20.02.1936
Neðri deild: 4. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Garðar Þorsteinsson:

Ég skal ekki lengja mikið störf þingsins með umr. um frv. þetta nú. Mér hafði skilizt svo í fyrra, þá er mál þetta var hér til umr. í hv. d., að samkomulag hefði orðið um það, að flokkarnir kysu 1 eða 2 menn hver til þess að vinna að máli þessu og reyna að finna þá lausn á því, sem við mætti una. Að minnstu kosti kaus Sjálfstfl. mann af sinni hálfu í þessu skyni. Mér þykir því leitt, að þeir, sem kosnir voru til þess að fjalla um málið, skulu ekkert hafa látið til sín heyra. Að sjálfsögðu skiptir þetta atriði út af fyrir sig ekki miklu máli, ef nú yrði hægt að finna viðunandi lausn á því eins og t. d. að fella niður þau ákvæði frv., sem jafnvel kynnu að brjóta í bága við stjskr., sem ekki virðist útilokað, að finna megi í frv.

Annars er mér ekki grunlaust um, að framkoma frv. þessa sé í beinu framhaldi af skrifum og ræðum hæstv. forsrh., þar sem hann hefir haldið því fram, að eins og þingsköpin séu nú, þá hafi andstöðuflokkar núv. stj. notað þau til þess að tefja um of störf þingsins og eyðileggja framgang ýmsra mála. En þetta er vitanlega alveg út í loftið, því að ég veit ekki betur en að þau þing, sem núv. stjórnarflokkar hafa haft aðstöðu til að ráða að öllu leyti, hafi verið mun lengri en flest önnur þing; þannig var t. d. þingið 1935 lengsta þing, sem haldið hefir verið. Það sem því fyrir stjórnarflokkunum vakir með frv. þessu er að reyna að útiloka öll áhrif andstöðuflokkanna úr þinginu. Lengd þingtímans fer ekki nema að litlu leyti eftir því, hvert ræður þm. eru svo og svo mikið takmarkaðar, heldur miðast hann að mestu við afgreiðslu fjárlaganna; þetta sést bezt á því, að nær öllum þingum er svo að segja nær strax slitið, þegar fjárlögin hafa verið afgr. frá þinginu.

Það eina, sem kasta mætti fram til stuðnings því, að þingsköp þau, er nú gilda, hefðu yfirleitt áhrif á lengd þingtímans, væri helzt það, að þau hefðu áhrif á störf fjvn., þannig að þau á einn eða annan hátt tefðu störf hennar. En nú er þessu alls ekki til að dreifa. Fjvn. hefir alveg fastan fundartíma, sem þingfundir eru aldrei látnir ganga neitt inn á. Breyting á þingsköpunum myndi því á engan hátt hafa áhrif á störf hennar. Að mínu áliti er því aðeins hér um blekkingu að ræða, þegar verið er að reyna að telja kjósendum trú um, að þingtíminn muni styttast og þingin verða ódýrari, ef ný þingsköp yrðu sett. Reynslan mun fá bezt úr þessu skorið, og ég er viss um, að hún verður á þá leið, sem ég nú hefi lýst. Ég þarf a. m. k. að fá sterkari rök en enn hafa komið fram fyrir því, að störf fjvn. minnki við það, að umr. séu takmarkaðar frá því, sem er, og rök fyrir því einnig, að þingtíminn þurfi ekki í framtíðinni að takmarkast við afgreiðslu fjárlaganna.