07.03.1936
Neðri deild: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Garðar Þorsteinsson:

Ég minntist nú ekkert á það, sem hv. þm. aðallega byggði á, sem er hin eldri löggjöf um þetta. En nú er það vitanlega þessum hv. þm. vel ljóst, ekki sízt þar sem hann er lögfræðingur, að þótt einhver ákvæði hafi verið í þingsköpum, sem brutu í bága við þágildandi stjskr., þá bætir það ekki vitund úr skák í þessu tilfelli. Það, sem mestu máli skiptir hér, er það, að Alþingi hefir leiðrétt þingsköpin til samræmis við stjskr. En það, sem stjórnarflokkarnir vilja gera, er að nema sjálfa leiðréttinguna burt og setja hina fyrri villu í staðinn, þá villu, sem þessi hv. þm. er að skírskota til. Það, sem á að skera úr, er sá rétti og gildandi skilningur á þingsköpum eins og þau eru nú. Ég fæ ekki séð, hvers vegna settur er þessi skilningur inn í núgildandi þingsköp, ef ekki af þeirri ástæðu, að löggjafinn, sem þau þingsköp setti, sá, að hinn fyrri fór í bága við stjskr.

Um tilvitnun hv. þm. til Knuds Berlins skal ég ekkert segja, hvort hann hefir þessi ummæli í bók sinni. En það er annað, sem bendandi er á. Í stjskr. dönsku stendur aðeins „deltage í Afstemningen“. Er það ákvæði samhljóða 40. gr. hér, að „eiga þátt í atkvæðagreiðslu“. Hinsvegar er ekkert orðalag í dönsku stjskr. tilsvarandi því hjá okkur í 48. gr. „að greiða atkvæði.“ Enda þarf það að „greiða atkv.“ og að „taka þátt í atkvgr.“ alls ekki að vera það sama. Þetta er í fullu samræmi við skilning Knuds Berlins, að samkv. dönsku stjórnskipunarlögunum sé heimilt að setja þingsköp á þennan hátt, að telja þá þm. með við atkvgr., sem ekki hafa greitt atkv., aðeins ef þeir eru á fundi og hafa á þann hátt „deltaget“ — tekið þátt í atkvgr. Sá skilningur gæti staðizt í samræmi við 41. gr. íslenzku stjskr. og 10. gr. þessa frv. og, en slíkt gildir alls ekki um 20. gr. frv., vegna 43. gr., þar sem ekki er lengur notað orðið að „taka þátt“, heldur er gripið lengra og heimtað, að greitt sé atkv.

Þessi mismunur á orðatiltækjum er í samræmi við það, að stjskr. vill með sérstöku ákvæði tryggja, að ekki sé hægt í Sþ. afgr. mál nema meira en helmingur hvorrar deildar sé á fundi. Með því er tryggt, að hlutföll innan þingsins haldist í Sþ. á sama hátt og í deildunum, eða a. m. k. má gera ráð fyrir því. Þess vegna var ekki ástæða fyrir stjórnarskrárgjafann að setja jafnströng ákvæði í 40. gr. um sameinað þing þegar um þetta ákvæði um „kvalifiseraðan“ meiri hl. er að ræða, eins og í 48. gr., vegna þess að þá sitja d. á fundi.

En það hefir ekki verið sýnt, að neitt ákvæði í samræmi við 48. gr. stjskr. sé í dönsku stjskr. Þar er notað orðið að „deltage“, sem er í samræmi við 40. gr., en ekki 48. gr. Auk þess sem hin eldri villa gerir ekki hina nýju að neinu leyti betri.