31.03.1936
Efri deild: 38. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

7. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. til l. um breyt. á þingsköpum Alþingis hefir gengið í gegnum Nd., og virtist vera þar lítill ágreiningur um meginhluta þeirra breyt., sem í því felast. Þó að þetta frv. sé í mörgum gr., þá eru flestar þeirra aðeins leiðréttingar og samræming á þingsköpunum, sem leiðir af aðalbreytingunum. En í nokkrum gr. frv. felst samt allveruleg efnisbreyting frá núverandi þingsköpum. Allshn. þessarar d. hefir haft frv. til athugunar og tekið það til rækilegrar yfirvegunar. Hefir n. orðið sammála um að afgr. frv. til d. og gera á því nokkrar breyt. Aftur á móti hafa tveir hv. nm. flutt brtt. á sérstöku þskj., sem mun verða gerð grein fyrir.

Þær breyt., sem allshn. er sammála um að leggja til, að gerðar verði á frv., eru að vísu sex að tölu, en þær eru ekki miklar efnisbreyt., nema tvær þeirra. Hinar má frekar telja leiðréttingar eða til samræmingar vissra gr. í frv.

Skal ég þá fara örfáum orðum um þessar brtt., sem öll n. flytur.

Fyrsta brtt., sem er við 5. gr. frv., fer fram á tvenns konar efnisbreyt. Í fyrsta lagi er í brtt. gert ráð fyrir, að flokkar þingsins geti sameinazt um lista til kosningar til Ed. Í frv., eins og það er nú, er svo ákveðið, að hver þingflokkur skuli vera skyldur til að tilnefna þá tölu þm. til Ed., sem honum ber í hlutfalli við atkvæðamagn hans í Sþ. N. lítur svo á, að það a. m. k. geti orkað mjög tvímælis, hvort eftir þessari gr., eins og hún er í frv., sé heimilt fyrir tvo þingflokka að tilnefna sameiginlega á lista við þessar kosningar. Sumir af nm. líta svo á, að eftir frv. sé þetta heimilt. En allshn. þessarar d. var sammála um, að þetta gæti valdið ágreiningi, og sumir hv. nm. hafa skilið orðalag frv. svo, að þingflokkunum bæri skylda til hverjum út af fyrir sig að tilnefna þá tölu, sem þeim bæri að tilnefna eftir atkvæðamagni sínu í Sþ. og að þeir mættu ekki tilnefna nema sína eigin flokksmenn. N. kom saman um, að þetta væri sanngjörn lagfæring, að flokkum skyldi heimilað að sameina sig um lista til kosningar til Ed. — Ennfremur er í þessari brtt. gert ráð fyrir, að þeir menn, sem sæti eiga á Alþingi og eru utan flokka, geti einnig sameinað sig þingflokki eða flokkum um kosningu til Ed. Það virðist í alla staði rétt, að þessi möguleiki sé opinn. — Þá er annað atriði í þessum brtt., að þar er lagt til, að ef svo vill til, að tveir eða jafnvel fleiri flokkar eða kjöraðiljar hafa jafnan rétt til að tilnefna mann í eitt sæti í Ed., þá skuli hlutkesti ráða úrslitum í því efni, eftir að hvor (hver) þeirra hefir tilnefnt mann í vafasætið.

Þá er önnur brtt., við 8. gr. frv., að í stað orðanna „sætið hafði“ komi: „skipa á sætið eftir reglu 6. gr.“ Í þessari gr. frv. er sem sé gert ráð fyrir því, hvernig fara skuli að, ef sæti losnar í Ed. á kjörtímabilinu og nýr maður er kosinn í sætið. Frvgr. gerir ráð fyrir, að sá þingflokkur, sem sætið átti í Ed., skipi mann í það aftur. En með brtt. n. er lagt til að þegar svona kemur fyrir, þá sé sætið skipað eftir þeim reglum, sem um getur í brtt. okkar nr. 1, m. ö. o. eftir reglum 6. gr. þingskapa. En 5. gr. frv., sem brtt. nr. 1 á þskj. 255 er við, á að verða 6. gr. þingskapa.

Vel má vera, að mönnum í fljótu bragði þyki orka tvímælis, hvort þessi breyt. sé til bóta. En ég hygg, og n. var öll sammála um það, að Ed. yrði fremur skipuð sem næst pólitísku fylgi flokka í þinginu eftir ákvæðum brtt. okkar heldur en eftir ákvæðum frv. í þessu efni. Því að maður getur hugsað sér, að Ed. væri skipuð þannig, að stjórnarflokkur, eða yfirleitt stuðningsmenn stjórnarinnar á þingi, ætti rétt aðeins meiri hl. þm. í Ed., en sæti stjórnarmanns þar losnaði. Þótt svo færi við nýjar kosningar að kosinn væri stjórnarandstæðingur, ætti stjórnarflokkurinn að skipa sætið samkv. frv., en við það röskuðust hlutföllin á milli þingflokkanna í d. Þetta kemur náttúrlega ekki til, nema þegar svo stendur á, að ríkisstj. á þeim tíma hefir ekki nema aðeins meiri hl. á þingi. Ef hún hefir efalausan meiri hl., t. d. 27 atkv. í Sþ., þá kemur slík röskun í hlutföllum af þessum sökum ekki til greina. En ef hún hefir 25–26 atkv. í Sþ., og 26 atkv. þarf hún að hafa í Sþ. til þess að geta haft meiri hl. í báðum d., þá getur þessi röskun komið til greina. Ég hygg, að ekki sé þörf á að setja þetta dæmi upp skýrar, því að ég hygg, að hv. dm. geti áttað sig á því, að það verður alltaf réttlætanleg aðferð að skipa autt sæti í Ed. eftir sömu reglum og d. er skipuð í byrjun eftir almennar kosningar.

3. brtt. er nánast orðabreyt., en þó er þar efnisbreyt. að vissu leyti. Þar er lagt til, að í stað orðanna „og skal þá forseti skipta sem jafnast“ komi: „og skal þá forseti skipta umræðutímanum í heild sem jafnast.“ Það getur nefnilega staðið svo á, að ef ekki er strax í upphafi skipt tímanum sem jafnast á milli flokkanna, þá geti komið fram nokkurt misræmi. Þess vegna telur n. réttara að nota þetta orðalag, að forseti skuli skipta sem jafnast umræðutímanum í heild. Þetta gildir sem sé um það, þegar ræðutími er styttur.

Þá er 4. brtt., við 33. gr. frv., stafl. b, sem aðeins er leiðrétting, þannig að lagt er til, að í stað orðanna „ef fleiri eru en einn“ í síðasta málsl. komi: „ef fleiri eru en tveir“. Er þetta ákvæði um utanflokkamenn. En samkv. ákvæðum gr. getur ekki komið til greina að skipta ræðutímanum á milli þeirra, vegna þess að þeir hafa fullan ræðutíma, þó að þeir séu tveir. Það kemur aðeins til greina, þegar utanflokkamenn eru þrír; þá verður ræðutíminn svo stuttur, sem þeim er ætlaður, ef styttar eru umr., að skipta verður honum á milli þeirra, þannig að séu þeir 3 eða fleiri, fái þeir samt ekki allir samanlagt meiri tíma til umr. heldur en hver þingflokkur.

5. brtt. er aðeins til skýringar. Þar er tekið fram, svo að ekki geti orkað tvímælis, hvað er umferð í útvarpsumr. N. virtist nauðsynlegt að taka þetta fram, af því að búið er í gr. að ákveða, að utanflokkamenn skuli hafa rétt til að taka þátt í útvarpsumr.

Þá er 6. brtt. við 33. gr. d., 54. gr. þingskapa, sem er um það, að þegar útvarpað er umr. um önnur mál en þau, er í 51. og 53. gr. segir, fái hver þingflokkur til umráða þrjá stundarfjórðunga, er skiptist í tvær umferðir. Ákvæðin í 33. gr. frv. undir stafl. d. geta ekki staðizt, eftir að þingflokkar eru orðnir a. m. k. 4 og einhverjir þm. utan flokka, þ. e. ákvæðin um það, að ekki megi útvarpsumr. standa lengur en 3 stundir um þau mál, sem þar segir, og að flokkarnir fái þó ræðutíma, eins og þar segir. Þess vegna hallaðist n. að því ráði að ákveða bara tímalengdina, sem hver flokkur eða aðili fær, sem tekur þátt í útvarpsumr., en n. sá sér ekki fært að ákveða tímalengdina í heild, því að slíkt gæti valdið þeim árekstri, sem ég hefi getið.

Um staflið b. í þessari brtt. okkar er það að segja, að n. varð sammála um að lengja þetta lágmarkstakmark viðvíkjandi styttingu ræðutíma í útvarpsumr. úr 2 klst. í 3.

Sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa brtt., né heldur ræða um brtt. á þskj. 254, sem þeir hv. 1. þm. Skagf. og hv. 10. landsk. flytja, fyrr en þeir hafa gert grein fyrir þeim. Ég vil aðeins geta þess, að í Nd. komu fram brtt. mjög svipaðar að efni og þær, sem fluttar eru á þskj. 254. en náðu ekki samþ. þar.