13.03.1936
Neðri deild: 23. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Hannes Jónsson:

Ég tók eftir því, að hv. frsm. n. vék ekki neitt að því, sem ég hafði að athuga við 5. gr. frv., eins og það er, og þykir mér það einkennilegt, því ég hafði ekki gert ráð fyrir því, að n. ætlaðist til, að slíkt ósamræmi geti komið fyrir, sem sumir telja, að Bændafl. hafi viljað skapa á sínum tíma hér á Alþingi með því að stuðla að því, að stjórnarfl. kæmust í þá aðstöðu að hafa ekki meirihlutavald í báðum d. Nú hefi ég sýnt fram á það með glöggum rökum, að eins og þingið er skipað nú í dag, þá getur orðið þannig ástatt, að minni hl. fái synjunarvald í Ed. — Náttúrlega skal ég ekki út af fyrir sig leggja mikið kapp á þetta atriði, en ég hafði búizt við því, að þegar ég hefði gefið þessum mönnum bendingu til þess að ná því takmarki, sem þeir stefndu að, þá myndu þeir taka henni, eða að minnsta kosti gera tilraun til þess að benda á, að rök mín væru ekki eins sterk eins og ég hafði haldið fram. — Ég bíð nú átekta að heyra eitthvað frá hv. frsm. um þetta atriði, því ég trúi því varla, að hann mundi liggja svo fast á þeim rökum, sem hann hefir fram að færa gegn því, sem ég hreyfði hér, að hann muni láta það liggja í láginni, að bera það fram hér á Alþingi, nema það sé meiningin, að slá því föstu með lagasetningu, að það hafi verið rangt farið að með skipun Ed. í byrjun þessa kjörtímabils, því ef þetta á að ganga fram óbreytt, þá er það ekkert annað en lögfesting á því, að forseti Sþ. hafi brotið lög á þinginu og þm. En vitanlega hefi ég ekkert á móti slíkri yfirlýsingu frá Alþingi.

Ég skal því aðeins víkja að brtt. á þskj. 138 um rétt utanflokkaþm. til þátttöku í útvarpsumr. Ég get vel fallizt á, að þessum mönnum verði sköpuð aðstaða til að standa fyrir sínu máli við útvarpsumr., en út frá því er heldur ekki nema eðlilegt að taka það til athugunar, hvort hér kunni ekki að vera dálítið misjafnt á komið með þm. utan flokka. Þeir utanflokkaþm., sem hafa boðið sig fram til þings utan flokka og náð kosningu þannig, hafa dálítið svipaða aðstöðu eins og flokkur og eiga þess vegna meiri rétt til þátttöku í útvarpsumr., heldur en þeir, sem komizt hafa í þá aðstöðu að vera utan flokka á annan hátt. Ég sé, að hv. þm. sumir hverjir brosa, og ég býst við, að þeir geri ráð fyrir, að ég sé að beina þessu skeyti í einhverja sérstaka átt, en svo er þó ekki. Ég vil benda hv. þm. á, að það gæti orðið óskemmtilegur hráskinnaleikur hér á Alþingi út af þessu atriði. Við skulum hugsa okkur, að einhver þingflokkur þættist þurfa að fá meiri styrk heldur en hann á rétt á við útvarpsumr., og væri þá auðvelt að ná í hann aðeins með því að láta einhvern þm. segja sig úr flokknum á meðan á umr. stæði. Slík aðferð sem þessi væri kannske ekki sem bezt rómuð, en möguleiki er samt til þess að misnota þetta ákvæði. Það er líka ástæða til þess að athuga það í þessu sambandi, hvern rétt menn hafa skapað sér eftir því, hvort þeir hafa boðið sig fram í sérstökum flokki eða ekki. Ef t. d. maður býður sig fram í ákveðnum flokki og nær kosningu sem slíkur, þá hefir hann skapað þeim flokki viss réttindi og skyldur strax á fyrsta þingi. Þessi maður, sem þannig býður sig fram í flokksnafni, afsalar sér til flokksins þeim réttindum og þeim skyldum, sem á honum hvíla fyrir það að hafa verið í framboði fyrir hann og náð kosningu. Og það er ekki nema eðlilegt, að það verði öðruvísi ástatt um hann, þegar hann kannske flyzt úr sínum flokki, e. t. v. um stundarsakir, eða e. t. v. til langframa, heldur en um þann utanflokkamann, sem komið hefir fram við kosningarnar sem slíkur og náð þannig kosningu.

Það má kannske líka segja um þessa utanflokkaþm., að nokkur ástæða sé til þess — eins og reyndar er gert hér — að skerða nokkuð réttindi þeirra við útvarpsumr. á móts við það, sem þingflokkarnir hafa, þar sem þeir uppfylla náttúrlega ekki þau skilyrði, sem t. d. nýr flokkur þarf að uppfylla til þess að komast að sem fullgildur flokkur við kosningar. Ég get því ekki á annað fallizt en að nokkur ástæða sé til þess að takmarka þennan rétt hjá þm. utan flokka, þó hann hafi boðið sig fram sem slíkur og náð þannig kosningu, og að sjálfsögðu, ef þeir væru 2 eða fleiri, væri ekki hægt að hafa þetta á annan veg heldur en hér er gert ráð fyrir, að þeir samanlagt hafi ekki meiri rétt heldur en einn þingflokkur. En þá sýnist mér ekki nægileg gengið frá því, hvernig þessi réttur ætti að skiptast innbyrðis á milli þessara manna. Það er sagt, að enginn einn megi hafa meiri tíma en helming þess, er hver þingflokkur hefir til umráða, og ef fleiri eru, þá samanlagt ekki lengri tíma en hver einstakur þingflokkur. En það er ekki beint sagt um það, að þessir menn skuli hafa sama rétt innbyrðis hver gagnvart öðrum. Þetta gæti e. t. v. leitt til þess að forseti teldi sig hafa rétt til þess að úrskurða um það, hvernig þessi umræðuréttur skyldi skiptast á milli utanflokkaþm., og gæti út af því risið ágreiningur, sem ástæðulaust væri að stofna til, ef hægt væri að komast hjá því, og það sýnist mér auðvelt á þann hátt að taka það skýrt fram, að ef þm. utan flokka eru fleiri en einn, þá skuli tíminn skiptast jafnt á milli þeirra.

Ég vænti svo, að hv. frsm. vilji svara því, hvert álit n. hefir á þeim aths., sem ég hefi gert á 5. gr. frv., og einnig viðkomandi ákvæðunum um umræðurétt utanflokkaþm. við útvarpsumr. Ég hefi ekki komið fram með neina till. í þessu efni til breyt., en ég vildi þó skjóta þessu fram til athugunar við n., þó það sé kannske þýðingarlaust, ef hún vill ekki taka neitt til greina þær athugasemdir, sem fram eru færðar, þó að á fyllstu rökum séu byggðar.