12.03.1936
Neðri deild: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Garðar Þorsteinsson:

Ég vil taka undir það, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði, að réttast væri, að umræðunum um þetta mál yrði frestað, málið tekið af dagskrá og lagt fyrir allshn. á ný til athugunar. Við 2. umr. kom hv. 2. landsk. fram með þá till., að tekið yrði meira tillit til utanflokkamanna á þingi, þannig að þeir hefðu sama rétt og flokkur, jafnvel til þess að taka þátt í útvarpsumræðum; hv. 1. landsk., sem þá var frsm. meiri hl. allshn., lofaði að athuga þetta og leggja það fyrir n., en í stað þess að gera eins og hann hafði lofað, hleypur hann til og ber fram brtt. í þá átt að tryggja utanflokkamönnum þennan rétt, og jafnvel meiri rétt en hv. 2. landsk. hafði nokkurn tíma látið sig dreyma um, að hann gæti fengið. Ég vil ekki taka afstöðu til þessa máls núna vegna þess, að þetta atriði liggur nú nýtt fyrir og hefir ekki verið rætt innan Sjálfstfl., en hinsvegar get ég sagt það frá mínu eigin sjónarmiði, að mér finnst óeðlilegt að víkka þessa heimild frekar en gert er ráð fyrir í frv. sjálfu, en þar er ætlazt til þess, að utanflokkamenn fái málfrelsi í útvarpsumræðum með leyfi forseta, sem mundi væntanlega eiga að skiljast þannig, að þingflokkarnir kæmu sér saman um það, hvernig þessu skyldi hagað. Eins og ég sagði áðan, hefði mér fundizt viðkunnanlegt, að hv. 1. landsk. hefði staðið við orð sín og lagt þetta mál fyrir n. í stað þess að hlaupa til og bera fram till. um þetta atriði; auðvitað kemur hann þar fram sem þm., en mér finnst það litlu skipta.

Viðvíkjandi till. frá hv. þm. Borgf. vil ég taka það fram, að ég er henni samþykkur; það er rétt, að orðin „úr hvorri deild“ eru í samræmi við stjskr.

Að því, er það atriði snertir, að fá mann kosinn til Ed., ef sæti losnar þar, þá finnst mér það út af fyrir sig byggjast á misskilningi hjá hv. þm. V.-Húnv., að það sé óeðlilegt, að hlutkesti sé látið ráða úrslitum, ef svo fer, að tveir flokkar eiga jafnan rétt á útnefningu mannsins að því, er þingmannatölu snertir. Vitanlega verður sú hending að ráða í þessu tilfelli sem öðrum, þegar hlutkesti er viðhaft. (BÁ: Er flokkum óheimilt að bera fram sameiginlegan lista?). Eftir ákvæðum gr. ætti það að vera. Annars má nú benda á það í þessu sambandi, að þessi hæstv. stj., sem nú situr, hefir tórt aðeins fyrir þá sök, að hlutkestið varð henni hliðhollt. Eins og hv. 3. þm. Reykv. hefir bent á, er ákvæði þessarar gr., sem hér um ræðir, ekki nógu ýtarlegt, og geri ég ráð fyrir, að fram komi brtt. um það efni. Viðvíkjandi brtt. hv. 1. landsk. um utanflokkaþingmenn skal ég taka það fram, að mér finnst of langt gengið í þessari brtt.; þetta segi ég frá eigin brjósti en ekki í nafni flokks míns; ég fæ ekki séð, að utanflokkamenn eigi að hafa jafnan rétt í þessu efni og flokkarnir, og heldur ekki að hálfu, en auk þess hefi ég verið að velta því fyrir mér, hversvegna hv. 2. landsk. hefir komið fram með þessa till.; ég veit ekki, hvort því veldur hans meðfædda réttlætistilfinning, til þess að veita þeim útskúfuðu rétt, því að naumast geta eiginhagsmunir þar ráðið, þar sem hv. þm. er að sjálfs sín sögn ekki utan flokka, heldur hinn eini sanni bændaflokksmaður.