01.04.1936
Efri deild: 39. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

7. mál, þingsköp Alþingis

Magnús Guðmundsson:

Ég skal ekki vera langorður, því það hefir ekkert nýtt komið fram síðan ég talaði í gær, enda hefir hv. meðflm. minn fært ýtarleg rök fyrir okkar till. En það, sem gaf mér tilefni til að standa upp, voru þau orð hæstv. forsrh., að ákvæði 16. og 28. gr. frv. væru shlj. dönsku stjskr. En þar stendur í 60. gr.: „Intet af Tingene kan tage nogen Beslutning naar ekki over Halvdelen af dets Medlemmer er til stede og deltager í Afstemningen“. Þetta þýðir á íslenzku: „Hvorug þingdeildin getur gert nokkra ályktun nema meira en helmingur meðlima hennar sé á fundi og taka þátt í atkvæðagreiðslu: — Við nafnakall þar er svarað já eða nei, eins og hér á landi, en af þingm. vill hvorki vera með eða móti: „Jeg stemmer ikke“ „Ég greiði ekki atkv.

Í 48. gr. okkar stjskr. stendur: „Hvorug þingdeildin getur gert ályktun um mál nema meira en helmingur þingdeildarmanna sé á fundi og greiði þar atkvæði.“

Þetta sýnir, að orðalagið er ekki hið sama, hvað sem hæstv. forsrh. segir, Ísl. stjórnarskráin heimtar, að þingmenn greiði atkvæði, en sú danska lætur nægja, að þingmenn „taki þátt í atkvæðagreiðslu“, og það geta þeir gert með því að svara: „Ég greiði ekki atkvæði.“ Allir hljóta að sjá og skilja, að það er ómögulegt að segja, að sá maður greiði atkvæði, sem svarar: „Ég greiði ekki atkvæði.“ Þetta sýnir, að ef frv. verður samþ. eins og það er, er 48. gr. stjskr. þverbrotin.

Það er alveg rétt, sem hv. 10. landsk. sagði að það er ekkert verra að telja, að sá þm., sem ekki er á fundi, hafi verið á fundi, en að segja, að sá, sem ekki greiddi atkvæði, hafi gert það. Hvorttveggja er ósatt. Þau þingsköp, sem þannig eru úr garði gerð, að ef einn þm. í d. greiðir atkv., en hinir ekki, og málið skoðast á þann hátt samþ., þau þingsköp eru vægast sagt hlægileg.

Eftir því, sem ég skil dönsk þingsköp, er þess krafizt, að til þess að fullnaðarsamþykkt verði lögð á mál, þá þurfi meiri hl. að vera á fundi í hvert sinn og segja annað hvort já, nei eða: Greiði ekki atkvæði. Þeir, sem svara, að þeir greiði ekki atkvæði, skoðast hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslunni. Það má segja alveg það sama um kosningu til þings, að sá, sem skilar auðum seðli, hefir tekið þátt í atkvgr., þó að hann greiði ekki atkv. (IngP: Hann hefir gert það á skakkan hátt). Það hefir enginn þm. rétt til þess að segja um annan, að hann hafi greitt atkv. á skakkan hátt.

Ég skal svo fyrir mitt leyti segja, að ég er samþ. brtt. hv. þm. Dal., enda skilst mér, að það hafi sýnt sig í vetur, að meiri hl. í þessari d. væri með því, að ekki væri skylda að prenta þingtíðindin, og verður brtt. því sjálfsagt samþ. Ég verð að segja, að mér finnst það harla undarlegt, að hv. stjórnarflokkar skuli ekki vilja sveigja neitt til í þessu máli til þess að jafna ágreininginn. Ég vil fullyrða, að margir finna í hjarta sínu, að með þessu er stjskr. brotin, eða a. m. k. gengið mjög nærri henni. Og þar sem stjórnarandstæðingar hafa gengið til samkomulags um flest annað í þessu máli en þetta atriði, virðist sanngjarnt, að sveigt sé til hér. Það verður einnig að teljast mjög óviðkunnanlegt að setja reglur um störf Alþingis, sem jafnmikill hluti þingsins er andvígur eins og er þessum ákvæðum.

Eins og ég sýndi fram á í gær, hefir þetta bragð — að sitja hjá — ekki verið notað nema einu sinni eða tvisvar til þess að fella frv. Og það getur einungis komið fyrir á þann hátt, að forseti sé ekki nægilega vakandi og athugull um, að atkvgr. fari ekki fram á þeirri stundu, þegar fylgismenn málsins eiga ekki nægilegt atkvæðamagn á fundi. En sé svo, að meirihlutafylgi sé ekki til á Alþingi, þá á málið ekki að ganga fram. Annars er vitanlegt, að forseti getur frestað atkvgr., þegar honum sýnist, þar til stuðningsmenn málsins allir, sem til eru, eru viðstaddir. En það er ískyggilegt, eigi að nota þetta ákvæði til þess að koma fram málum, sem ekki eiga meiri hl. í d. eða Sþ.