31.03.1936
Efri deild: 38. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

7. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég tel rétt að fara nokkrum orðum um hina hógværu aths. hv. 2. þm. Rang. út af brtt. n. undir 1. lið. Hann felldi sig ekki vel við orðalagið á brtt. og taldi það geta valdið misskilningi. Ég held, að þetta sé ekki rétt, því að atkvæðamagn þingflokka ákveðst í Sþ. í hlutfalli við þm.töluna. Þá hefir t. d. flokkur, sem á 2 menn í Sþ., ekki atkv.magn til að koma manni til Ed., en flokkur, sem á 3 menn í Sþ. hefir alltaf atkv.magn til þess. En eins og frvgr. er orðuð hér, er flokkur, sem hefir færri en 3 menn í Sþ., útilokaður frá að taka þátt í kosningu til Ed. Þessu vildi n. bæta úr með því að gefa slíkum flokkum kost á að ganga saman til kosninganna 2 eða 3. — Um hitt hefir ekki verið deilt, að flokkur, sem hefir 3 menn í Sþ., hefir möguleika til að koma manni í Ed. Ég held, að ekki sé auðvelt að finna leiðir, sem tryggi það betur en þessi, að Ed. verði skipuð sem næst þeirri pólitísku skipun, sem er í þinginu í heild

Þá er annað atriði. Hv. þm. taldi óviðfelldið að gefa forseta rétt til að tilnefna menn, ef þingflokkar brygðust þeirri skyldu sinni. En ég, og raunar öll n., að ég ætla, lít svo á, að í því sé ekkert óréttlæti, ef litið er á það, hvað á að nást með skipun Ed., sem sé það, að skipun hennar sé sem nákvæmust spegilmynd af pólitískri heildarskipun þingsins. En með því að láta meiri hl. ráða er það ekki tryggt, að Ed. verði rétt skipuð, því að meiri hl. hefir ekki alltaf hag af því. Í því tilfelli, sem hv. þm. nefndi, hygg ég, að Sjálfstfl. myndi hafa ráðið 16. manninum, ef hver flokkur hefði kosið út af fyrir sig. Auðvitað hefði getað hugsazt, að stjórnarflokkarnir hefðu sameinazt um þetta. En allir sjá, að við þetta getur hlutfallið raskazt í Ed. Yfirleitt getur þetta tekið ótal breytingum í teóríunni. Ef það er rétt, að með þingsköpum eigi að tryggja það, að Ed. sé á öllum tímum skipuð sem mest í samræmi við pólitísk hlutföll í Sþ., þá held ég, að engin aðferð sé réttari en sú, sem n. stingur upp á. Annars er gott, að hv. dm. velti þessu máli fyrir sér og bendi á hugsanlegar leiðir. Ég hefi hér sérstaklega í huga lausn þá, sem hv. þm. benti á. Ég fyrir mitt leyti er fús til að athuga möguleikana á því að taka upp hans fyrirkomulag. Þessi lausn hans kemur væntanlega ekki í bága við stjskr. Ég ætla ekkert að dæma um það, enda er ég ekki lögfræðingur. Ég segi bara fyrir minn part, að ég vil athuga þetta með velvilja. Svo sé ég ekki ástæðu til að lengja umr. um þetta mál. Ég vil heldur ekki blanda mér í deilu þeirra hv. 1. þm. Skagf. og hæstv. forsrh., né ræða þá staðhæfingu hv. 1. þm. Skagf., að ákvæði frv. komi í bága við stjórnarskrána, en vil þó benda á það, að sannað virðist vera, að í stjskr. og þingsköpum Danmerkur eru sömu ákvæði og þau, sem hér er gert ráð fyrir, að lögfest verði. Er af því auðsætt, að Danir líta ekki svo á, að þessi ákvæði í þingsköpum þeirra brjóti í bága við stjórnarskrána. Það er að vísu rétt hjá hv. 1. þm. Skagf., að við búum ekki undir dönskum 1., en hinsvegar ætti okkur ekki að þykja það nein hneisa, þótt eitthvað væri líkt í löggjöf okkar og Dana.

Annars vil ég benda á, að ákvæði þessu lík hafa verið í gildi hér frá 1871–1915, og man ég ekki til, að nokkurntíma hafi verið rætt um stjórnarskrárbrot í því sambandi. Þegar því litið er á það, að um þetta eru samskonar ákvæði í stjórnarskrá Dana og Íslendinga, og að í þingsköpum Dana eru sömu ákvæði og þau, sem hér er farið fram á að lögleiða, og þegar þess er ennfremur gætt, að þessi ákvæði hafa verið hér í gildi áður, þá er ekki líklegt, að hægt sé að sýna fram á, að þau komi í bága við stjórnarskrána.