07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

1. mál, fjárlög 1937

Sigurður Kristjánsson:

Það hefir skipazt svo til, að mér hefir verið falið það sérstaklega af mínum flokki í þeirri deild, sem ég á sæti í, að líta á hag sjávarútvegsins. Það er því sjálfsagt ekki illa til fallið, að ég lýsi sökum á hendur núv. hæstv. stj. fyrir misgerðir hennar við þennan mikla atvinnu- og bjargræðisveg þjóðarinnar.

Ég get nú ekki sagt, að það hafi orðið mér ánægjulegt verk að fjalla um málefni sjávarútvegsins á þingi. Veldur það, að margar meinsemdir þjá þennan volduga atvinnuverg, svo hann er nú fjárhagslega alveg að þrotum kominn. Óvinir hans, þeir yngstu, eru verðfall og sölutregða í gömlu markaðslöndunum og óvenjulegt aflaleysi síðustu vortíðir. Þetta eru ærið skaðsamlegir óvinir. En þó hika ég ekki við að segja, og skal láta því fylgja fullgildar sannanir, að skæðasti óvinur sjávarútvegs Íslendinga er meiri hl. Alþingis með fáráða ríkisstjórn í fararbroddi.

Ef hin síðasta plágan væri ekki, væri það, þrátt fyrir aðra örðugleika, að mörgu leyti ánægjulegt að fjalla um málefni útvegsins.

Sjávarútvegurinn hefir frá landnámstíð verið annar af tveim aðalatvinnuvegum Íslendinga.

Fram til síðustu áratuga var hann minni bróðirinn. En þá tók hann snöggt viðbragð og yfirgnæfir nú að verðmætaöflun alla atvinnuvegi landsmanna, og er jafnframt sá atvinnuvegurinn, sem er langnæst því að vera rekinn eftir fullkomnum nýtízku reglum.

Mikilvægi sjávarútvegsins fyrir þjóðina geta menn strax skilið, er þeir athuga það, að um mörg undanfarin ár hafa 9/10 hl. allra verðmæta, sem flutt hafa verið út frá landinu, verið sjávarafurðir. Verðmæti þessi hafa komizt hæst upp í 70–80 millj. kr. á ári, en eru nú því miður aftur hröpuð niður í ca. 40 millj. kr.

Það er vitað, að hinar geysilegu tekjur ríkissjóðs á síðustu árum eru að langmestu komnar frá hinum mikla vitaðsgjafa, fiskimiðunum við Ísland. Og það er þá líka víst, að fyrir örlæti þessa vitaðsgjafa hefir íslenzku þjóðinni auðnast að lifa á síðari árum ríkara menningarlífi á mörgum sviðum heldur en bjartsýnustu menn dreymdi um um síðustu aldamót.

Allt þetta talar skýru máli um það, hve geysilega mikið íslenzka þjóðin á undir því, að sjávarútvegurinn bregðist ekki. Og ef nokkuð skortir á, að sannað sé, að íslenzka þjóðin eigi meira en hálft líf sitt undir sjávaraflanum, þá má bæta því við, að Íslendingar eru langmestu aflamenn í heimi. Fiskafli þeirra var árið 1930 samkv. hagskýrslum 3200 kg. á hvert mannsbarn í landinu, en sú þjóð, sem komst næst Íslendingum í aflasæld, og það eru Norðmenn, aflaði þetta ár 396 kg. á mann.

En hvernig hefir skilningur hæstv. ríkisstj. og flokks hennar hér í þinginn verið á þessu? Þar um eru verk hennar óljúgfróðust, og er því bezt að láta þau tala.

Þegar núv. hæstv. ríkisstj. kom til valda, stóð yfir rannsókn á hag og afkomu sjávarútvegsins. Það varð hlutskipti þessrar stj. að tak, við árangri rannsóknanna, en þær virtust leiða í ljós, að útgerðin væri fjárhagslega alveg að þrotum komin. Eftir skýrslunum hafði útgerðin verið rekin með stórtapi þrjú næstu árin á undan. Allar eignir útgerðarmanna voru þar taldar um 32,5 millj. kr., en skuldirnar alls 26.5 millj. kr. Árin, sem síðan eru liðin, hafa verið útgerðinni svo erfið, að vafalaust má telja, að þó einstaka útgerðarmaður eigi enn eitthvað fram yfir skuldir, þá séu aðrir, sem skulda það meira en brúttóeign þeirra nemur, að meðaltalið sé það, að allir útgerðarmenn séu öreigar.

Nú kom hin þrautsogna útgerð og bað um það, og það eitt, að af útgerðinni yrði létt útflutningsgjaldinu og henni leyft að mynda af því sjóð til viðréttingar fjárhag útgerðarinnar. Hún bað ekki um eyrisframlag úr ríkissjóði, heldur aðeins að létt yrði skatti af atvinnurekstri, sem sannanlega var rekinn með stórtapi. Þess má og geta, að enginn fiskveiðaþjóð í heimi leggur útflutningsgjald til ríkisins á sjávarafurðir, en sumar greiða útflutningspremíu á útfluttar sjávarafurðir.

Hvernig tók svo íslenzka stj. þessari málaleitun útgerðarinnar? Henni fór líkt og manninum, sem tók fyrir kverkar samþegni sínum og hneppti hann í þrældóm, af því að hann átti ekkert til að greiða með skuld sína.

Á þingunum 1934 og 1935 bárum við sjálfstæðismenn fram eftirfarandi mál til viðreisnar sjávarútveginum, auk margra smærri mála:

1. Frv. til l. um eflingu fiskveiðasjóðs Íslands, 2. frv. til l. um skuldaskilasjóð útgerðarmanna, 3. frv. til l. um rekstarlánafélög bátaútvegsins, 4. frv. til l. um frystigjald beitusíldar. 5. frv. til l. um afnám útflutningsgjalds á fiski, 6. frv. til l. um markaðssjóð saltfisks, 7. frv. til l. um afnám fiskimálanefndar, 8. frv. til l. um fiskiráð, 9. till. til þál. um ábyrgð á gengi þýzkra marka fyrir ísfisk, sem útgerðin átti innifrosin í þýzkum bönkum.

Öll þessi frv. eru til mikilla hags- og réttarbóta fyrir útgerðina. Þau eru öll borin fram af sjálfstæðismönnum, sum tvisvar, sum þrisvar. Mörgum þeirra hafa fylgt til þingsins áskoranir fjölda manna utan þings, sumum þúsund, manna, úr flestum sjávarbyggðum landsins um að samþykkja þau. En ekki einn einasti stuðningsmaður stj. hér á þessari háttvirtu samkomu hefir veitt þeim stuðning með flutningi eða atkv. Þau hafa öll fallið fyrir sömu bolöxinni, bolöxi hinnar blindu óvildar stj. og stjórnarflokkanna.

En stj. og stuðningsflokkar hennar hafa ekki látið við það lenda að veita andstöðu hverju þurftarmáli útvegsins, heldur hefir hún byrlað útgerðinni marga ólyfjan. Vil ég fyrst telja lögin um fiskimálanefnd. Það var krafa þeirra rauðustu, sem flestu ráða í stjórnarflokkunum, að öll verzlun landsmanna með sjávarafurðir yrði gerð að ríkisrekstri. Ríkið átti að setja á stofn verzlunarbákn, áhættuverzlun með 40–60 millj. kr. umsetningu á ári. Utan um þessa kommúnistísku hugmynd voru svo sett saman lögin um fiskimálanefnd. Tók stj. sér þar svo gersamlega vald yfir öllum útvegsmálum, að varla gat heitið, að soltinn þurrabúðarmaður mætti draga sér fisk í soðið, nema með allramildilegasta leyfi sérfræðinganna í „Hvíta húsinu“. Stjórnin mátti banna skipum að veiða og takmarka veiði annara. Menn áttu að spyrja hann, hvort þeir mæltu verka fiskinn og hvernig þeir ættu að verka hann. Hvort þeir mættu ljóða hann til sölu og hverjum þeir mætu bjóða hann og fyrir hvaða verð. Allt þetta gátu hinir vísu feður í „Hvíta húsinu“ falið fiskimálanefnd. Og svo kom rúsínan í pylsuendanum: Ef ríkisstjórninni sýndist, að það yrði .,notadrýgst“, gat hún falið fiskimálanefnd einkasölu á fiski til útflutnings.

Um það hefir verið deilt, hvort einkasala hafi verið takmark stj. Þeir, sem bezt þekkja innræti stjórnarflokkanna eða þeirra, sem þar ráða mestu, fara næst um þetta. En um það þarf ekki að fjölyrða nú. Bankarnir tóku mjög hart á einkasölubrölti stj., svo að hún sá sér ekki fært að skella því fyrirkomulagi á þegar í stað. Atvmrh. breytti lögunum um fiskimálanefnd í skyndi með bráðabirgðalögum, til þess að gamla samlagið gæti haldið áfram að starfa. Og síðan breytti þingið óskapnaðinum stórkostlega. Fiskframleiðendur stofnuðu síðan með sér nýjan félagsskap, er þeir nefndu Samband ísl. fiskframleiðenda, skammstafað S. Í. F. Þessi félagsskapur var síðan löggiltur sem aðalútflytjandi saltfisksins eða fyrir ca. 9/10 allrar framleiðslunnar.

Með stofnun og löggildingu þessa félagsskapar voru verkefni fiskimálanefndar raunverulega úr sögunni, að mestu leyti. Hið ótakmarkaða vald hennar og fjárráð voru ekki lengur annað en draumur Héðins. Það, sem eftir var, er þá helzt þetta: „Hún skal gera ráðstafanir til þess að gerðar séu tilraunir með nýjar veiðiaðferðir og útflutning á fiski með öðrum verkunaraðferðum en nú er mest tíðkað“.

Þannig er hlutverk n. skilgreint í lögunum. En n. lét sér ekki skiljast, að með hinni nýju skipun var tilveruréttur hennar umlir lok liðinn. Hún setti á stofn skrifstofubákn, og þessir 7 menn gerðu olíusalann að formanni með prófessorslaunum og skömmtuðu sér allir gild laun. Þessi n., sem með breyt. á l. um fiskimálanefnd átti í veruleika að vera úr sögunni, gekk hreinlega aftur og hefir síðan haft hæstv. atvmrh. á valdi sínu og þveitt honum að hverju skemmdarverki eftir annað, eins og síðar mun sýnt verða.

Ég hlýt að geta þess hér, vegna hinna alveg einstæðu og siðlausu árása stjórnarblaðanna á fisksölu Íslendinga, sem að mínu viti speglar hugarfar rauðu flokkanna til útgerðarinnar, að Íslendingar hafa allt frá því, að hinar miklu framfarir í útgerð þeirra hófust, verkað nær allan fisk sinn fyrir beztu markaðina, en það var saltfiskmarkaðurinn í Miðjarðarhafslöndunum. Á fáum árum fjórfölduðu Íslendingar fiskframleiðslu sína, en þeir unnu markaði jafnóðum fyrir allan viðaukann. Engin þjóð hefir staðið Íslendingum á sporði í fisksölu, meðan innflutningur til Miðjarðarhafslandanna var frjáls. Keppinautarnir urðu að víkja. Og þeir urðu að verka fisk sinn að meira eða minna leyti á verðlægri markaði, t. d. með því að herða hann. Norðmenn hafa stundum orðið að herða allt að helmingi ársframleiðslunnar og sæta miklu lægra verði fyrir þann hlutann. Jafnvel hafa þeir stundum orðið að mala harðfiskinn aftur í fiskimjöl og orðið lítið úr honum.

Það er dálítið broslegt fyrir þá, sem vita, hvert neyðarúrræði það hefir verið fyrir Norðmenn að herða meira og minna af fiski sínum, þegar strákarusl það, sem skrifar um útvegsmál í blöð íslenzku ríkisstjórnarinnar, er að harma það sem hina mestu ógæfu, að Íslendingar lentu ekki fyrr í því að þurfa að herða eitthvað af framleiðslu sinni.

Þegar S. Í. F. tók til starfa, var viðhorfið mikið breytt frá því, sem áður var. Innflutningsskömmtun var hafin í Miðjarðarhafslöndunum, og hafði innflutningur farið mjög minnkandi, þannig talið í smálestum:

Spánn Portúgal Ítalía Samtals þús. tonn þús. tonn þús. tonn þús. tonn

1933 ... 31,2 15,6 19,9 66,8

1934 ... 20,0 19,0 16,3 35,3

1935 ... 14,2 16,8 8,6 39,6

Við innflutningsskömmtunina bætast sífellt nýir örðugleikar, svo sem yfirfærsluvandræði kaupendanna og kröfur þeirra um jafnaðarkaup og greiðslur í sinni eigin mynt. Bætist þá hætta á gengisbreytingu við annað. Og loks það að íslenzku stj. virðist heldur ósýnt um meðferð allra utanríkismála, einkanlega það, sem við kemur fiski.

Stjórn S. Í. F. varð af þessu alveg ljóst, að henni voru engin setugrið boðin. Hún varð að bæta sér tap neytenda í Miðjarðarhafslöndunum með því að finna aðra neytendur. Hún varð að finna milljónir manna, sem fengjust til að borða íslenzkan fisk og gætu borgað hann. Og hvar mundi það fólk frekar að finna en í hinu gagnauðuga reginvíða landi, Ameríku, með milljóna hundruðin. S. Í. F. staðréð að vinna markaði í þessu landi. Tækist að fullnægja smekk og kröfum milljónanna þar, mundu fiskfarmarnir renna hver í annars kjölfar vestur um haf, og dollararnir veltast til Íslands. Og það var einnig ráðið, að fela ekki landnám þetta öðrum en völdustu mönnum. Mönnum með fullkomna þekkingu á fiski og fisksölu.

Vegna hins alveg einstæða blekkingavaðals og blygðunarlausu ósanninda atvmrh. um sendiferðir S. Í. F. til Ameríku sé ég mig knúðan til, eftir því, sem tími leyfir, að gefa skýrslu um þessar ferðir.

Ráðh. sagði, að út liti fyrir, að árangur af ferðinni til Suður-Ameríku yrði mikill og góður. En hann sagði, að Jón Árnason hefði átt till. um þá sendiferð, og lét sem hann hefði fyrstur séð söluskilyrði þar. Sannleikurinn er þessi: Íslenzkir fiskeigendur gerðu svo árum skipti verulegar sölur til Suður-Ameríku. En þær sölur stöðvuðust, algerlega og eingöngu fyrir greiðsluþrot þeirra landa. Fraus þar inni stórfé fyrir öðrum þjóðum og er sú saga víst flestum kunn nema ráðh.

Á fyrsta fundi stjórnar S. Í. F. var samþ. fyrir tilmæli Jóh. Þ. Jósefssonar, þm. Vestm., að hefja sölur til Suður-Ameríku. Var þá strax ákveðið af okkur sjálfstæðismönnum í fisksölustjórninni að senda þangað mann til þess að greiða fyrir sölum, og alltaf um það talað sem sjálfsagðan hlut. Þegar sú ályktun var bókuð, var það Magnús Sigurðsson, sem bar hana fram. Og þegar svo sendiför Thor Thors var ákveðin, greiddi J. Á. ekki einu sinni atkv. Að gefnu tilefni lýsti hann því þá yfir, að það væri ekki af því, að hann væri á móti manninum. Liggur því nærri að álykta, að það hafi verið förin sjálf.

Thor Thors fór bæði til Argentínu og Brasilíu. varð árangur af ferð hans hinn glæsilegasti. Leysti hann mjög örðugt gjaldeyrismál, sem raunverulega opnaði íslenzka fiskinum leið á markaðinn. Höfum við á þeim fáu mánuðum, sem síðan eru liðnir, selt 26 þús. kassa af fiski til Argentínu og Brasilíu, eða um 800 skp., og er líklegt, að salan margfaldist. Hefir danska sendiráðið í Argentínu skrifað utanríkisstjórninni dönsku, og hún aftur sent íslenzku ríkisstj. mjög lofsamleg ummæli um framkomu og dugnað hins íslenzka sendimanns. Telur honum meðal annars til ágætis, að hann hafi fullkomið vald á spanskri tungu. Ég get þessa af því, að ráðh. varaðist vandlega að geta þess, hver sendimaðurinn var. Mundi hann víst ekki hafa gleymt því, ef hann hefði heitið Sigurður Jónasson.

Um leið og ferð Thor Thors var ákveðin til Suður-Ameríku, var einnig ákveðið, að sérstakur maður yrði sendur til Kúba og Bandaríkjanna. Að þetta var ekki fyrr ákveðið, stafaði af því, að í upphafi var ætlazt til, að Suður-Ameríkuferðin væri sameinuð ferðinni til Kúba. En Thor gat ekki komið því við að fara til Kúba, og varð þá að fara þangað sérstakur maður. Þykir mér rétt að skýra frá þessu til þess að hnekkja þeim ósannindum atvmrh., að Héðinn Valdimarsson hafi átt þá till. Sannleikurinn er sá, að Héðinn barðist með oddi og eggji móti sendiförinni, og fann þá ástæðu til, að það var Kristján Einarsson forstjóri, sem valinn var til ferðarinnar. — Og vegna fádæma rætinnar niðgreinar í Alþýðublaðinu um Kristján Einarsson, og vegna þess að atvmrh. var í gærkvöldi að hlaða ofan á þær lygar dylgjum um það, að sendimaðurinn hefði ekki verið vel valinn né leyst erindi sitt vel af hendi, skal ég leyfa mér að hnekkja rógburði beggja í einu. En það mun ég gera með því að lesa hér með leyfi hæstv. forseta nokkur ummæli úr bréfi ræðismanns Dana í Havana. Bréfið er stílað til utanríkisstjórnar Dana, en það sendi afrit af því íslenzku stj., svo það, sem ráðh. sagði til álitshnekkis Kr. E., var fullkomlega móti betri vitund.

Í bréfi ræðismannsins stendur meðal annars: „Hann (Kr. E) hefir selt 5 þúsund kassa fiskjar, meðan hann stóð við. Hann hefir valið mjög góðan umboðsmann og undirbúið vel framtíðina. ... Ég vildi óska að viðskiptin gætu haldið áfram á þeim heilbrigða grundvelli, sem nú er lagður. ... Áður en ég lýk máli mínu, verð ég að skýra frá því, að þessi góði árangur, sem náðst hefir, er að miklu leyti, vafalaust, að þakka hinni fullkomnu þekkingu herra Kristjáns Einarssonar í fisksölumálunum í heitu löndunum, þekkingu, sem ég tók strax eftir, er hann fyrst talaði við mig og þær aðferðir, er hann notaði í tali sínu og umræðum þeim, er hann átti við kaupendur. Það er mikilsvert atriði í landi eins og Kuba, þar sem viðskiptin, sérstaklega þó matvælaviðskiptin, eru sannarlega mjög erfið viðfangs.“

Í öðru bréfi segir ræðismaðurinn, að Kr. E. hafi meiri þekkingu á þessum málum heldur en nokkur annar, er hann hafi átt tal við þau 15 ár, sem hann hefir verið ræðismaður.

Eins og þarna segir, seldi Kr. E. þegar, er hann kom til Kúba, 5000 kassa af saltfiski og útvegaði þar ágætan umboðsmann. Höfum við nú selt þangað 10000 kassa, þrátt fyrir það að venjulegur innkaupstími fyrir fisk frá 1935 var liðinn, þegar Kr. E. kom þangað.

Frá Kúba fór Kr. Einarsson til Bandaríkjanna og Kanada. Varð honum strax ljóst, er hann fór að kynna sér markaðshorfurnar, að þótt selja mætti að líkindum talsvert af saltfiski í Bandaríkjunum, þá fer þó neyzla hans þverrandi með hverju ári. En með því meiri hraða vex þar markaður fyrir hraðfrystan fisk. Neyla hraðfrysta fisksins þekktist varla þar í landi fyrir nokkrum árum, en nú er talið, að í Bandaríkjunum einum seljist á ári um 70 þúsund tonn af nýjum og hraðfrystum fiski, bæði vatnafiski og sjóveiddum fiski, og virðist aukning neyzlunnar í fullum hraða. Sá Kr. E. strax, að þarna var til mikils að vinna fyrir Ísland.

Komst hann fyrir milligöngu ágætra manna að á stöð elzta og stærstu flökunar- og hraðfrystifirmans í New York og lærði þar verkun og útbúnað fisksins, eins og smekkur Ameríkumanna krefur, allt frá vali fisksins og til þess, er hann er kominn í síðustu umbúðir.

Er þar skemmst frá að segja, að Kristján kom S. Í. F. í samband við öflugustu verzlunarfélög, er honum, eftir beztu heimildum, virtust hafa fullkomnust skilyrði til þess að kynna og selja íslenzkan fisk. Skipti hann Bandaríkjunum og Kanada milli þriggja umboðsmanna, en tveir þeirra eru stórir verzlunarhringar eða verzlunarsambönd, sem hafa viðskiptanet um öll Bandaríkin og Kanada, með eigin skrifstofur í öllum aðalborgum þessara landa.

Hæstv. atvmrh. lét sér sæma að fara með þau ósannindi, að Kr. E. hefði ekki „fundið“ nema einn umboðsmann í ferð sinni. Fór hann lítilsvirðandi orðum um þennan „eina“. Þessi framkona ráðh. var að sönnu gægsnisleg, en verður þó að leiðréttast, af því að um mikilsvert mál er að ræða.

Sannleikurinn er sá, að Kr. E. réð til bráðabirgða fjóra umboðsmenn. Staðfesti S. Í. F. strax eftir heimkomu hans ráðningu þriggja þeirra ágreiningslaust. Um þetta var ráðh. kunnugt, svo að ósannindi hans voru vísvitandi. Fyrstu umboðið er fyrir Kúba, Vestur-Indlandseyjur og Mið-Ameríku. Umboðsmaðurinn á heima í Havana, er fæddur þar og nýtur mikils álits. Sendiherra Dana í Havna mælti eindregið með honum. Og fiskkaupmenn töldu hann hverjum manni betur til starfans fallinn. Er þann og þaulkunnugur fiskverzlun.

Fyrir Boston og umhverfið réð Kr. E. til bráðabirgða íslenzkan mann, Andrés Guðmundsson, sem búsettur er í Boston, Rak A. 9, og rak áður lengi fiskverzlun á Englandi og er Íslendingum að góðu kunnur.

Umboð í New York um suðurhluta Bandaríkjanna fól Kr. E. firmanu Ol. Hertzvig Trading Co incl. í New York. Er forstjóri þessa afar öfluga verzlunarfélags afarmikilsmetinn maður og hefir afarvíðtæk og traust verzlunarsambönd um öll Bandaríkin.

Umboðsmenn fyrir Chicago og norðvestur Banaríkin réð Kr. E. tvo Íslendinga: Guðm. Jónasson, forstjóra firmans The Keipetown Fichering í Winnepeg, og meðeiganda hans, Þ. Þorsteinsson (Thorsteinn Thorsteinsson), fyrrum bankastjóra. Sá fyrrnefndi hefir mestan hluta æfi sinnar starfað að fisksölu, og hefir firma hans öflug sambönd um Kanada og Bandaríkin. Hinn síðartaldi var bankastjóri Rayalbank of Canada í 20 ár, áður en hann gekk inn í nefnt firma. Nýtur hann hins mesta trausts, hefir alltaf hálf laun frá bankanum og stendur opin staðan, hvenær sem hann vill taka hana aftur.

Vestur-Íslendingar hafa sýnt hinn mesta áhuga fyrir þessum málum, eins og öllu því, er Íslandi horfir til gagns og sóma. T. d. um fórnfýsi þeirra skal ég geta þess, að vel fjáður verksmiðjueigandi í Winnipeg bauð strax og lagði fram 150 þús. kr. til tryggingar og fyrirgreiðslu á sölu íslenzks fiskjar í Bandaríkjunum og Kanada. — Er þetta mikið og myndarlegt drengskaparbragð af manni, sem engra hagsmuna hefir að gæta í þessu sambandi, og gekk honum ekkert til nema vináttan og tryggðin til landsins.

Þegar Kristján Einarsson kom heim, samþ. S. Í. F. strax eftir till. hans að senda þegar sýnishorn af hraðfrystum fiski vestur. Reynslusendingar þessar tóku þeir að sér að útbúa hr Gustafsson í sænska frystihúsinu og Ingólfur Esphólín.

Nú kemur fiskimálanefnd fyrst verulega til sögunnar. Hún hafði frá öndverðu sett upp hinn mesta hundshaus yfir þessum sendiferðum, neitað um sjálfsagðan styrk til þeirra og reynt að spilla því, að þær væru farnar. En er nú sýnishornin skyldu fara, gerði n. sendinguna hjá Esphólin upptæka! Fann það til, að hún „ætti frystihúsið og manninn.“ Með mesta dræmingi fékkst útflutningsleyfi fyrir því, sem útbúið var í sænska frystihúsinu. Hafði Kristján Einarsson séð um það að öllu leyti. Og þegar sú sending kom vestur, líkaði hún í alla staði vel, að því undanskildu, að pappírinn væri ekki nógu vandaður. Það stafaði af því, að sá rétti pappír var ekki til með svo stuttum fyrirvara. En til sönnunar því, að sendingin líkaði vel, er það, að umboðsmenn okkar vestra símuðu strax og ráðlögðu S. Í. F. að senda þegar stóra sendingu — heilan farm.

S. Í. F. tryggði sér nú strax fisk í farm þennan kæliskip til flutningsins, kassa og aðrar umbúðir og frystingu á 200 tonnum. En þá kemur fiskimálanefnd og neitar um útflutningsleyfi. Bar hún aðallega fyrir féleysi S. Í. F., ef tap yrði á sendingunni. S. Í. F. vissi, að atvmrh. réð yfir fiskimálasjóði, sem hefir milljón kr. tekjur úr ríkissjóði og ½% útflutningsgjald af fiski. Sneri S. Í. F. sér til ráðh. og bað hann að láta fiskimálasjóð ábyrgjast halla, er verða kynni á reynslusendingu þessari. En þá kom í ljós að ráðh. var í ráðabrugginu með fiskimálanefnd. Neitaði hann S. Í. F. um alla slíka aðstoð. Var nú ekki annars kostur en að láta fiskimálanefnd taka við öllu, þó að okkur grunaði, að ekki mundi fara vel úr hendi sökum vankunnáttu.

Fiskimálanefnd brá nú á sitt ráð. Hún sendi Sigurð Jónasson tóbakssala vestur. Ekki er mér kunnugt — né neinum kunnugt — að hann hafi þekkingu á fisksölu. Eftir beiðni n. fékk hann meðmælabréf frá S. Í. F. til umboðsmanna þess vestra. Voru þeir beðnir að aðstoða hann á allan hátt. Jafnframt sendi S. Í. F. umboðsmönnum skeyti með sömu tilmælum um að vera sendimanni fiskimálanefndar til aðstoðar. En hann skyldi selja gegnum þessi umboð eftir því, sem unnt og haganlegt væri.

Jafnframt þessu heimilaði S. Í. F. framkvæmdastjórum sínum að leitast fyrir um fasta fyrirframsölu á farminum gegnum umboðsmenn sína. Taldi umboðsmaðurinn í New York strax líklegt, að selja mætti allan farminn fyrirfram við góðu verði, ef það yrði leyft.

En fiskimálanefnd var ófáanleg til að leyfa sölu á öllum farminum. Umboðsmaðurinn í New York fékk t. d. ekki leyfi til að selja fyrirfram nema 50 tonn. Símaði hann þegar, að hann hefði samdægurs selt einn firma þessi50 tonn. og að það vildi fá meira. Gat hann selt því allan farminn fyrir verð sem eftir áætlun S. Í. F. hefði gefið 20 þús. kr. hagnað á farminum. En fiskimálanefnd neitaði þverlega. Farmurinn kom svo ekki vestur á tilsettum tíma. Og vegna óheppilegrar framkomu sendimanns fiskimálanefndar notaði kaupaneti áðurnefndra 50 smálesta þetta til þess að ganga frá kaupunum. Jafnframt og umboðsmaður S. Í. F. tilkynnti sendimanni fiskimálanefndar þetta, tjáir hann honum, að hann hafi annan kaupanda, sennilega að öllum farminum. Hann skrifar sendimanninum sama daginn og Steady kom, 21. marz, á þessa leið:

„(Great Atlantic and Pacific Sea Company hafa tilkynnt oss, að vegna þess að mótorskipið Steady kom ekki innan hins tilskilda tíma, 15.–20. marz, þá segi þeir upp kaupum á þeim 100000 lbs. af ferskum og frosnum þorski, er þeir hafa keypt.

Vér höfum kaupanda, sem vilja kaupa allmikið. Sennilega allan farminn. Góðfúslegast gefið oss bezta tilboð yðar.

Yðar einlægur,

Olaf Hertzvig

Trading Company Inc.“

Þessu tilboði var að engu sinnt, og fór því þessi sala út um þúfur.

Framkoma sendimanns fiskimálanefndar var neðan við allar hellur. Hann fór alls ekki á fund umboðsmanns S. Í. F., sem hann hafði meðmælabréf til, fyrr en 9 dögum eftir að hann kom vestur. Þá rak hann inn höfuðið til þess að láta hann vita, að hann vildi ekkert hafa með aðstoð hans að gera.

Ráðh. sagði, að fyrirframsala S. Í. F. í New York hefði brugðizt. Sannleikurinn er sá, að fiskimálanefnd réð því sjálf, að salan var bundin við það, að farmurinn kæmi 15.–20. marz. En hann kom 21. marz. Þó hefði kaupandinn auðvitað ekki gengið frá kaupunum, ef sendimaður fiskimálanefndar hefði ekki orðið ber að þeim einstaka verzlunarhætti að neita þessum kaupanda um meira af farminum, en bjóða hann jafnframt öðrum við hlið hans fyrir lægra verð. Sést á þessu, að aðaláherzlan var lögð á það að eyðileggja mannorð og sölumöguleika S. Í. F. og umboðsmanna þess.

Þó sýndi S. Í. F. fiskimálanefnd þann drengskap, að þegar allt var komið í hundana hjá sendimanni hennar, símaði það umboðsmanni sínum í New York og fékk hann til að koma aftur á sölu þessara 50 tonna, sem þá seldust með lægra verði, af því að umboðsmaður fiskimálanefndar hafði boðið það niður.

Þessi 50 tonn eru það eina, sem enn er selt af Steady-farminnm. Hitt liggur óselt í leigugeymslu í New York. Sigurður Jónasson seldi ekki eitt kíló af þessum farmi. Þau 22 tonn, sem hann seldi og stjórnarblöðin telja í pundum eða jafnvel kvintum, til að gera tölurnar stórar, eru alls ekki úr Steady-farminnm, heldur smásending, sem fór með öðru skipi.

Ég vil nú út af ósannindavaðli hæstv. ráðh. um framkomu S. Í. F. gagnvart fiskimálanefnd gera lítinn samanburð á framkomu beggja.

Fiskimálanefnd neitaði um styrk til sendiferðanna vestur og barðist hart gegn því, að sendir voru menn með þekkingu. Hún gerði upptæk sýnishorn, sem S. Í. F. ætlaði að senda. Hún neitaði S. Í. F. um útflutningsleyfi. Hún lét sendimann sinn hundsa umboðsmenn S. Í. F. og gera orð þeirra ómerk.

S. Í. F. hinsvegar bauð fiskimálanefnd að láta sendimann sinn, er vestur fór, reka erindi hennar eins og hún óskaði, og gerði það. S. Í. F. greiddi götu sendimanns fiskimálanefndar, Sigurðar Jónassonar, á allan hátt og gaf honum meðmælabréf o. s. frv. Og er hann hafði eyðilagt fyrirframsöluna, kom S. Í. F. henni í lag aftur.

Því verður ekki neitað, að flugumannssending fiskimálanefndar til Ameríku er hin herfilegasta. Að vestan hafa drifið bréf og skeyti, þar sem kvartað er yfir framkomu þessa manns. Segja umboðsmenn S. Í. F., að slíkur verzlunarmáti sé ekki aðeins óþekktur meðal siðmannaðra þjóða. heldur sé hann alls ekki þolaður í Bandaríkjunum. Telja þeir veruleg viðskipti útilokuð að sinni, og að viðskiptasómi og traust okkar Íslendinga hafi beðið mikinn hnekki.

Það er því ekki aðeins svo, að Norður-Ameríkumarkaðurinn sé enn óunninn vegna slettirekuháttar fiskimálanefndar í skjóli ríkisstjórnarinnar, heldur eigum við einnig óunnið það erfiða verk að fá þar uppreisn viðskiptaæru Íslands. Þannig gengur hvert happ úr greipum hverrar þjóðar, sem hefir illa stjórn og óhæfa.

Ég heyrði það á ræðu hæstv. atvmrh., að hann er samsekur fiskimálanefnd í þessu máli, en það hafði ég vonað, að hann væri ekki. Hann var boðinn á fjölmennan fund fiskeigenda, sem haldinn var hér fyrir fáum dögum. Þar óð hann uppi með rosta og hálfgerðar hótanir og krafðist þess, að málinu, sem fundurinn var boðaður til að ræða, væri vísað frá. En hann bar ekki höfuðið hátt af þeim fundi. Hefi ég varla vitað framkomu nokkurs manns mæta dýpri fyrirlitningu heldur en framkoma ráðherrans mætti á þessum fundi fiskeigenda. Nú kemur hann fram hér í þessari háttv. samkomu með óhróður um einstaka menn og ósannindi um málefni. Þessi vanstilling sannar, að sök bítur sekan.

Meðal annara málefnafalsana, sem hann hefir farið með, eru þau, að S. Í. F. hafi ekki leyfi til að flytja út annan fisk en saltfisk. Allir fiskeigendur mega flytja út, hvaða fisk sem er ef þeir fá útflutningsleyfi. Og því skyldu ekki meðlimir S. Í. F., sem eru um 90% allra fiskeigenda, fá útflutningsleyfi, eins og smáfisksalar í Reykjavík og aðrir, er slík leyfi hafa fengið og styrk til að standast halla af sölu slíkrar sendingar?

Jafnósatt er það, að þetta sé sérréttur fiskimálanefndar. Allir hv. þm. vita það, að fiskimálanefnd á alls ekki samkv. l., sem um hana gilda, að vera verzlunarfyrirtæki. Er það einmitt mjög greinilega tekið fram í 1. um fiskimálanefnd, að hún skuli gangast fyrir því, að aðrir geri sölutilraunir með nýjar verkunartegundir og á nýjum mörkuðum. Sjálfri er henni því aðeins heimilað að hafa á hendi slíkar sölur, að ráðh. beinlínis feli henni það hvert sinn.

Þetta mál er svo umfangsmikið, að það rúmast alls ekki í þeim fáu mínútum, sem ég hafði til umráða: en ég skal vissuleg, gera því fyllri skil síðar, svo að alþjóð megi dæma um það út í æsar. En samkv. þeim gögnum, sem fram eru komin, ætla ég að ljóst sé, að hér hafa miklar hagsmunavonir farið forgörðum. Ákæri ég hér með fiskimálanefnd fyrir þessari háu samkomu og fyrir alþjóð. Og ég ákæri hæstv. ráðh. fyrir samsekt í því, að hafa haft af landi sinu og þjóð alveg vísvitandi stærstu hagsmuni, sem henni hafa staðið til boða á þessum óheillaárum, sem hann hefir setið í ráðherradómi. Tel ég að hann sé þar um svo alvarlegt brot sekur, að það eitt ætti að nægja til þess, að hann víki frá ráðherradómi og léti aldrei framar nafns síns getið í íslenzkum stjórnmálum.