01.04.1936
Efri deild: 39. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

7. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Allshn. hefir flutt lítils háttar brtt. við frv., og er hún á þskj. 272. Sú brtt. er þess efnis, að við útvarpsumræður skuli þm. jafnframt nefndir fullu nafni, þó að þar sé vikið frá reglunni um það, að þm. séu ekki nefndir með nöfnum, heldur kenndir við kjördæmi sitt. Brtt. fer í þá átt, að þeir skuli jafnframt því, sem þeir eru kenndir við kjördæmi sitt, nefndir fullu nafni við útvarpsumræður. Þessi regla hefir þegar verið tekin upp við útvarpsumræður, og er hún eðlileg, þar sem um nýja áheyrendur er að ræða, sem ekki eru alltaf glöggir á að vita, hverjir eru þm. hinna einstöku kjördæma, og því síður glöggir á númer þeirra, sem eru uppbótarþm. Ég geri ráð fyrir, að allir hv. þm. fallist á, að þessi brtt. er ekki annað en eðlileg leiðrétting.

Þá hefir hv. þm. Dal. borið fram brtt. á þskj. 274. Eins og að líkindum lætur, þá hefir þessi brtt. ekki verið tekin til meðferðar í n., en ég get sagt fyrir mitt leyti, að ég tel, að hún sé sízt til bóta. Það kann að vera, að aðrir hv. dm hafi aðra skoðun, en ég álít, að það sé engin ástæða til þess að vera að torvelda það í þingsköpunum, að Alþingistíðindin verði prentuð, því mönnum er það í minni frá umræðunum á síðasta þingi, að það voru deildar skoðanir um það, hvort það ætti í þetta eina skipti að fresta prentuninni. Ég álít, að það sé rétt, ef meiri hl. er fyrir því í þinginu á einhverjum tíma að sá meiri hl. taki ákvörðun um það, en að það sé ekki ástæða til þess að binda það í þingsköpunum, að það sé ekki heimilt að prenta umræðupart þingtíðindanna, nema gefin sé sérstök heimild til þess í fjárl. Ég er þess vegna strax á móti þessari brtt., en ég get að öðru leyti ekki svarað fyrir hönd n.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að þeim aths., sem hv. 1. þm. Rang. kom hér með í framhaldi af ræðu sinni í gær út af 1. brtt. n. Ég get ekki fundið það, að hans skilningur sé réttur á því, að frekar sé hætta á, að hlutföllin raskist við það, að forseti úrskurði menn á lista þess flokks, sem vanrækir að tilnefna menn á lista. Ég lít svo á að það verði ekki skilið öðruvísi en að forseti sé bundinn við að tilnefna menn úr þeim flokki, sem átti að skipa á listann. En það er gefinn hlutur, ef meiri hl. Sþ. á að ákveða þetta, að þá getur farið svo, að atkv. falli þannig, að það verði alls ekki maður úr þeim flokki, sem hefir rétt og skyldu til þess að útnefna á listann, og þá raskast hlutföllin. Við höfum nærtækt dæmi frá því, er síðast var kosið til Ed., því þá var það svo, að flokkur, sem hafði rétt til þess að setja mann á lista til Ed., gerði það ekki. Ef þá hefði átt að fara fram meirihl.kosning um þennan eina mann, virðist mér, að það hefði getað orðið til þess að raska hlutföllunum. Ég get ekki fundið annað en að svo hljóti að fara, ef kosinn er maður úr meirihl. flokknum, að hlutföllin raskist. (PM: Hvað kallar hv. þm. meirihl.-kosningu?) Þar sem meiri hl. atkv. ræður. Ef meiri hl. tekur ekki mann úr þeim flokki, sem bar að skipa á listann, þá raskast hlutföllin. Ég lít svo á, að eftir anda frv. sé forseta ekki annað heimilt en að tilnefna mann úr þeim flokki, sem vanrækir að skipa á lista til Ed. Það er forseti, sem fær þetta vald, að skipa á lista, ef flokkur vanrækir það, og hann á að vera bundinn við það, að skipa mann á listann úr þeim flokki, sem hafði rétt til þess, en notaði sér ekki réttinn. Ef það er ekki gert, þá hljóta hlutföllin að raskast. Ef flokkur, sem getur komið t. d. 3 mönnum upp í Ed., tilnefnir ekki nema 2, og þriðji maðurinn er þá kosinn með meirihl. kosningu, þá geta hlutföllin raskazt. En einmitt af því, að ég lít svo á, að forseti sé bundinn við það að taka einhvern mann úr þeim flokki, sem hafði rétt til þess að setja mann á lista, en ekki uppfyllti þann rétt, þá er það tryggt, að hlutföllin raskast ekki. Ég held, að það hafi ekki verið ágreiningur um þetta í n., nema að einn nm. hafði þar nokkra sérstöðu. Hann lét í ljós þá skoðun, að maður væri kosinn í óskipað sæti, en ekki skipaður. En þó að hann líti svo á, þá sjá allir, að með því móti er ekki trygging fyrir því, að hlutföllin raskist ekki. (PM: En það er hættulaust). Nei, það er ekki, af því að ég lít þannig á, að einn flokkur geti tekið á lista mann úr öðrum flokki. Þá getur orðið tvískinnungur úr þessu, en allt kemur í sama stað niður, ef tekinn er maður úr þeim flokki, sem ber skylda til þess að skipa á listann. En þegar forseta eru gefnar reglur um þetta, þá er það aðeins mannavalið, sem getur tekið breyt., en annað ekki. Það kemur skýrt fram, að þessum lista ber sætið, og úr þeim flokki verður forseti að taka mann í sætið. Hinsvegar sjá allir, að það getur raskað hlutföllunum, ef kosið er til Ed. úr allt öðrum flokki. Ég held því, að með brtt. n. sé hægt að komast sem næst því, að Ed. sé skipuð í réttu hlutfalli við skipun Sþ., því ég held, að forseta beri tvímælalaust að tilnefna mann úr þeim flokki, sem á rétt til sætisins, og þá geta hlutföllin ekki raskazt. En ef kosið er, þá minnkar tryggingin fyrir því. Ég held því, að þessi aðferð sé betri en sú, að meirihlutakosning skuli skera úr um það, hver hlýtur sætið.