01.04.1936
Efri deild: 39. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Pétur Magnússon:

Ég vil minna á það í sambandi við þá atkvgr., sem nú fór hér fram, að við minnihl.flokkar hér í hv. Ed. höfum án undantekninga samþ. afbrigði frá þingsköpum og sýnt það þannig í verkinu, að við höfum gert það, sem í okkar valdi stóð, til að greiða fyrir um afgreiðslu mála hér á þingi. En þegar hv. stjórnarflokkar sýna svo takmarkalausa ósanngirni að neita um, að mál sé tekið út af dagskrá, þegar farið er fram á, að n. fái tíma til að ræða um framkomna till., og það sýnt, að sá frestur, sem þar með væri veittur, tefði ekki framgang málsins — og ef fallizt væri á till. mína, þá ekkert annað en amböguháttur að vera búin að samþ. annað fyrst, — þegar slík fádæma óbilgirni er sýnd af hv. meirihl.flokkum, þá þurfa þeir ekki að vænta þess, að minnihl.flokkar verði sérstaklega liðlegir með að samþ. afbrigði til þess að greiða fyrir framgangi þeirra mála, sem hv. meirihl.flokkar bera hér fram. (JJ: Þetta mega víst heita hótanir). Hv. þm. S.-Þ. má kalla það hvað sem hann vill. Ég vil aðeins benda á danska málsháttinn: „Som man raaber í Skoven faar man Svar.“ (JJ: Ég býst við, að það séu engir hræddir við hótanir þessa hv. þm.). — Hv. þm. S.-Þ. hefir verið talið annað betur gefið en kjarkurinn.

Ég var búinn að kveðja mér hljóðs hér í gær út af brtt. allshn., og aðeins til að gera litla aths. út af ræðu hv. frsm., sérstaklega viðvíkjandi 1. brtt. á þskj. 255. Hann hafði það eftir mér, að ég hefði talið það óviðfelldna tilhögun, að ætlast til þess, að forseti nefndi menn til Ed., ef þingflokkar vanræktu að nefna þangað þá tölu, sem þeim bæri að kjósa. Ég benti á, að það er að öllu leyti eðlilegt og viðkunnanlegt fyrirkomulag, að meiri hl. þings réði því, hverjir eru valdir til Ed. Frsm. n. svaraði þessu með því að segja, að meirihl.kosning til Ed. gæti ruglað hlutföllin milli flokkanna. Þetta finnst mér, að sé á misskilningi byggt hjá honum. Mér finnst, að það sé öruggt, ef meiri hl. þings ræður því, hverjir eru valdir til Ed., að þá geti það aldrei ruglað þannig, að það hafi áhrif á úrlausn þingmála. Meiri hl. sér sér auðvitað hag í því að velja menn til Ed. eftir flokkaskiptingu, þannig að hann hafi meiri hl. í báðum d. Ég skal játa, að það er nokkurnveginn trygging fyrir því sama, þó að forseti sé látinn nefna menn til Ed., en þó vil ég minna hv. frsm. á það, að það er hugsanlegur möguleiki, að forseti sé af öðrum flokki en meiri hl. þings. Það hefir komið fyrir, að forseti hafi verið af öðrum flokki en meiri hl. Ég veit, að með þeirri hörðu flokkaskiptingu, sem nú er á þingi, eru litlar líkur til þess, að það komi fyrir. En það, sem einu sinni hefir komið fyrir, getur komið fyrir aftur. Það er hugsanlegur möguleiki, að einhver maður njóti þeirrar virðingar innan þings, að meiri hl. þings sýni honum það traust, að gera hann að forseta Sþ. Það er því að mínu áliti frekar möguleiki á því, að það geti orðið til þess að rugla flokkaskiptinguna, ef forseta er falið þetta vald, heldur en ef meiri hl. þings hefir það. Það er að mínu viti alveg rétt, ef flokkur notar ekki þann rétt, sem hann hefir til þess að setja mann á lista við hlutfallskosningu til Ed., að þá sé það Sþ., sem ræður því, hver valinn er.

Að öðru leyti hefi ég ekki neina ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta. Hv. frsm. tók vinsamlega undir þær uppástungur, sem ég gerði til þess að miðla málum í þessari d., en þær voru viðvíkjandi atkvgr. eða því, hvað menn vilji, að útheimtist til þess, að þm. greiði atkv. Ég vænti þess, að hv. n. fallist á þessar uppástungur mínar, því að þær eru eðlileg lausn á þessu máli.