnast þess, að sá banki, sem trúir honum og fjölskyldu hans fyrir þessu fé, verður fyrir álitshnekki af skiptum við hann og fjölskyldu hans. Hann ætti að minnast þess reginhneykslis, að þetta fátæka fyrirtæki hefir borgað Thor Jensen 25 þús. kr. í eftirlaun á ári, þrátt fyrir það, þó að fyrirtækið hafi síðustu árin verið rekið með rekstarhalla. Hann ætti að minnast þess, að hann og bræður hans hafa dregið úr veltu Kveldúlfs 400 þús. kr. til þess að byggja „villur“ fyrir á síðustu árum, og það hefir verið gert fyrir fé Landsbankans, og það í leyfisleysi bankans. Hann ætti að minnast þess, að hann og bræður hans hafa um 30 þús. kr. á ári hver frá Kveldúlfi, en í rauninni frá bankanum og allri þjóðinni, og er þetta kallað laun og lán. Hann ætti að síðustu að minnast þess, þegar hann talar um skuldir, að hann og hans fyrirtæki hefir stöðugt verið að tapa, og nú spyrja þennan hv. þm., hvenær hann hugsi sér að fara að borga.

Í hugleiðingum sínum minntist hann á dáinn mann, Jón Þorhiksson, og hans ágætu stjórn á fjármálunum, sem hann gumaði mjög af. Ég ætla nú ekki að fara að deila um Jón Þorláksson hér. En úr því að hann hefir gefið tilefni til þess, þá get ég ekki annað en minnt þennan hv. þm. á það, að Jón Þorláksson, sem trúði á það, að það væri rétt að hækka gengi krónunnar og gerði það, skaðaði eitt íhaldsfyrirtæki um 2 millj kr. Hv. þm. G.-K. veit vel, hvaða fyrirtæki það er, en hvort hann vill afneita forstjórum þess veit ég ekki.

Þá sagði þessi sami hv. þm., að Jón Þorláksson, sem var við stjórn frá 1924–1927 hefði minnkað skuldirnar. En hann gleymdi 8 millj. kr. láni, sem Jón Þorláksson tók og fór að mestu leyti til þess að byggja skrauthýsi íhaldsmanna í Rvík. Og hann gleymdi að geta þess, að þó að það megi segja, að það sé staðið í skilum í íslenzkum peningum með þessi lán, þá er hins að gæta, að þetta lán, sem tekið var aðallega til þess að byggja „villur“ fyrir, kostar landið nú 420 þús. kr. í erlendum gjaldeyri. Af þeim fiski og af þeirri síld og af því kjöti, sem selt er til útlanda, verður að greiða 420 þús. kr., sem verður að draga frá nauðsynlegum innkaupum til þess að borga afborganir í Danmörku vegna „villu“lánsins, sem Jón Þorláksson tók handa vinum sínum í Rvík.

Loks var það að heyra á hv. þm. G.-K., að það hefði enginn tekið lán nema framsóknarmenn. Þá ætti að minna hann á, að það var flokksbróðir hans, sem tók lán 1921, 10 millj. kr. Ég ætti líka að minna hann á, að Jón Þorláksson tók 1926–1927 8 millj. kr. lán erlendis, sem ég hefi minnzt á áður. Og á síðasta þinginu, sem hann var fjmrh., þá barði hann í gegn með mikilli hörku heimild handa Landsbankanum til þess að taka 10 millj. kr. lán í Ameríku hjá National City Bank. Þetta var samþ. gegn vilja okkur framsóknarmanna og móti vilja Landsbankans. En hann var knúinn til þess af íhaldsstj. að taka strax eina milljón í Íslandsbanka. Og það er enginn vafi á því, að ef íhaldsmenn hefðu ráðið í stjórn eftir kosningar 1927, þá hefði allt þetta lán verið tekið og það látið í Íslandsbanka, og hann hefði þá verið látinn halda áfram. Þjóðin græddi það á kosningunum 1927, að hún slapp við þessar 9 millj., sem áttu að fara í þetta óhóf.

Þá kem ég að láninu, sem framsóknarmenn stóðu að 1930, 10 millj. kr. láni. Af þessum 10 millj. fóru 3 millj. í stofnfé Landsbankans, sem Jón Þorláksson átti að vera búinn að útvega. og 3½ millj. í Búnaðarbankann, og er ekki hægt að segja, að það hafi verið eyðslueyrir. Hitt fór í útvarpsstöðina, símstöðina og aðra gagnlegri hluti en þá að byggja yfir hv. þm. G.-K. Hann ætti að muna eftir því, að hann og hans flokkur greiddi 12 sinnum við 12 umr. atkv. með þessu, því að það voru samþ. tvisvar l. um þetta. Það er því allt íhaldið, sem hefir verið með í því að taka þetta lán.

Og síðast en ekki sízt vil ég benda hv. þm. A.Húnv., sem sagði, að framsóknarmenn hefðu ráðið hér ríkjum í 9 ár, á, að það er vitað, að 2 árin af þessum 9 var það íhaldið og varaliðið, sem hafði stjórnina með höndum. Jafnaðarmenn voru þá í opinberri andstöðu við stj. og við framsóknarmenn bárum ekki ábyrgð á þeirri stj., eins og var viðurkennt af Jóni Þorlákssyni, þar sem hann sagði, að þetta væri bezta fyrirkomulagið, sem hugsazt gæti, þegar ekki væri hrein íhaldsstj., að fá þá lánað hjá framsóknarmönnum nógu mikið, til þess að það gæti verið þeirra stjórnarandi. Á þessum tímum voru teknar 10 millj. í Englandi vegna íhaldsmanna. Fjmrh. þáv. var knúinn til þess eins og Magnús Guðmundsson 1921. Á sama hátt varð Ásgeir Ásgeirsson að taka þetta lán, en það voru svo núv. fjmrh. og Magnús Sigurðsson, sem björguðu þessum 10 millj. kr. í eitt fast lán í tíð núv. stj. Þannig er aðstaða þessara góðu manna í fjármálunum, og þó hefi ég ekki tekið nema fáa liði, og sleppt National City Bank láninu, þar sem ráðh. var bjargað frá því að taka 9 millj. kr. vegna þess að kosningar fóru þannig 1927.

Það er þá um 4 lán að ræða, og hvert þeirra er um 10 millj. kr., sem mynda þessar skuldir. Af þeim hafa íhaldsmenn tekið um 30 millj. kr., en framsóknarmenn 10 millj. kr., en þessar 10 millj. hefir íhaldið samþ. 12 sinnum við 12 umr. í þinginu og þannig gengið inn á, að þetta lán væri tekið. Hitt er annað mál, að þetta er eina lánið, sem var tekið til nauðsynlegra hluta, en hitt aftur á móti til skaðlegra eða vafasamra hluta. En samt var íhaldinu þetta ekki nóg, því að eftir að þetta var gert, þá tók það Sogslánið handa Rvík, 6 millj. kr., og gat það þó ekki nema með hjálp núv. stj. En það lítur út fyrir, að íhaldinu sé þetta ekki nóg, því nú er einn af þess þm. að biðja um ábyrgð fyrir 1½ millj. kr., og hans flokkur leggur áherzlu á það, að hún fáist. Og við afgreiðslu fjárl. hefir reynslan verið sú, að flokkurinn hefir verið með fjölda ábyrgðarheimilda. Það er fyrst, að núv. fjmrh. hefir tekið fast á þessum málum, og það er fyrsta skarpa viðnámið, sem hefir verið veitt móti þessari stefnu, sem íhaldsfyrirtæki eins og Kveldúlfur fylgdu, þessari brjálæðis botnleysustefnu, að yfirfæra allt á ríkið og bankana.

Þá kem ég að næsta lið, sem líka er um fjármál, en þó mun ég ekki eyða í þetta miklum tinta. Hv. þm. V.-Húnv. (HannJ) talaði um gengismálið og kenndi okkur framsóknarmönnum um það, að þar væri engu um þokað. Hv. þm. veit, að það var Jón Þorláksson, sem hækkaði gengið, og það er sá flokkur, sem hann var formaður fyrir, sem hjálpaði þessum þm. inn við síðustu kosningar og hefir hann núna nýlega verið brýndur með því af þeim Kveldúlfsbræðrum í hv. Nd., að hann eigi sitt líf þeim að þakka, og var þetta gert með mjög ófögrum orðum. Hv. þm. V.-Húnv. lýsti því yfir, að annar bróðirinn hefði brúkað mútur á Snæfellsnesi, og hefir hann svo fengið álíka fallega lýsingu n. sinni framkomu í Vestur-Húnavatnssýslu fyrir að þóknast yfirboðurum sínum og fyrir að verzla við íhaldið. Að öðru leyti er það að segja, að hann sem varaliðsmaður var í raun og veru í meiri hl. og með fullt áhrifavald á stj. 1932–1934. Þá var Alþfl. sem er frábitinn gengislækkun í stjórnarandstöðu og þeir, sem nú mynda Framsfl., höfðu engin áhrif hjá þeirri stj. Það var stj. íhaldsins og varaliðsins, og ef nokkur minnsti snefill af manndómi hefði verið í þessum mönnum, þá áttu þeir að lækka gengið þá, þegar þeir höfðu aðstöðu til þess. Þeir höfðu þá meiri hl. í þinginu. en þeir gerðu þó ekkert til þess að lækka gengið. Hvers vegna gerðu þeir það ekki þá? Ég skora á hv. þm. V-Húnv. að svara því, hvers vegna hv. 10. landsk., sem þá var ráðh., lækkaði ekki gengið, þegar hann gat það. Þorði hann það kannske ekki vegna íhaldsins? Það er kunnugt, að Jón Þorláksson lýsti þessum mönnum þannig, að þeir væru svo vesælir, að þeir þyrðu ekki að hafa neina sannfæringu. Þó að Jón Þorláksson sé dáinn, þá má ef til vili vitna í það, að hann sagði það réttilega, að vísu ekki í útvarpsumræðum 1934, heldur í útvarpssalnum við þá, sem tóku þátt í útvarpsumræðum, að það væri ómögulegt fyrir nokkra stj. að lækka gengið, því að það setti ríkið á höfuðið. Það væru útlendu lánin, sem gerðu það ómögulegt að lækka gengið. Ég vil þó ekki gera orð Jóns Þorlákssonar að mínum orðum. Ég segi aðeins, hvað hann sagði, og það því fremur sem hann er húsbóndi liðhlauparanna, sem ásaka okkur framsóknarmenn fyrir gengismálið. Vegna hv. þm. V.-Húnv. vil ég rifja upp skuldalistann að því leyti sem snertir gengismálið og aðstöðu húsbónda þm. Af þessum 40 millj. kr., sem teknar hafa verið erlendis, hefir íhaldið tekið um 30 millj. og samþ. heimild til þess að taka 10 millj. kr. Af þessum 30 millj. tók Jón Þorláksson 3 millj., sem aðallega fór í „villurnar“. Hann var nýbúinn að taka það, þegar hann fór úr stj. 1927. Ef þá hefði verið svifið að því að lækka gengi krónunnar og hún t. d. verið lækkuð um helming, — hvað hefði þá tap ríkissjóðs orðið á þessu eina láni Jóns Þorlákssonar? Það hefði orðið 4 millj., sem hefðu orðið að borgast af skattþegnunum. Þeir, sem byggðu „villurnar“, hefðu grætt þessa upphæð, nema hvað þeir sem skattþegnar hefðu orðið að borga eitthvað, en næst hefði það komið niður á fátækum almenningi, þ. e. fólkinu, sem kaupir hinar skattlögðu vörur. Ég er ekki að segja neitt um það, hvað eigi að gera í gengismálinu, en ég er að benda hv. 10. landsk. og hv. þm. V.-Húnv. á, að þeir geta ekki neitað því, að þeir hafa haft tækifæri til þess að lækka gengið, en þeir notuðu það ekki. Þeir fá núna leyfi hjá íhaldinu til þess að látast hafa þessa skoðun, en ef hv. þm. V.-Húnv. ætlaði í raun og veru að beita sér fyrir því að koma þessu fram, þá myndi það segja honum, að hann fengi ekki atkv. við næstu kosningar, ef hann hefði skoðun í andstöðu við kaupmenn í Reykjavík. Ég ætla núna um leið að leiðrétta það, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði um að Framsfl. hefði tekið ákvörðun um gengismálið. Það er undir athugun, eins og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. Hv. þm. V.-Húnv. fer hér vísvitandi með rangt mál.

Þá finnst mér rétt að minnast á eitt stórmál, sem nýlega hefir orðið uppvíst og hefir verið ljóstað upp af stj., og sérstaklega af hæstv. forsrh. Þetta mál er njósnaramálið. Menn vita, hvað það er, sem gerzt hefir í því máli. Það hefir komið í ljós, að heill hópur af fylgismönnum hv. þm. G.-K. hefir verið leigður af útlendingum til þess að njósna um íslenzka landhelgi og leiðbeina útlendingum inn í landhelgina til þess að stela þar afla og eyðileggja með því þennan íslenzka bjargræðisveg. Kom þetta nú eins og þruma úr heiðskíru lofti? Ekki var það. Við framsóknarmenn vorum búnir að heyja þrotlausa baráttu fyrir málstað sjómanna og þeirra, sem eiga líf sitt undir sjávaraflanum, og í 5 ár hafði ég barizt fyrir því að koma á eftirliti. En hverjir voru á móti því? Það voru hv. þm. G.-K. og hans nánustu, sem kúguðu íhaldið til þess að vera á móti þessu, og það fékk varaliðið til þess að vera á móti þessu líka, því að 1930 var það svo í hv. Nd., að þáv. framsóknarmenn, sem síðar urðu varaliðsmenn, gengu í lið með íhaldinu og eyðilögðu málið þá. Við framsóknarmenn byggðum þetta aftur á móti á skýlausri yfirlýsingu Ágústs Flygenring um það, að togurunum væri skipað inn í landhelgina. En hv. þm. G.-K. var á móti þessu vegna stéttarbræðra sinna, og á hans ábyrgð eru í rauninni öll þau landhelgissvik, sem framin hafa verið síðan 1928. Allt það, sem kjósendur þeirra Kveldúlfsbræðra hafa liðið vegna ágengni togara síðan 1928, hvort heldur það er á Snæfellsnesi eða á Reykjanesi, er að kenna Kveldúlfsbræðrum eða þeirra pólitík. Nú hafa svikin komizt upp, og þeir, sem við þetta hafa verið riðnir, verða fyrir þungum sektum eða ef til vill fangelsi, og landið hefir orðið fyrir stórkostlegum álitshnekki erlendis fyrir það, að hér hafa verið drýgð stórfelld föðurlandssvik. En þeir, sem þetta gerðu, studdust við Morgunblaðið og íhaldið, því þeim hafði verið sagt, að það væri ekkert athugavert við þetta og að það þyrfti ekkert eftirlit. Þessir menn vissu, að þeir stóru í íhaldsflokknum sögðu að þetta mætti. En þegar uppvíst varð um glæpina og margir íhaldsmenn höfðu verið teknir fyrir þá, þá flýr Mbl. frá þeim í staðinn fyrir að vera með þeim. Hin eina vörn Mbl. er, að stjórnin hafi getað rannsakað skeytin dag lega. En það er ólöglegt og jafnmikil fjarstæða og það að hugsa sér, að óviðkomandi menn geti farið í peningaskáp Kveldúlfs. Hugsum okkur t. d., að þegar Geir Zoëga í Hafnarfirði sendi 5 skeyti sama daginn, þá hefði þurft að fá úrskurð hjá sýslumanninum þar 5 sinnum þann dag til þess að skoða skeytin. Hverjum dettur í hug, að landsstj. hafi aðstöðu til þess? En síðan hæstv. forsrh. tókst að ljósta þessu upp, þá varð íhaldið súrt á svipinn út af málinu. Það veit sinn dóm og sína skömm, og veit líka, að síðan er landhelgin vel varin. Þá voru gefin út lög það frv., sem framsóknarmenn reyndu að koma á en íhaldið barðist á móti í5 ár, frá 1928–'32.

Ég ætla svo að minnast á kreppulánasjóð. Ég ætla fyrst aðeins að taka það fram, af því að ég hefi svo lítinn tíma, að hugmyndin um hann kom fyrst fram í blaði okkar framsóknarmanna en af því að þá sat íhaldsstjórn við völd, þá lentu framkvæmdirnar í höndum íhaldsins og varaliðsins. Þeir brutust þá inn í sjóðinn Jón í Stóradal og Pétur Magnússon og þeirra er því dýrðin, ef hún er nokkur, en líka skömmin ef illa hefir verið unnið, og því munu nú flestir trúa. Þessir herrar byrjuðu með því að bola Sambandinu og Landsbankanum frá því að hafa áhrif á kreppulánasjóðinn, af því að þeir vissu, að það var ekki hægt að láta þessa aðila taka þátt í spillingu þeirri, sem fyrir fram var ákveðin og síðan framkvæmd. En með því að koma þannig fram gagnvart Landsbankanum, þá hrintu þeir bankanum frá sér og stóðu síðan uppi peningalausir og máttvana, þegar til framkvæmda kom, af því að þeir voru búnir að sparka í þann eina aðila, sem gat hjálpað þeim. Og niðurstaðan af verkum þessara manna er sú, að búið er að festu mjög mikinn hluta af handbæru fé Búnaðarbankans og Landsbankans í þessum sjóði á þann hátt t. d., að Jón í Stóradal lánar frænda sínum, einhleypum manni í Húnavatnssýslu, manni sem á mörg hundruð fjár og býr á góðri jörð. Þetta er stórríkur maður, sem hefir beztu skilyrði til þess að geta bjargað sér, en þó er hann látinn fá stórt lán, sem er tekið frá fátæku barnamönnunum, sem þurfa þess meira með. Með þessu framferði hafa þeir félagar í raun og veru lamað Landsbankann og Búnaðarbankann að mjög verulegu leyti fyrir bændastétt landsins. Og þegar hv. þm. A.-Húnv. talar um það, að í ræktunarsjóðnum séu ekki til neinir peningar til ræktunar, þá get ég trúað, að það sé ekki rétt, en hann verður að gæta þess, að hans flokkur ber ábyrgð á þessu, því hann stjórnaði kreppulánasjóðnum og ber því ábyrgð á því, sem þar gerðist. Ég ætla með nokkrum orðum að skýra frá því, hvernig þetta hefir verið í framkvæmdinni. Þeir Pétur Magnússon og Jón í Stóradal settu þá grundvallarreglu að lána gegn veði í 90% af fasteignamatinu frá 1931 og bættu þar við jarðabótum hjá mönnum, sem höfðu 500 dagsverk. 480 dagsverk eða minna voru þar einskis virði. Og eins og síðar verður útskýrt þá eru allar framkvæmdir kreppulánasjóðs byggðar á því að níðast á smábændunum. Þá eru teknar tvær sýslur út úr og þar dregin frá 15% af fasteignamatinu, og líka 10% eins og annarsstaðar. Það eru líka 2 sýslur, þar sem þeir eru sérstaklega með kjósandaveiðar. Samkv. þeirra mati á sauðfé er ærin í Rangárvallasýslu metin á 13 kr., en í Suður-Þingeyjarsýslu á 30 kr. Ég get auðvitað verið stoltur vegna kjósenda minna út af því, hvað fé þeirra er virt hátt, en ekki er hægt að segja, að það sé neitt réttlæti í því, hvernig Pétur Magnússon hefir komið þessu fyrir. Ósamræmið milli sýslnanna er svo áberandi, að ef teknar eru Austur-Skaftafellssýsla, Árnessýsla og Norður-Múlasýsla og bornar saman við Þingeyjarsýslur og Skagafjarðarsýslu, þá fá bændur þar, sem varaliðið er á kjósendaveiðum, 15%–20 meiri afslátt heldur en í Þingeyjarsýslum og Skagafjarðarsýslu. Þeir fóru þannig að, að fyrsta lánið, sem veitt var, var veitt stórríkum bónda í Mýrasýslu sem er í íhaldsflokknum. Þeir láta hann fá 16 þús. kr. að láni og 1000 kr. í peningum til þess að greiða fólki kaup. En fyrir norðan er bóndi, nr. 2042, sem fær 11% í allt í kreppubréfum og á að borga af því kaupa- og verkfólki sínu, en ríki íhaldsbóndinn fær 16 þús. kr. í bréfum og 1000 kr. í peningum til þess að borga verkafólkinu.

Ég tek ennfremur dæmi um það, hvernig samræmið er í þessum lánveitingum viðvíkjandi fasteignamatinu. Í Mýrasýslu er framsóknarmaður, nr. 49, sem á fasteign, sem er virt á 30 þús. kr., og hann skuldar 31 þús., eða 1 þús. fram yfir fasteignamat. Fyrir þennan mann er engin veðskuld greidd, en hann fær 700 kr. í áfallna vexti. Í Árnessýslu er maður, sem er nr. 1261. Hann er íhaldsmaður og „koketterar“ við Bændafl. Hans lán er 28 þús. kr. Fasteign hans er 35 þús. kr., en skuldir 44 þús. kr. Þessi maður fær allar sínar veðskuldir greiddar úr kreppulánasjóði og felldar niður. Hann fær 12 þús. kr. í peningum, en 198800 kr. eru afskrifaðar, þannig, að hann greiðir aðeins 3%, en eftir á hann bústofn sinn óveðsettan, 10700 kr. Maður nr. 95 er bæði íhaldsmaður og varaliðsmaður. Hann hefir fengið fasteign sína hækkaða um 67 þús. kr., og kröfuhöfum hans greitt 90%–100%, og það, sem hvílir nú á jörðinni, eru 100 þús. kr. Þessi maður getur svo hlaupið frá jörðinni með sitt stóra bú og látið alla skömmina skella á ríkinu.

Ég er að verða búinn með minn tíma, en að síðustu vil ég nefna einstök dæmi í Árnessýslu til þess að sýna hvernig réttlætið er þar. Fyrst er það þessi nr. 1261, sem er íhaldsmaður og varaliðsmaður. Lán hans er 28 þús. kr., veð 28 þús. kr. á móti. Hann fær 12 þús. kr. í peningum og hann fær 19 þús. af sínu fasteignamati afskrifað ofan í 3% og svo á hann eftir rúmar 10 þús. kr. í bústofni, eins og ég gat um áðan. Nábúi hans er ekki nema varaliðsmaður og er nr. 1237. Hans lán er 16 þús. kr., og hann hefir sett veð fyrir 17 þús. kr. Fyrir hann er greidd fasteignaskuld 8100 kr., og kaupgjald nær 3000 kr. og kröfuhafar fá 20 þús. kr. Greidd eru 20% af skuldum hans, en 80% tapast. En Jón og Pétur láta þennan vin sinn fá að hafa allt lausafé sitt óveðsett en það var rúmlega 13000 kr. virði. Þessi dæmi nægja til að sýna aðstöðu íhaldsins og liðhlauparanna í þessum málum. Ólafur Thors með sína þungu skuldabagga er þyngsti ómagi á þjóðfélaginu, skuldar mest og eyðir mestu en brigzlar samvinnumönnum um hneigð til skulda. Hannes Jónsson og Þorsteinn Briem láta sem þeir vilji gengisfall, en hreyfðu sig ekki meðan þeir voru í stjórn, af ótta við húsbændur sína. Og að lokum hefi ég nefnt nógu mörg dæmi um meðferð Jóns og Péturs á kreppusjóði til að sanna hvílíkt hyldýpi af spillingu og ranglæti hefir komið fram í stjórn þeirra á þessari stofnun. — Og komi svo Ólafur Thors næst hér í pontuna og hæli sér af fjármálaspeki sinni.