01.04.1936
Efri deild: 39. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Magnús Jónsson:

Ég hefi því miður látið undir höfuð leggjast, að sækja um leyfi til hæstv. forsrh. til þess að fá að taka til máls, þó ég geti ekki ábyrgzt, nema að ég segi eitthvað það, sem sagt hefir verið áður, vegna þess að það vill oft fara svo í rökræðum, að andstæðingarnir höggva nærri hver öðrum.

Hæstv. forsrh. segir, að með því að fara fram á að fresta málinu sé aðeins verið að gera tilraun til þess að tefja það. Ég vil minna á, að frsm. minni hl. allshn., hv. 1. þm. Skagf., hefir gefið loforð um að greiða fyrir málinu með afbrigðum, ef það fengist tekið af dagskrá nú. Það er þess vegna dálítið skrítið, að því skuli vera slegið fram, að verið sé að tefja málið, þegar búið er að bjóða afbrigði. Hér er vitaskuld ekki um annað að ræða en hreint og beint ofríki meiri hl. við atkvgr. Hitt er annað mál, hvort svona ofríki borgar sig, þar sem svo er nú fyrir séð í þingsköpum, að meiri hl. þingsins, og þá væntanlega ríkisstj., getur alltaf komið sínum málum fram. Er oft svo, að heppilegra er að eiga samvinnu við minni hl. um, að flýta fyrir málum. En mér skilst, að með því að sýna svona ofríki sé d. að afsala sér þeim möguleika, og þykir mér vafasamt, að það borgi sig fyrir svona smávægilegt atriði. Það má segja, að þetta sé hótun, en bergmálið kemur af því, að kallað er.

Viðvíkjandi breyt. um skipun til Ed. verð ég að segja, að mér finnst hún mjög einkennileg. Mun það vera vegna eins atviks, sem kom fyrir í byrjun fyrra þings, að mönnum finnst þörf á að setja ákvæði um þetta atriði, en ég sé enga ástæðu til að óttast, þó flokkarnir séu frjálsir um skipun í d.

Það getur að vísu stundum komið sér illa fyrir meiri hl., að minni hl. hafi þennan rétt. En ég er ekki svo hrifinn af þessum meirihlutarétti á þingi, að ég vilji stuðla að því, að hann geti öllu ráðið. Mér finnst heldur mega stemma eitthvað stigu við honum með ákvæðum í þingsköpum. En það er auðséð, að öll ákvæði í þessu frv. eru sett í þágu meirihl.einræðisins. Þetta kemur auðvitað skýrar fram, þar sem þing eru skipuð tveim deildum, sem kosið er til beint. Annars er ekki enn búið að útkljá þetta mál allsstaðar í heiminum, og það eru til menn — og þeim fer fjölgandi — sem álíta, að ekki sé rétt að trúa alltaf á flokka og flokkaeinræði. Í Danmörku hefir mjög verið um það rætt, að afnema þurfi þá ógurlegu stofnun, Landsþingið, svo að opinn skeiðvöllur sé fyrir flokka þá, sem meiri hl. hafa á þingi, að koma öllu sínu fram. Slíkt er náttúrlega gott og blessað, ef tilgangurinn er sá að greiða götu þess, að flokkseinræði komist á eftir hverjar kosningar. En ég er ekki sannfærður um, að það sé hyggilegt. Þó að til séu nokkru fleiri menn, sem hafa eina skoðun en aðra, eða þó að önnur skoðunin fái fleiri atkv., þá hafa hinir líka hagsmuna að gæta, og er þá ekkert á móti hví, að einhverjar stíflur séu settar við því, að meiri hl. ráði öllu einn. Ég álít það ekki nema heilbrigt, að meiri hl. verði ofurlítið að leita samkomulags við hina flokkana og að stilla í hóf æstum flokkskröfum. Hver flokkur og þm. yfirleitt eiga að vera frjálsir um það, hvernig þeir haga sínum þingstörfum, og er því ekki ástæða til að vera að setja bein ákvæði um það, hvernig deildum skuli skipað.

Eftir því, sem hér er farið fram á, á t. d. eins manns meiri hl. að hafa allt valdið, en eins manns minni hl. ekkert. Nú drýgir einhver minnihl.flokkur þann glæp að vilja ráða því, hvar þm. hans sitja. Ef hann framfylgir þessu, má refsa honum með aðför að l., eins og þá er menn greiða ekki skuldir sínar. Ef flokkur vill hafa sína skoðun um það, hvernig honum beri að kjósa til Ed. og tilnefnir ekki mann þangað, er þessu skipað á allraeinræðisfyllsta hátt sem hugsanlegur er, þannig að einn maður er látinn skipa mennina í deildina.

Á uppástungu hv. 2. þm. Rang. og þessu er að vísu ekki mikill munur, en þó er það hóti skárra, því að samkvæmt því eiga allir þm. að vera kosnir, en ekki bara sumir kosnir og aðrir forsetakjörnir. Ég vil, ef fara á að flytja menn upp í Ed. að viðlagðri aðför að l., að þeir séu þá heldur kosnir þangað en skipaðir af forseta. Mér skildist á hv. frsm., að hann teldi það geta raskað réttu hlutfalli milli flokkanna, ef kosning ætti að fara fram. Þetta get ég ekki séð. Eins og forseti væri bundinn við að skipa menn úr ákveðnum flokki, eins væri vitanlega um kosninguna. Þetta yrði bundin kosning. Munurinn á þessu tvennu er sá, að annarsvegar er um að ræða venjulega kosningu, en hinsvegar um embættisveitingu af hálfu eins manns, sem annars þekkist ekki innan þingsins. Það er að öllu leyti ólíkt andanum í okkar þingsfyrirkomulagi að fela einum manni að kjósa menn í deildir og minnir meira á það, sem okkar vitru forfeður gerðu, þegar þeir fólu einum manni að gera um málin. En þegar maður er nú staddur hér á höfuðvettvangi lýðræðisins, verður það að teljast skrítið að fara að þjóta svona út undan sér og taka upp þetta einræðisbrölt.

Þá er í 8. gr. annað ákvæði, sem fer í svipaða átt. Þar er ákveðið, að ef sæti efri deildar þm. losnar þá skuli sá þingflokkur, er sætið hafði, skipa mann úr sínum flokki til Ed. í hans stað. Þetta gæti valdið miklu óréttlæti. Það gæti t. d. staðið svo á, að þingflokkur ætti ekki nema einn þm. eftir, og yrði hann þá að útnefna sjálfan sig til Ed.

Fer ég svo ekki frekar út í þau atriði, sem hér hafa verið mest rædd. Þó vil ég svara hæstv. forsrh. nokkrum orðum. Hann sagði, að það hefði verið blásið mjög upp í ýmsum blöðum, að með till. þeim um takmörkun á ræðutíma á þingi, sem í frv. felast, væri verið að stefna að hroðalegasta flokkseinræði. Þetta er alveg rétt. Með þessu á að gefa stjórnarflokkunum tækifæri til að stinga alveg upp í andstæðingana, taka af þeim réttinn til að segja sína skoðun á þingi með svo mörgum orðum sem þeir vilja, svo lengi sem þeir vilja og eins margir og vilja. Þessar litlu leifar af réttindum, sem minni hl. á enn eftir, á nú að taka af honum. Meiri hl. getur samkvæmt upphafl. frv., hvenær sem hann vill, ákveðið, að umr. skuli ekki standa lengur en 2 stundir um hvert mál. Og svo kemur þetta merkilega ákvæði, að ræðutími ráðh. teljist ekki hér með, og að umr. framlengist sem samsvarar ræðutíma þeirra. Þessu veika tísti, sem hægt er að koma fram frá minni hl., á að vera hægt að drekkja í óþrjótandi ræðuflaumi ráðh. við þetta getur umr. lengzt upp í 4, 5 eða 7 tíma. Er ekki hægt að ganga lengra í því að skerða réttindi þingminnihl., nema ákveðið sé, að forseti geti beinlínis bannað stjórnarandstæðingum að tala, og er þó raunar ekki mikill munur á þessu tvennu. Nú er reyndar búið að lengja þennan tíma um 1 klst., upp í 3 klst., og ræðutími ráðh. reiknast í þessu. Er það mikill munur. En að hæstv. forsrh. skyldi hneykslast á því, að nokkur maður skyldi minnast á gerræði í sambandi við upphaflega frv., sýnir, hve gegnsýrður hann er sjálfur af þessu einræðisbrölti.

Þá sagði hæstv. forsrh., að það væri sama að taka þátt í atkvgr. og að greiða atkv. Þetta er vitanlega ekki rétt. Annað hugtakið er víðara en hitt. T. d. er ekki hægt að segja annað um þm. sem við nafnakall segir: „Ég greiði ekki atkv.“ en að hann taki þátt í atkvgr., en hitt verður ekki sagt, að hann greiði atkv. Þykir mér leitt til þess að vita, að í ráðherrastóli skuli sitja maður, sem heldur því fram, að að greiða ekki atkv. sé sama og að greiða atkv. Hvernig ætti ég að svara manni, sem spyrði mig, hvernig ég hefði greitt atkv. í einhverju máli, þar sem ég hefði setið hjá? Ef ég segði, að ég hefði ekki greitt atkv., þá ætti það að gera sama sem að ég hefði greitt atkv., og ég væri þá að skrökva að manninum með því að svara honum svona.

Hæstv. forsrh. talaði um, að þessi nýju þingskapaákvæði væru til þess að koma í veg fyrir, að menn gætu með brellum fellt frv. Þessar brellur væru þá ekki í öðru fólgnar en því að sitja hjá við atkvgr. og láta ekki nást full úrslit um málið, enda þótt ákveðinn meiri hl. gæti skorið úr um það. Hæstv. forsrh. sagði, að það væri hart að menn skyldu geta fellt mál með því einu að bregðast þingskyldu sinni. En það er ekki hægt að fella mái á þennan hátt, nema meiri hl. vanræki að sækja þingfund. Hér í Ed. eru þeir 9, og þeir geta alltaf komið sínum málum í gegn, ef þeir eru allir viðstaddir. Það er því fjarstæða að vera að tala um, að minni hl. bregðist skyldum sínum, þegar meiri hl. bregzt fyrst og fremst sinum skyldum. Þá er líka þess að gæta, að ef maður hefir fengið leyfi til að vera fjarstaddur af fundi, þá getur forseti alltaf frestað atkvgr., þar til allir eru viðstaddir.

Það er talað um það, að óviðkunnanlegt sé, að minni hl. skuli geta fellt mál með því að sitja hjá. En er þá ekki alveg eins óeðlilegt, að hann skuli geta bjargað málinu með því að greiða atkv. gegn því?

Í till. þeirri, sem hv. 2. þm. Rang. hefir lagt fram, er heilbrigðari aðferð höfð en í frv. Fyrst er því slegið föstu, hvenær fundur geti talizt lögmætur, og síðan er ákveðið, að einfaldur meiri hl. ráði úrslitum.

Þar sem svo er að orði kveðið í stjskr., að þm. skuli greiða atkv. til afgreiðslu mála, þá er ekki hægt að slá því föstu í þingsköpum, að sá þm., sem ekki greiðir atkv., teljist greiða atkvæði.

Ég sé, að eftir kröfum tímans hefir verið felldur inn í þetta frv. kafli um tilhögun útvarpsumræðna frá Alþingi, sem í raun og veru er rétt að hafa. Hinsvegar hefi ég ekki gefið mér tíma til að rannsaka þann kafla fremur en annað í frv. — En það hefir tíðkazt, að sumir þm. geta flutt 3–4 ræður við sömu umræðu máls í útvarpi, ef þeir eru í fámennum flokki, eða önnur aðstaða gerir það að verkum, að sama þm. er máske teflt fram hvað eftir annað af sínum flokki. Í útvarpsumræðum er einnig vikið frá þeirri reglu, að kenna þm. við sitt kjördæmi, og þeir þá nefndir með nöfnum; ætti því að setja inn í frv. undantekningarvákvæði um það. Samkvæmt hinum almennu ákvæðum þingskapa mega þm. ekki taka nema tvisvar til máls við hverja umr. En sjálfsagt er að rýmka um þetta ákvæði þingskapanna, þegar útvarpsumr. fara fram, eins og venjan bendir til, að hentara sé. Ég hefi ekki tekið eftir, að það sé gert í c-lið 53. gr., sem ræðir um framhald 1. umr. fjárl. — Þar sést hvergi neitt um það, hversu oft sami þm. megi tala, en eftir hinum almennu ákvæðum má hann ekki tala nema tvisvar við hverja umr. En það er mjög óeðlilegt, að beita þeim í þessum umr.; þær takmarkanir, sem settar eru um ræðutíma flokkanna við útvarpsumræður, eru alveg nægilegar. Það er eðlilegt, að hver flokkur fái að ráða því, hve oft hver flokksmaður tekur þar til máls. Það er hægt að heimila með einföldu undantekningarákvæði, að við útvarpsumræður skuli vikið frá hinum almennu ákvæðum þingskapa um ræðufjölda einstakra þingmanna.

Ég vil svo að lokum minnast með örfáum orðum á brtt. hv. þm. Dal., að umr. á Alþingi skuli því aðeins prenta, að veitt sé sérstök heimild til þess í fjárl. Mun ég greiða atkv. með þessari till., og stafar það fyrst og fremst af því, að þó ég sé ekki ánægður með, að hætt verði að gefa út þingræðurnar, þá hneigist ég að því á þeim erfiðu tímum, sem nú eru, að sá kostnaður, sem leiðir af prentun þingtíðindanna, verði sparaður. Það er að vísu leiðinlegt að falla út úr þeirri almennu venju, sem ríkir í nágrannalöndunum um prentun þingtíðinda; en fleira verður að gera en gott þykir á þessum þrengingatímum, og það hefir orðið að skera ýmislegt niður, sem meiri eftirsjá er að.

Ég hefi hvað eftir annað gengið í gegnum Alþingistíðindin og komizt að þeirri niðurstöðu, að eins og skjalaparturinn er mikilsverð og ábyggileg heimild, þá er umræðuparturinn tiltölulega mjög lítilsnýtur sem heimild um meðferð þingmála. Þegar ekki er hægt að gefa út allra nauðsynlegustu bækur, eins og t. d. námsbækur, þá er verið að gefa út þingræður, fyrir ærna peninga, sem hafa mjög misjafnt gildi, enda eru þær að nokkru leyti skrifaðar af mönnum, sem ekki eru hraðritarar, og því meira og minna ónákvæmar. Ég er kominn á þá skoðun, að það sé rétt að fella niður prentun á þingræðum vegna fjárhagsörðugleika ríkissjóðs, en semja heldur fyllri grg. með frv. og ýtarlegri nál. en nú tíðkast. Þó að skjalaparturinn verði þá nokkru dýrari, þá yrði hann margfalt meira virði. Það má oft finna þær upplýsingar í nál., sem að öðrum kosti þarf að leita eftir í mörgum löngum ræðum, ef n. skila ófullkomnum álitum og vísa til væntanlegra umr.

En um það er ekki að ræða í þessari brtt. að fella skuli niður prentun þingræðna, heldur að þingið skuli í hvert sinn með pósitívri ákvörðun í fjárlögum heimila fjárframlag til prentunar á ræðunum, í stað þess að nú er það fastákveðið í þingsköpum, og löggjafarvaldið þarf því að grípa inn í og breyta lögum til þess, að prentun þingræðna megi niður falla.

Það er alveg réttmæt regla, að hvert fjárlagaþing fái tækifæri til að veita svo tugum þúsunda króna skiptir til prentunar á jafnmerkilegri bók og þingræðurnar eru!

Ef þm. eru ákaflega hrifnir af ræðum sínum, þá veita þeir náttúrlega fé til þess að gefa þær út, þó það megi teljast dýrt spaug. En hitt væri þó enn skemmtilegra, ef þeir yrðu ekki alltof hrifnir af ræðunum; þá kynnu þeir að láta farast fyrir að prenta þær, og gætu það líka, án þess að gera um það sérstaka samþykkt eða lagabreytingu. Mér skilst, að það sé snúið við þeim ákvæðum, sem um þetta hafa gilt, þannig að nú á ekki, samkv. þessari brtt. að prenta annað en þingskjöl og atkvgr., nema að veitt verði sérstaklega fé til þess á fjárl.