01.04.1936
Efri deild: 39. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Þorsteinn Briem:

Það var ég, sem hreyfði því í n., að það mundi eiga allt eins vel við, að í 1. brtt. á þskj. 255 væri kveðið svo á, ef svo stæði á, sem segir í 3. málsgr., að þá kæmi þar til greina meirihl. kosning, en ekki tilnefning af hálfu forseta. Hv. frsm. n. hefir skýrt frá því, að það sjónarmið hafi ekki orðið ofan á í n., en ég hefi samt sem áður ekki getað sannfærzt, og eigi að heldur þrátt fyrir þau rök, sem hv. frsm. n. færði nú fram. Hann heldur því fram, að mér skilst, að meirihl. kosning eða það, sem hann nefnir meirihl. kosningu, eigi ekki við vegna þess, að því er mér heyrðist, að hann gekk út frá því, að meiri hl. þings í þessu tilfelli yrði að kjósa mann úr sínum eigin flokki eða úr meiri hl. En ég tel það ekki gefið, að svo þurfi að vera, heldur geti meiri hl. Sþ. kosið hvern þann mann, sem meiri hl. þóknast, til þess að fara í Ed. Hann heldur því fram, að í þessu tilfelli hefði forseti einn rétt til þess að tilnefna þm. úr þeim flokki, sem skýtur sér undan þeirri skyldu, að tilnefna menn til Ed. Mér er það ekki ljóst, á hvern veg það verður varið, að forseti hafi í þessu tilfelli meiri rétt en Sþ. sjálft, því að forseti hefir fengið rétt sinn frá Sþ., og mér skilst, að sá, sem veitir réttinn, hafi meiri rétt en sá, sem þiggur hann. Það mun hafa verið skýrt tekið fram af hv. 2. þm. Rang., þegar hann talaði um þetta, að hann ætlist til, þegar svo stendur á sem í 3. málsgr. 1. brtt. segir, að þá séu hlutaðeigandi menn kosnir óhlutbundinni kosningu af Sþ., og kemur þá ekki til greina, frekar en Alþingi sjálfu sýnist, að taka menn eftir flokkum. Mér skilst, að þetta hafi aðallega þýðingu, þegar meiri hl. er ekki nema 25 þm., því að þá er það náttúrlega í þessu tilfelli á valdi meiri hl. Sþ., í hvorri d. hin stjórnmálalega þungamiðja verður, og mér finnst það ekkert aðalatriði, hvort hún verður í Ed. eða Nd. Í því tilfelli, að þm. séu ekki nema 25 í meiri hl., þá verður það á valdi þess meiri hl., í hvorri d. sú stjórnmálalega þungamiðja þingsins verður.

Annars vil ég ætla, að það mæli og með till. hv. þm. Rang., að með þeirri aðferð, sem hann stingur upp á, er komizt fram hjá því neyðarúrræði, sem hér verður ekki framhjá komizt í þessari brtt., en það er að láta hlutkesti ráða úrslitum í vissum tilfellum. Ég skal játa, að með þeim brtt., sem allshn. flytur, er nokkuð stefnt fram hjá hlutkestinu, a. m. k. í fleiri tilfellum en er í frv. sjálfu, og er það allmikill kostur, og einmitt fyrir það gerði ég ekki ágreining um þessa brtt. En eftir till. hv. 2. þm. Rang. þá skilst mér, að til hlutkestis þurfi ekki að koma, og tel ég það mikinn kost. (SÁÓ: Hvar er sú till.?). Ég komst kannske ekki rétt að orði með því að kalla það till. En það er að minnsta kosti komin fram uppástunga um það, og till. getur það kallazt, þó að það sé borið fram munnlega og liggi ekki formlega fyrir. Tillögumaðurinn mun hafa treyst þeirri sanngirni meiri hl., að málið yrði tekið af dagskrá núna, og hann mun hafa haft ástæðu til þess að treysta þeirri sanngirni, þar sem minni hl. í þessari d. hefir, að ég ætla oftast, ef ekki alltaf, sýnt meiri hl. fulla sanngirni í því að veita afbrigði, þegar á hefir þurft að halda. (PM: Hann hefir alltaf gert það). — Það er víst óhætt að segja alltaf, a. m. k. man ég ekki annað.

Þá skal ég með örfáum orðum víkja að þeim brtt., sem ég er meðflm. að ásamt hv. 1. þm. Skagf. Það hefir verið deilt um það, hvort þm., sem greiða ekki atkv., geti talizt taka þátt í atkvgr., ef miðað er við orðalag stjskr., eins og það er í 48. gr. En í þeirri gr. stendur, að hvorug þd. megi gera samþykkt, nema meira en helmingur þm. sé á fundi og greiði atkv. Nú er í þessu frv. lagt til, að þetta verði túlkað svo, að sá, sem ekki greiðir atkv., skuli talinn greiða atkv. Ég vil þá segja, að það mætti alveg eins hafa þau ákvæði í þingsköpunum, að sá, sem ekki væri viðstaddur í d., án lögmætra ástæðna skyldi teljast vera viðstaddur. Mér virðist það vera jafnmikil fjarstæða, hvort heldur er. Samkv. núgildandi þingsköpum nær mál samþykki í d., ef 5 eru með, en 4 á móti. En eftir frv., eins og það liggur fyrir, þá virðist ekki annað að sjá en að frv. nái samþykki, ef einn greiðir atkv. með og enginn á móti. Og virðist þá komið svo nálægt fjarstæðu, að ekki sé á það bætandi. Hv. frsm. n og hæstv. forsrh. vitnuðu háðir í það, að í dönsku þingsköpunum og dönsku stjskr. væru svipuð ákvæði eins og eru í okkar stjskr. og okkar þingsköpum. En ég ætla, að þetta sé ekki nákvæmlega rétt, og að þar sé ekki eins fast ákvæði um þetta og í okkar stjskr. Ég hygg, að þar sé komizt svo að orði, að sá, sem ekki greiðir atkv., teljist hafa tekið þátt í atkvgr., en ekki eins og hér á að slá föstu, að sá, sem ekki greiðir atkv., hafi greitt atkv. Mun það gert til þess að látast fullnægja 48. gr. stjskr.

Hæstv. forsrh. fordæmdi þm. mjög sterklega fyrir að greiða ekki atkv. Það má vel vera, að rétt sé að dæma það hart, en þeir ættu bara ekki að dæma, sem í glerhúsum búa. Er þess skammt að minnast, að stjórnarsinnar skeyttu lítið þeirri þm. skyldu að greiða atkv. Ég tel lítilsvert að setja reglur sem þessar um skyldir þm., ef þeim verður opin leið að ganga af fundi, sem verður eftir sem áður, þó þetta frv. verði samþ. Er þá aðeins farið úr öskunni í eldinn, ef minni hl. þarf ekki annað en ganga af fundi, vilji hann ekki greiða atkv., og kemur sínu þó jafnt fram. Hv. þm. Rang. talaði í gær um, að sanngjarnt gæti verið að hafa í þingsköpum ákvæði um, að mál væri samþ., ef meira en heimingur þdm. væri á fundi, og meira en helmingur viðstaddra þm. greiddi því samþykkisatkv. Get ég fallizt á, að þetta sé sanngjörn leið, a. m. k. hefir hún stórmikla yfirburði yfir það, sem í frv. er lagt til. En ég er ekki við því búinn að segja, hvort það er heimilt eftir 48. gr. stjskr., og væri því æskilegt, að þd. meirihl. gæfi frest, áður en atkv. fara fram í d. Finnst mér kenna of mjög kapps um afgreiðslu þessa máls, en vænti þess, að kappið verði ekki til enda meiri en sanngirnin.