01.04.1936
Efri deild: 39. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

7. mál, þingsköp Alþingis

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. forsrh. talaði um, að hann vildi að þetta mál yrði afgreitt frá þinginu fyrir páska. Þetta er mér alveg nýtt. Ég hefi ekki heyrt það nefnt fyrr, að ætlunin væri sú. En ég býst við, að það sé hægt að sjá um, að málinu þurfi ekki að seinka um eina mínútu, þó að leyfður verði frestur á þessari umræðu til morguns. Verði því neitað, þá er það ekki nema mannlegt, þó að við í minni hl. verðum ekki eins liprir í samningum um framgang mála eftir sem áður.

Ég þarf ekki að svara því, sem hæstv. forsrh. sagði um einræði og fleira í sambandi við frv., eins og það var upphaflega, þegar það kom inn í þingið; það hefir hv. l. þm. Reykv. gert. En ég get tekið það fram, að ég er samþykkur frv. eins og það nú er orðið, að undanteknum þeim stjórnarskrárbrotum, sem í því eru. Ég tel að vísu ekki þörf á að rifja þau upp aftur, en úr því það hefir verið gert, þá þykir mér rétt að benda á, að sum ákvæði frv. voru í byrjun alveg óhæfileg. — Það er rétt, að ég sagði, að það mætti líta á það sem brellu af þingm. að greiða ekki atkvæði um mál. En hún er ekki stærri en það, að þm. viðhafa daglega samskonar undanbrögð. Þeir eru ekki við, þegar málin eru rædd. Sumir þm. úr stjórnarliðinu hér í d. eru svo að segja aldrei í þingsæti sínu, og þegar atkvæðagreiðslur fara fram, þarf að smala þeim eins og kvikfé inn í d. Og verð ég að telja, að þeir svíkist á þennan hátt meira undan þingmannsskyldu sinni heldur en þó að andstæðingar stj. greiði stundum ekki atkv. um mál, sem þeim eru ógeðfelld. — Ef það á að fyrirbyggja þesskonar brellur, þá er bezt um leið að skylda þm., að viðlögðum miklum vitum, til að vera á þingfundum. En með þessu frv. er einmitt numin burt sú refsing, sem við því lá samkv. eldri þingsköpum. — Það er ekki rétt, sem hæstv. forsrh. sagði, að á síðasta þingi hefði verið fellt frv. í þinglokin af því, að stjórnarandstæðingar tóku þá ekki þátt í atkvgr. Það féll vegna þess, að sumir fylgismenn frv. voru farnir af þingi og að það var ekki til í þinginu nægilegur meiri hluti fyrir því að koma málinu fram. — Nú á með þessu frv. að fyrirbyggja þetta. En afleiðingin verður sú, að nú er hægt að afgreiða málsatriði með svo fáum atkvæðum sem verkast vill, ef minni hl. tekur ekki þátt í atkvæðagreiðslu; jafnvel einn maður, sem greiðir atkvæði, getur myndað meiri hl. á þingfundi og afgreitt málsatriði, ef hinir greiða ekki atkv. Svona eru þessi nýju þingsköp vitlaus.

Ég held fast við það, að hér er um alveg skýlaust brot að ræða á 48. gr. stjskr., og ég er undrandi yfir því, að ekki skuli fást leiðrétting á málinu.