13.03.1936
Neðri deild: 23. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Umr. um þetta frv. var frestað í gær, og hefir allshn. síðan athugað þær brtt., sem þá lágu fyrir. Meiri hluti n. er sammála um að leggja til að brtt. 138 verði samþ. Ég hygg, að öll n. sé sammála um 1. og 3. brtt., en aftur á móti er hv. minni hluti andvígur 2. brtt., enda hefir hann borið fram brtt. á þskj. 144 í hennar stað. Þá hefir meiri hluti n. orðið ásáttur um að leggja til, að breytt verði 16. og 28. gr. frv. á þann hátt, sem lagt er til á þskj. 143. Þær breyt. eru í því fólgnar, að nafnakall skuli fram fara við atkvgr., áður en þm., sem viðstaddur er og ekki greiðir atkv. án lögmætra ástæðna, telst taka þátt í atkvgr. Minni hluti n., hv. 8. landsk.hv. þm. Snæf. var ekki á fundi — vildi ekki vera með þessari brtt. Ekki fyrir þá sök, að minni hlutinn væri brtt. í sjálfu sér mótfallinn, heldur vegna þess að hann er andvígur bæði 16. og 28. gr. frv. og vill ekki hafa þær í frv., hvernig sem þær væru útbúnar. En meiri hluti n. telur réttara, að nafnakall fari fram við atkvgr., er ákvæði þessara greina nái til, og þeir, sem ekki greiða atkv., án þess að færa fram löglegar ástæður, eru taldir með meiri hlutanum.

Út af brtt. 8. landsk. á þskj. 144 finnst meiri hlutanum eðlilegt, að utanflokkaþm. sé tryggður nokkur réttur til þess að eiga þátt í útvarpsumræðum, en finnst hinsvegar rétt, að sú þátttaka fari ekki úr hófi fram. Meiri hluti n. er því mótfallinn þessari brtt. og leggur til, að samþ. verði 2. brtt. á þskj. 138, og ef miðað væri við ástand líðandi stundar, þá er það svo, að í einum þingflokkinum eru ekki nema tveir þm., en utanflokkaþm. eru jafnmargir. Sýnist því ekki ósanngjarnt, að þessir tvennir tvímenningar eigi jafnan rétt til þátttöku í úrvarpsumræðum frá Alþingi. N. sá sér ekki fært að fara út á þá braut að takmarka þátttöku þingflokka, þó fámennir væru, heldur að láta alla þingflokka hafa jafnan ræðutíma. Eins og ég hefi áður sagt, vill meiri hl. ekki fallast á þá till. minni hl., að láta það vera undir náð þingflokkanna komið á hverjum tíma, hvort og hvern þátt utanflokkaþingmenn eiga í slíkum umr. Finnst meiri hl. það óviðkunnanlegt, að þeir fái ekki eins og aðrir þm. að gera grein fyrir skoðunum sínum á þeim vettvangi.

Ég skal að lokum geta þess, að n. athugaði lauslega till. hv. þm. Borgf. á þskj. 139 og hefir ekkert við þær að athuga. Fyrri brtt. gengur út á það að færa ákvæði þingskapanna til nákvæmlega sama horfs og er í stjskr. N. var að vísu á einu máli um það, að ákvæði stjskr. hefði í sjálfu sér gilt, þó ekki væri nákvæmlega tekið fram um það í sjálfum þingsköpunum, sem þó væri eðlilegast, og því væri þessi brtt. til bóta. — Hin brtt. hv. þm. Borgf. miðar að því að gera 24. gr. frv. skýrari. Það mun stafa af misgáningi, að gr. varð svona eftir 2. umr., því forseti lýsti því yfir, að gr. skoðaðist samþ. með þessari leiðréttingu, sem hv. þm. Borgf. leggur til, að gerð sé á henni. En þess hafði þó ekki verið gætt við uppprentun frv., og því er mjög gott, að þessi brtt. skuli hafa komið fram, og sjálfsagt, að hún verði samþ.