12.03.1936
Neðri deild: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Á þskj. 138 hefi ég leyft mér að flytja þrjár brtt. við frv. Ég hafði í raun og veru ætlað mér að koma fram með þær í allshn., en svo stóð á í gær, að fundur féll niður í n. — Þrátt fyrir það sá ég ekki annað fært en að bera þær hér fram í þd., án þess að hafa borið mig saman við samnm. mína. Ég veit ekki um afstöðu þeirra allra, en við suma þeirra hefi ég þó rætt um brtt., og hafa þeir lýst sig samþykka þeim.

Fyrsta brtt. er fólgin í því, að heimilað er að ganga frá og afgreiða till. á Alþingi án þess að atkvæðagreiðsla þurfi að fara fram um þær með handauppréttingu, þegar sýnilegt er, að ekki hefir orðið neinn meiningamunur um þær. Í 47. gr. þeirra þingskapa, er nú gilda, eru nokkur ákvæði um þetta, en mér þótti ástæða til, að þau yrðu gerð nokkru fyllri, og taldi ég þá sérstaklega praktiskt, að ekki þyrfti að greiða atkv. með handauppréttingu um hverja smávegis brtt., t. d. við fjárl., sem vitanlegt er, að allir muni vera sammála um. En að sjálfsögðu geta allir þm. krafizt atkvgr. með handauppréttingu um hvaða till. sem er. Slík afgreiðsla á einstökum till., sem hér er stungið upp á í brtt. minni, er algeng á þingum í öðrum löndum, að það er ekki látin fara fram formleg atkvgr. um till., sem enginn ágreiningur hefir komið fram um.

Önnur brtt. mín snertir ákvæði um útvarpsumræður frá Alþingi. Hún er fram komin út af aths. hv. 2. landsk., er hann bar hér fram við umr., um að þm., sem væru utan flokka, fengju að taka þátt í þeim. Ég hefi því stungið upp á að þm., sem væri utan flokka, fengi þar ræðutíma, en þó aldrei meira en helming af þeim tíma, sem hver einstakur þingflokkur hefir til umráða við þessar umræður. Og til þess að koma í veg fyrir of mikla tímaeyðslu, ef utanflokkaþm. eru fleiri en einn, þá hefi ég sett þau takmörk, að samanlagt mættu þeir aldrei hafa meiri ræðutíma en hver einstakur þingflokkur. Með þessu móti er fyrir það byggt, að utanflokkaþm. geti samtals fengið lengri ræðutíma í útvarpsumræðum en einn þingflokkur, og finnst mér það sanngjarnt. Hv. 2. landsk. gerði glögga grein fyrir þessu við 2. umr., og sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um það. — Loks kem ég að 3. brtt., en hún er aðeins leiðrétting, því að eins og orðalagið er á 37. gr., fékk hún vart staðizt, eftir að búið var að gera þær breytingar á frv., sem samþ. voru við 2. umr. — Ég skal svo aðeins endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að þessar brtt. eru fluttar af mér einum, af því að mér vannst ekki tími til að bera mig saman við meðnm. mína í allshn., og vænti ég að ekki verði verulegur ágreiningur um þær. Ennfremur skal ég geta þess að hvorki ég né meðnm. mínir hafa fengið aðstöðu til að athuga brtt. hv. þm. Borgf. á þskj. 139, enda verður ekkert um þær sagt frá hálfu allshn. fyrr en hv. flm. hefir gert grein fyrir þeim.