12.03.1936
Neðri deild: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Pétur Ottesen:

Hv. fyrri þm. Árn. hefir að vísu fallizt á það, að sjálfsagt væri að samþ. brtt. mína við 16. gr., þó að hann hinsvegar teldi það ofmælt, að það væri stjórnarskr7árbrot, ef svo væri ekki gert. Ég sagði að það kæmi í bága við ákvæði stjskr., en ég sagði aldrei, að þar væri brot á henni. Ég skil satt að segja ekki í því, hvers vegna hæstv. forseti er að reyna að komast í kring um svo skýlaust ákvæði eins og þetta er, þó það hafi nú tekizt svo til fyrir honum, þegar hann flutti þetta frv., að hann kafaði ekki dýpra en það að hann fór eftir sérprentun þingskapanna, sem fyrir liggur, en gætti ekki í þingsköpin, eins og þau eru birt í Stjórnartíðindunum, en þar ber ekkert á milli ákvæða stjórnarskrárinnar og þingskapanna um þetta efni. En mér skilst tilgangur stjskr. með því að kveða svona á vera skýlaus út frá þeirri staðreynd, að hvor d. Alþingis er sjálfstæður aðili, sem hefir sjálfsákvörðunarrétt án tillits til hinnar d. um afgreiðslu mála. Stjskr. vill tryggja, að sameinað þing sé byggt upp á sama grundvelli, þannig að engin ályktun frá því sé gild, nema meiri hluti hvorrar d. sé á fundi. Hitt er augljóst, að með ákvæðinu eins og það er í frv., og eins og það hefir misprentazt í sérprentun þingskapanna, getur þetta raskazt og orðið miklu meiri munur á tölu þm. í hvorri d. heldur en nú er. Þetta ákvæði þarf að laga og heimfæra við þingsköpin, eins og gert er ráð fyrir í till. minni. Ég vildi aðeins taka þetta fram út af því, að hv. 1. þm. Árn. var að gera lítið úr þeim mismun, sem er á ákvæðum stjskr. og frv., eins og það liggur hér fyrir. Að öðru leyti þarf ég ekki að fara lengra út í það. Ég vildi gera dálitla fyrirspurn til flm. og líka til hv. allshn., og hún er í sambandi við breyt., sem þeir hafa lagt til, að gerð verði á útvörpun umræðna. Þeir hafa sem sé lagt til að gera þá breyt. frá því sem nú er, að leyfa utanflokkamönnum að taka þátt í útvarpsumræðum. Hingað til hefir þessi heimild verið bundin einungis við flokka. Ég skal engan dóm á það leggja út af fyrir sig, en ég vil spyrja, hvort það sé meiningin, að sú þátttaka, sem utanflokkamenn fá, eigi að ganga út yfir þann tíma, sem flokkunum er ætlaður samkvæmt þessu frv.? Mér skilst eftir orðalaginu, að tíminn sé miðaður við það, sem flokkarnir hafa haft að undanförnu. En niðurstaðan af því verður sú, að tími utanflokkamannanna kemur fram sem stytting á þeim tíma, sem flokkunum hefir verið ætlaður. Hér stendur t. d. um 1. umr. fjárlaganna, að í fyrstu umferð eigi að vera ein stund fyrir hvern flokk, síðan hálf stund 3 umferðir og enn aðrar 3 hver um sig fjórðung stundar. Þetta skiptist á þá 3 klukkutíma sem varið er til umr. Svo stendur að eftir þetta skuli útvarpsumræðum um fjárlögin lokið. Eftir að þær hafa staðið í 3 tíma með þeirri skiptingu, sem er á milli flokkanna, á umræðunni að vera að fullu lokið. Eftir brtt. getur þetta orðið allveruleg skerðing á tíma flokkanna við útvarpsumræður, þar sem gert er ráð fyrir, að ef um 2 utanflokkamenn er að ræða, þá geti þeir öðlazt jafnlangan tíma og hverjum flokki er ætlaður. Það þarf vitanlega að vera skýrt, hvað við er átt með þessu, og hvort réttmætt er að leyfa utanflokkamönnum þátttöku í útvarpsumræðum, ef það kemur þannig niður á flokkunum. Ef allshn. tekur þetta mál til athugunar, þá vænti ég, að hún athugi einnig þetta atriði.