31.03.1936
Efri deild: 38. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Pétur Magnússon:

Ég felli mig ekki allskostar vel við 1. brtt. á þskj. 255, þar sem segir: „Skal hverjum þingflokki skylt að tilnefna á lista þá tölu þm. sinna, er honum ber í hlutfalli við atkvæðamagn hans í sameinuðu þingi.“ Það er um kosningu til Ed. E. t. v. má hártoga þetta, en a. m. k. er ekki alveg augljóst, hvernig á að skilja orðin „honum ber“ o. s. frv. Líklega á þó að skilja það þannig, að flokkurinn hafi skyldu til þess, ef hann hefir atkvæðamagn til að koma þm. í Ed. En kannske má líka segja, ef þingflokkur hefir 2 þm., að honum beri að láta annan þeirra eiga sæti í Ed. (IngP: Nei, það ber ekki að skilja svo.) Þetta er náttúrlega algert aukaatriði, en ég vildi aðeins vekja athygli á þessu, að þetta má hártoga.

En mér þykir sérstaklega óviðfelldið að láta forseta tilnefna menn til Ed., ef þingflokkar skorast undan, því að það er ekki í samræmi við önnur völd, sem forseta er falið að hafa á hendi. Ef til þessa kemur, finnst mér einna eðlilegast að láta fara fram hlutbundna kosningu um mennina og láta þannig Alþingi ráða þeim. Þessa leið benti ég á, þegar deilt var hér á haustþinginu 1934, en stjórnarflokkarnir héldu þá, að ég væri að veiða þá í einhverja gildru og lögðust á móti þessari aðferð. Ég fyrir mitt leyti hefði kosið, að ákvæði yrðu sett í þingsköpin þess efnis, að meiri hl. Alþingis veldi þá menn í Ed., sem á vantaði.

Annars kvaddi ég mér hljóðs aðallega til að segja nokkur orð út af deilum þeim, sem hér hafa orðið um ákvæðið viðvíkjandi atkvæðagreiðslunni. Það má raunar segja, að óeðlilegt sé, eins og nú háttar högum á Alþingi, að deila mikið um, hvað felist í hugtakinu: að greiða atkv. Atkvgr. í þingsölunum er raunar ekki orðið annað en skrípaleikur, en málin eru í rauninni afgreidd utan þingsalanna. Þingmenn hafa afsalað sér réttinum til að greiða atkv. eftir sannfæringu sinni, þeir hafa lagt sannfæringuna í vald flokkanna. Atkvgr. í þingsölunum er því ekki annað en form, sem frv. verða að ganga í gegnum til þess að geta orðið að l. Þó verður auðvitað að hafa greinileg ákvæði um þetta form. Hafa í þessu efni komið fram tvö sjónarmið, frá hv. 1. þm. Skagf. annarsvegar og hv. frsm. n. og hæstv. forsrh. hinsvegar, og hafa hvorir tveggja nokkuð til síns máls. En ég held, að til sé auðveldari millivegur. Ég tel það rétt, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að óeðlilegt sé að láta mál ná samþykki d. með því, að örfáir greiði atkv. með því, en hinir sitji hjá. Það, sem verið er að sýna með atkvgr., formlega að minnsta kosti, er það, hvaða skoðun þm. hafa á málinu og hvort þeir vilja stuðla að því, að það nái fram að ganga eða ekki. Þeir mega ekki bara vera passivir í þessu efni, heldur ber þeim að vera aktivir, þeir verða að sýna vilja sinn til að stuðla að framgangi málsins. Því verður það að teljast óeðlilegt, að örlítill minni hl. geti með atkv. sínu orðið þess valdandi, að mál fái afgreiðslu sem l. frá Alþingi. Hinsvegar álít ég það jafnóeðlilegt, sem stundum hefir komið fyrir, að mál hefir fallið, þótt meiri hl. einstakra þm. hafi greitt því atkv., en hefði náð samþ., ef hinir hefðu sett sig í aktiva andstöðu í stað þess að sitja hjá. En fyrst svo og svo margir þm. í d. eru passívir, greiða ekki atkv., þá fellur málið. Þetta er vitanlega anomali, sem eðlilegt er, að menn vilji komast hjá. Og til þess er hægt að benda á mjög auðfæra leið. Fyrst verður auðvitað að setja reglur um það, hvenær Alþingi eða einstakar d. skuli teljast ályktunarfærar. Nú er svo ákveðið, að til þess að d. sé ályktunarfær, þá verði meiri hl. þm. að vera viðstaddur, en í Sþ. meiri hl. þm. úr hvorri d. um sig. Ef nú d. eða Alþingi er ályktunarfært, tel ég eðlilegast, að það mál nái fram að ganga, sem meiri hl. viðstaddra þm. greiðir atkv. Þá myndi t. d. mál ná framgangi í Ed., ef 9 væru á fundi og 5 greiddu því atkv., en 4 móti. Þetta er eðlilegast, ef d. er talin ályktunarfær, sé meiri hl. þm. á fundi, en um það held ég, að ekki hafi verið deilt. Ef hinsvegar er höfð sú aðferð, sem nú er í gildi, þó að eitthvað hafi kannske verið hvikað frá henni, sérstaklega í þessari d., þá félli mál, ef 12 væru á fundi, og 8 greiddu því atkv., en 4 sætu hjá. Þetta er óeðlilegt. Ég skýt því hér með til hv. n. að athuga þessa till. mína, og vildi ég þá láta fresta þessari umr., svo að hægt sé að íhuga málið nánar. Finnst mér allir ættu að geta unað við þessa lausn á málinu.