07.03.1936
Neðri deild: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Garðar Þorsteinsson:

Við hv. þm. Snæf. höfum haft, eins og hv. frsm. skýrði frá, nokkra sérstöðu innan allshn. að því, er snertir tvö atriði þessa frv. Ég minntist á það við 1. umr. málsins, að ég teldi, að aðalhvötin, sem lægi á bak við flutning þessa máls, væri ekki út af fyrir sig sú, að núgildandi þingsköp væru óviðunandi, heldur taldi ég hitt meira ráða, að sá orðrómur hefði gengið, að þau þing, sem núverandi hæstv. stj. hefir ráðið, hafi ekki orðið styttri en þing þau, sem áður hafa verið haldin, þrátt fyrir það þó þessir flokkar hafi eindregið lýst yfir því, að þeir mundu í öllu gæta ýtrasta sparnaðar. Til þess að finna svo afsökun fyrir hinum langa þingtíma, hefir undanfarið borið mjög mikið á því, að stjórnarblöðin hafa haldið því fram, að Sjálfstfl. ætti aðalsökina á hinum löngu þingum.

Það þarf auðvitað ekki að koma með neinar sérstakar tilvitnanir, því það er öllum landslýð kunnugt, að það hefir verið sízt lengra andóf nú á síðustu þingum en t. d. á árunum 1924-1927 að ekki séu nefndar hinar óþreytandi löngu ræður sérstakra manna á þingunum 1928–'30. Það er því alveg út í bláinn sagt, ef einhverjir halda því fram, að sjálfstæðismenn hafi með málþófi lengt störf þingsins úr hófi fram. Þarf ekki annað en gera nokkurn samanburð á ræðufjölda og ræðulengd flokkanna á undanförnum þingum. Ég er þess vegna sannfærður um, að þetta frv., þó það sé að ýmsu leyti gott, er ekki fyrst og fremst borið fram af knýjandi nauðsyn til þess að breyta þingsköpunum, heldur af knýjandi nauðsyn stjórnarflokkanna til þess að blekkja almenning. En þeir virðast hafa gleymt því, að lengd þinga miðast að engu leyti við ræðulengd, heldur við afgreiðslu fjárl. Ef menn vilja fletta upp í þingtíðindum, geta þeir séð, að þingi hefir jafnskjótt verið slitið og fjárl. hafa verið afgr. Þessu hefir verið haldið sem meginreglu í svo ríkum mæli, að mál, sem hafa verið óafgr., þegar fjárl. afgreiðslu var lokið, hafa verið geymd til næsta þings. Þetta er sannanlegt, og því verður ekki mótmælt. En bomban, sem stjórnarflokkarnir hafa þurft að koma inn í frv., er heimildin fyrir forseta að ákveða í upphafi umr., að umr. skuli ekki standa lengur en 3 stundir, jafnframt heimild til þess að miðla ræðutíma milli þm. og flokka nokkuð eftir eigin geðþótta. En þetta atriði var leyst með samkomulagi í allshn., því vitanlega hefir Sjálfstfl. enga löngun til þess að halda uppi lengri umr. en aðrir flokkar. Þá má gjarnan bæta því við, að ýms fleiri atriði hafa verið leiðrétt í allshn., t. d. að aðeins fyrirfram ákveðnir menn hefðu heimild til þess að taka til máls, en aðrir aðeins heimild til þess að koma með fyrirspurnir. Átti þetta að vera til þess að stytta umr., eins og gert er í nágrannalöndunum. En ekki virðist ástæða til að taka það ákvæði upp, þar sem vitað er, að í þingsköpum er ákvæði, sem leyfir að stytta umr., ef ákveðinn fjöldi þm. krefst þess við forseta og d. samþ.

Þetta ákvæði hefir nokkrum sinnum verið notað, en þó ákaflega takmarkað, eins og eðlilegt er. Ég geri því ráð fyrir, að þessi heimild forseta eftir þessu frv. til þess að takmarka eða skera niður umr. verði sjaldan notuð, og með sömu takmörkunum og sú heimild, sem fyrir er. Enda þarf í báðum tilfellum að bera það undir samþykki d.

Í upphaflega frv. voru ráðh. undanþegnir takmörkun á ræðutíma, og gat afleiðing af því orðið sú, að eftir að ræðutími þm. andstöðuflokkanna hafði verið takmarkaður og þeir dauðir, gátu þrír ráðh. hver af öðrum haldið svo langar ræður sem þeir vildu. Það getur vel verið, að það hafi ekki mikið að segja fyrir afgreiðslu mála, en eigi að gefa þm. kost á að færa rök fyrir málunum, verður að gefa þeim tækifæri til að tala bæði með og móti, og ef skorður eru settar um ræðulengd, verða þær að gilda jafnt fyrir alla. Það skal fúslega játað, að stjórnarflokkarnir sáu sér ekki annað fært en ganga inn á þessa sjálfsögðu leiðréttingu á frv. Sjálfstfl. getur því gengið inn á þetta atriði um breyt. þingskapanna. Að ég samt sem áður fer þessum almennu orðum um þessi atriði, er sú bomba, sem stjórnarflokkarnir hafa kastað út í blöðum, á fundum og í útvarpi, að nauðsynlegt væri að takmarka ræðutímann vegna þess, að sjálfstæðismenn hafi með málþófi lengt þingtímann að miklum mun, sem vitanlega er ekki annað en hreinasta blekking. Þau atriði hinsvegar, sem við sjálfstæðismenn höfum ekki fallizt á eða getað sannfært stjórnarflokkana um, að væru óréttmæt, eru ákvæðin í 10. og 20. gr. frv., sem sé, að þegar atkvgr. fer fram og þm. greiðir ekki atkv., hvorki með því að segja já eða nei eða rétta upp hönd, þá skuli þm. samt teljast hafa tekið þátt í atkvgr. — Sjálfstæðismenn líta svo á að þetta ákvæði brjóti í bága við þau ákvæði stjskr., sem um þetta fjalla, sbr. 40. og 48. gr. Hv. 1. landsk. sagði áðan, að það yrði að leggja sama skilning í báðar gr., 40. og 48. gr. stjskr. Þessu get ég verið sammála með nokkrum fyrirvara. Ef skilja á gr. þannig, er eina leiðin að skilja þær á þann veg, sem gengur lengst. Þá verður að skýra orð 40. gr. með hliðsjón af því hvernig 48. gr. er stíluð. Ef hv. þm. og aðrir telja, að báðar gr. beri að skilja eins, verður að takmarka þann skilning við það, að þm. greiði atkv., og að 40. gr. beri að skilja í samræmi við 48. gr. Þessi skilningur er nauðsynlegur, eigi að leggja báðar gr. út á sama veg, eins og hv. 1. landsk. gerir, því þá er óhjákvæmilegt að leggja til grundvallar þá gr., sem gengur lengra.

En nú er alls ekki víst, að báðar gr. beri að skilja á sama hátt. 40. gr. hefir sérákvæði um afgreiðslu mála í Sþ., og er þar tekið fram, að meira en helmingur þm. úr hvorri þd. þurfi að vera á fundi og eiga þátt í atkvgr., til þess að mál fái afgreiðslu. Eins og þingið er nú skipað, er því ekki nóg, að 25 þm. tækju þátt í atkvgr. í Sþ., heldur þyrftu það að vera 9 þm. úr Ed. og 17 þm. úr Nd.; með því einu móti væri hægt að fá fullnaðarafgreiðslu mála.

Þegar stjórnarskrárgjafinn hefir sett þetta ákvæði um, að ekki væri hægt að ljúka máli á löglegan hátt, nema meira en helmingur þm. úr hvorri þd. væri á fundi, er ekki víst, að þetta beri að skilja svo, að þeir þurfi að greiða atkv. E. t. v. er þetta orðalag: að meira en helmingur þm. úr hvorri þd. þurfi að eiga þátt í atkvgr. (deltage), notað að yfirlögðu ráði og tekur ekki til þess að greiða atkv.

Það má e. t. v. segja, að sá skilningur geti staðizt, að þm., sem er á fundi og viðstaddur atkvgr., hafi tekið þátt í henni, þó hann ekki greiði atkv. Niðurlag gr.: „nema tveir þriðjungar atkv. þeirra, sem greidd eru, séu með þeim“ virðist benda til þess, að sá skilningur sé réttur. Þess vegna væri hugsanlegt, að 10. gr. væri ekki stjórnarskrárbrot.

En orðalag 48. gr. er alveg ótvírætt. Þar er beinlínis sagt: „meira en helmingur þdm. sé á fundi og greiði þar atkv.“ Þar er ekki nóg „að taka þátt í atkvgr.“, eins og sagt er í 40. gr., heldur þarf einnig að greiða atkv. Það fær mig enginn til þess að trúa því, að íslenzkan hafi verið svo fátæk af orðum, að stjórnarskrárgjafinn hafi óviljandi blandað því saman að greiða atkv. og vera á fundi.

Ég lít svo á, að stjórnarskrárgjafanum hafi verið vel ljós munur á því að greiða atkv. og taka þátt í atkvgr. Hvers vegna er þetta ekki eins í báðum gr., eigi að skilja þær á sama hátt? Eftir íslenzkri málvenju hefir það að greiða atkv. aldrei verið skilið nema á einn veg. En hvernig sem á þetta er litið, getur ekki verið um það deilt, að frv. sé brot á 48. gr. stjskr., og að því verði ekki slegið föstu með almennum l. um þingsköp, að þm., sem ekki greiða atkv., teljist hafa greitt atkv. Það brýtur í bága við ákveðið orðalag stjskr. og alla heilbrigða skynsemi. Nú ætla stjórnarflokkarnir að reyna, eins og hv. 1. landsk. tók fram, að varna því, að mál tefjist, með því að telja þá, sem ekki greiða atkv., með meiri hl. En þessi leið er alveg þýðingarlaus vegna þess, að þeir, sem ekki vilja afgr. mál eða vilja tefja það, þyrftu ekki annað en ganga til hliðar út úr d. meðan atkvgr. færi fram, og gæti forseti þá ekki talið þá með. Og hverju væri þá forseti nær? Afgreiðsla gengi nákvæmlega eins og nú. Afleiðingin af þessu yrði því engin önnur en sú, að þm. færu aðrar leiðir til þess að skjóta sér undan að greiða atkv.

Mér þykir ákaflega einkennilegt, ef löggjafarvaldið fer að leika sér að því að setja í l. ákvæði sem mikill vafi er um, hvort þau ekki brjóti í bága við stjskr. Afleiðingin mundi verða sú að því yrði skotið undir úrskurð dómstólanna, hvort l., sem afgr. væru á þennan hátt, væru löglega sett.

Ég vil því leggja til, að 10. og 20. gr. verði felldar, vegna þess að hvorki stjórnarflokkarnir né aðrir ná nokkrum árangri af því, að þau ákvæði verði sett. Þeir, sem á annað borð vilja tefja málin, fara aðra leið, og árangurinn verður enginn annar en sá, að Alþingi setur l., sem engum manni blandast hugur um, að eru brot á 48. gr. stjskr.