07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

1. mál, fjárlög 1937

Ólafur Thors:

Herra forseti. Á þessum mínútum, sem ég hefi til umráða, ætla ég að hrekja verstu firrur andstæðinganna.

Þm. S.-Þ., Jónas Jónsson, leiði ég hjá mér eins og aðrir. Slíkt er orðið nokkuð föst venja hér á þingi, og sé ég ekki ástæðu til, að út af sé brugðið fremur fyrir það, að umr. er útvarpað, nema síður sé, enda er hvorttveggja, að sá, er slíkan málflutning hefir, — sá, sem ekkert annað og meira hefir að segja þjóð sinni við slíkar umr., sem hér fara fram, en óblandinn persónulegan róg, er eiginlega ekki viðmælandi, sem og hitt, að fyrir það er síður þörf að sinna einmitt honum, að álitinu á honum fer hraðhnignandi og þeim fækkar ört, sem á honum taka minnsta mark.

Þm. Ísaf., Finni Jónssyni, læt ég nægja að svara því, að hann sleit úr samhengi skýrslu þm. Snæf., Thors Thors, og hafði nær því í frammi villandi og rangan málflutning, sem raunar engan undrar, sem þennan þm. þekkir. En um sjálft efni málsins, ádeiluna á S. Í. F. út af því, að það félag og forgenglar þess skuli ekki fyrir löngu hafa hafið stór og mikil viðskipti í Ameríku, nægir sem alveg tæmandi skýring sú einfalda upplýsing að verðlag á þeim mörkuðum er miklu lægra en Íslendingar til þessa hafa þurft að sætta sig við. Nú aftur á móti, eftir að búið er að loka þeim mörkuðum, sem hið frjálsa framtak lagði undir sig og beztir voru, verðum við að lúta að því er áður þótti óboðlegt, þ. á. m. þessum umræddu mörkuðum í Ameríku. Ádeila þessa þm. er viðlíka viturleg eins og ef ráðizt væri á mjólkur framleiðendur í Reykjavík og grennd fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að búa til skyr úr mjólk sinni í því skyni að kenna mönnum skyrát, enda þótt þeir gætu ekki fullnægt eftirspurninni eftir nýmjólk — verðhæstu vörunni. Tel ég nauðsynjalaust að svara þessum þm. frekar, en mun nú beina ádeilu minni til sjálfra ráðherranna.

Kröfu okkar sjálfstæðismanna um þingrof og nýjar kosningar svöruðu hæstv. forsrh. og hæstv. atvmrh. báðir á einn og sama veg: Þeir ætla ekki að láta mig skipa sér fyrir verkum. Ég skil það út af fyrir sig, og mér finnst það eðlilegt. En það er bara ekkert svar við rökum mínum.

Frumræða mín var samin utan um þann sannleika, að sú þjóð, sem er í hættu stödd og hefir verið svikin af valdhöfunum, á alveg ótvíræðan rétt á því að fá með nýjum dómi að skera úr um, hverjum hún vill fela forustuna á örlagastundinni.

Hvorugur ráðherranna vildi neita því, að þjóðin væri í hættu stödd. Hvorugur gat hrakið, að stjórnin hefði brugðizt fyrirheitum sínum og þjóðin væri því vonsvikin. Og hvorugur reyndi að hrekja, að vonsvikin þjóð eigi rétt á að velja sér nýja forustu á neyðarinnar stundu. En báðir ráðh. færðust samt sem áður undan hinum einn rökréttu afleiðingum: kosningum. — Af því sést glögglega, að stjórnin veit, að fylgið hrynur nú af henni jafnt til sveita og sjávar.

Hæstv. forsrh. þarf ég litlu að svara. Firrurnar í mjólkurmálinu, sem hann var að reyna að sanna með röngum tölum, hafa nú verið hraktar af öðrum. Ég myndi aldrei hafa hirt um að verja tíma mínum til þess, vegna þess, að allir, sem eiga hagsmuna að gæta í þessu máli, vita fyrir löngu, að án allra mjólkurlaga hefðu austanmenn, hvað þá vestanmenn, borið meira úr býtum. En með réttri hagnýtingu mjólkurlaganna hefir altaf verið og er enn auðvelt að bæta afkomuna, svo verulegu nemi.

Ég þarf ekkert að segja þeim, sem við þessi lök eiga að búa, um mistökin í mjólkursölunni. Hinir geta áttað sig út frá því, að allir bændur vestanfjalls, sbr. einnig einróma samþykkt kaupfélags Borgfirðinga, hafa lýst skýru og ótvíræðu vantrausti á stjórn mjólkursölunnar. Ráðh. getur náttúrlega gert sér til gaman, að reyna að telja mönnum trú um að allir þessir bændur séu fífl, sem ekkert viti, hvað þeir eru að segja, en án þess að ég á nokkurn hátt vilji gera lítið úr vitsmunum hæstv. ráðh., þá efa ég samt, að hann einn verði talinn meiri vitsmunamaður en allir þessir bændur til samans.

Eftir fyrri reynslu má sjálfsagt búast við, að ráðh. þverskallist gegn kröfu bænda. Hann er vanur að segjast ætla að standa og falla með þessu máli, en það þýðir, að hann ætlar að sitja og standa í þessu máli eftir því, sem Egill í Sigtúnum segir honum, en það þýðir aftur, að hann ætlar alltaf að vera með því vitlausasta.

Ég sný mér þá að hæstv. atvmrh. Hæstv. ráðh. hefir oft áður teflt á tæpt vað í meðferð sannleikans, en þó efa ég, að hann hafi fyrr handleikið sannleikann jafngálauslega og sérstaklega jafnklaufalega eins og í ræðu sinni í gær, og hefir hæstv. atvmrh. í þessari ræðu komizt fram úr hæstv. fjmrh. í þessari list.

Mér þykir tilhlýðilegt að færa ráðh. þakkir fyrir mér veittar ánægjustundir við að hlýða á upplestur hans á eldhúsdagsræðu þeirri, er ég flutti á þinginu 1934. Ég verð að vísu að játa, að ráðh. gerði þetta ekki í góðu skyni, en ég mun nú snúa því til góðs. Ráðh. taldi sér feng í því, að ég hefði viðurkennt í desembermánuði 1934, að ástandið á Íslandi væri mjög alvarlegt. Af þessu vildi ráðh. álykta, að úr því að hann sjálfur á þeim tíma hefði aðeins verið ráðh. í fáa mánuði, þá væri ekki heldur hægt að sakfella hann, eða hans flokk, um það eymdarástand, er nú ríkir og fara virðist versnandi. Þetta er nú auðvitað barnaskapur eða blekkingar, því eins og ég skýrt tók fram í frumræðu minni, þá rekur það ófremdarástand, sem hér ríkir, rætur sínar til kosningasigurs stjórnarflokkanna 1927. Það er þess vegna ekki eingöngu fárra mánaða lamandi áhrif núverandi ríkisstj., sem öllu veldur, heldur 9 ára nær óslitinn valdaferill þessara sömu flokka. Það er eignaránið og frelsisskerðingin á sviði atvinnulífsins, það eru þessi tvö vopn, sem stjórnarflokkarnir hafa beitt í herferðinni á hendur einkaframtakinu, sem nú, eftir 9 ár, eru langt komin með að leggja það að velli, og það er af þessum ástæðum, sem atvinnureksturinn þverr og atvinnuleysið vex, og í þessu á ráðh. persónulega sinn þátt, mikinn eða lítinn, eftir því hvort hann hefir verið mikill eða lítill maður í sínum flokki.

Ég vil í þessu sambandi vita ráðh. fyrir þau ummæli, sem hann beindi til mín í sambandi við hið vaxandi atvinnuleysi. Ráðh. sagði, að þegar ég væri að tala um, að ég vildi bæta úr atvinnuleysinu, þá væri það af fullkomnum óheilindum mælt. Slík ásökun er svo þung, að þess verður að krefjast, að úr ráðherrastól fylgi henni einhver rök. Atvinnuleysið er eitt ógurlegasta böl sérhverrar þeirrar þjóðar og sérhvers þess einstaklings, sem fyrir því verður. Ekkert er ömurlegra, ekkert getur verið ömurlegra en að ganga iðjulaus frá morgni til kvölds og hafa um ekkert annað að hugsa en sitt eigið bjargarleysi, og ef til vill á ekkert annað að horfa en skort ástvina sinna. Sá maður, sem ekki vill bæta úr þessu, er verra hrakmenni en nokkur sá, sem ég hefi kynnzt á lífsleiðinni. Hitt er svo annað mál, hvað menn geta gert í þessum efnum, og enn er það þriðja hlið málsins, hvort menn komi auga á réttu leiðirnar til að létta af bölinu, og það er einmitt um þetta, sem deilan í raun og veru stendur og á að standa, og það er þetta, sem ég ber á hæstv. atvmrh. og hæstv. ríkisstj., að sú leið, sem hún leggur út á til að aflétta atvinnuleysinu, sé röng, af því að hún leiðir til aukins atvinnuleysis, en ekki aukinnar atvinnu, vegna þess að atvinnuleysið stafar að mínu viti frá því, að atvinnureksturinn er sligaður af ofþyngslum gjaldanna, og það getur þess vegna ekki verið ráð til að bæta úr atvinnuleysinu, að þyngja á þeim, sem of þungt bera, og sliga þannig þá, sem enn eru ekki sligaðir. Það væri sæmandi ráðh. að rökræða málið á þessum grundvelli, en það er til minnkunar fyrir embætti hans, að hann skuli leyfa sér að standa spertur og bera menn æruleysissökum um það, að þeir vilji ekki reyna að ráða bót á einu mesta böli mannkynsins.

Ég ætla þá að víkja nokkrum orðum að fjármálunum og skattamálunum, og mun þá fyrst svara hæstv. fjmrh. út af greiðslujöfnuðinum, en síðan honum og hæstv. atvmrh. út af skatta- og fjármálunum almennt, því fjármálaráðherrann bætti í rauninni ekki mörgum vitleysum við þær, sem atvinnumálaráðherra var búinn að prýða sig með.

Hæstv. ráðh. staðhæfði, að ekki skorti meir en 1–5 millj. upp á greiðslujöfnuð árið 1935, og, bætti ráðh. við, „hvernig er hægt að sýna betur, að það, sem Ó. Th. sagði um þetta í vetur, er fleipur, sem enginn skyldi trúa.“ — Ég skal nú sanna, að það er ráðh., en ekki ég, sem fer með fleipur.

Vil ég þá fyrst leyfa mér að taka upp úr þeirri ræðu minni þau ummæli, er að þessu lúta og hljóða þannig:

„Hinn fyrsta nóvember var raunverulegur innflutningur kominn upp fyrir 40 millj. króna, og sé gert ráð fyrir svipuðum innflutningi og í fyrra 2 síðustu mánuði ársins, verður heildarinnflutningurinn ekki 32 millj. eins og ráðh. taldi sig reiðubúinn til að tryggja, ef með þyrfti,og ekki 38 millj., eins og þurft hefði til að standa við heitstrenginguna, heldur 49 millj., eða nær 11 milljónum hærra.“

Mér þykir nú rétt að vekja athygli á því, að ég tek fram, að áætlun mín byggist á því, að innflutningurinn verði jafn 2 síðustu mánuði ársins 1935 eins og hann var þessa sömu mánuði 1934 og um leið get ég þess að þessa út- reikninga mína hefi ég frá hagstofustjóra, enda eru þeir réttir, eins og sést á því, að samkv. bráðabirgðaskýrslum var innflutningurinn í janúar-október 1935 36259 þús., en innflutningur 2 síðustu mánuði ársins 1934 var kr. 8387 þús., eða innflutningur alls samkvæmt bráðabirgðaskýrslum 44646 þús., og þegar við er bætt þeim 10%, sem hagstofustjóri telur, að bæta beri við bráðabirgðaskýrslurnar, hefði raunverulegur innflutningur orðið rúmar 49 millj., eins og ég sagði. Og það raskar ekkert mínum fullyrðingum, þó að innflutningur þessara mánaða ársins 1935 hafi reynzt minni heldur en ársins 1931. eins og raun bar vitni um og nú liggja fyrir skýrslur um. Samkvæmt bráðabirgðaskýrslum hefir innflutningur ársins 1935 reynzt kr. 42600 þús. Hagstofustjóri telur, að hæfilegt sé að bæta l0% ofan á bráðabirgðaskýrslur, og verður því raunverulegur innflutningur sem næst 11 millj. Útflutningur 2 síðustu mánuði ársins 1935 var allverulega miklu hærri en sömu mánuði 1934, og reyndist því samkv. bráðabirgðaskýrslum kr. 43881 þús., en ofan á það telur hagstofustjóri hæfilegt að bæta 6%, því að bráðabirgðaútflutningskýrslur séu æfinlega allmiklu nákvæmari en bráðabirgðainnflutningsskýrslur, og yrði þá raunverulegur útflutningur kr. 46700 þús., eða nokkru lægri en innflutningurinn. Út frá þessum staðreyndum telur svo ráðh., að skorta muni aðeins 4–5 millj. króna til að skapa greiðslujöfnuð, þ. e. a. s. að ósýnilegu greiðslurnar séu 1–5 millj. kr., en sjálfur hefir hann oft. þ. á. m. bæði í fjárlagaræðunni 1934 og '35, fullyrt, (og það meðan skuldir Íslendinga voru miklu minni út á við en nú er) að ekki yrði komizt af með minna en 8–9 millj. króna í ósýnilegu greiðslurnar. Skal ég sanna þetta með orðréttum tilvitnunum í þessar ræður, ef ráðh. dirfist að mæla því í gegn.

En með þessum orðum ráðh. eru sönnuð þau ummæli mín, að 8–9 millj. skorti á greiðslujöfnuð ársins 1935, þ. e. a. s. að það er ráðh., en ég ekki, sem fer með fleipur, sem enginn má festa trúnað á.

En afleiðingin af þessu ráðleysi ráðh. er sú, að á tveim valdaárum ráðh., hafa Íslendingar sokkið 20 millj. króna dýpra í skuldafenið, og standa nú uppi févana, lánstraustslausir, gjaldvana, og ef til vill þá og þegar gjaldþrota, jafnt ríki sem bæjarfélög, jafnt bankar sem einstaklingar, og í aðra hönd er ekkert annað en svikull ráðh., sem brugðizt hefir öllum sínum fyrirheitum, og bætir því svo ofan á að hælast um af skömminni, og reynir nú að, hylja ávirðing- una með stöðugt nýjum blekkingum.

Báðir hæstv. ráðh. fullyrtu, að það, sem ég sagði um fjármálin, væri í öllum aðalatriðunum eintómar blekkingar. En það, sem ég sagði. var þetta:

Sjálfstæðismenn telja, að eina leiðin út úr fjármálaöngþveitinu sé að létta sköttunum af þjóðinni, og hafa þess vegna boðið fram samvinnu um niðurfærslu á útgjöldum ríkisins, — og ríkisstjórnin, sem lofaði að létta sköttunum af nauðsynjum, hefir svikið það loforð og í stað þess lagt á nýja skatta, 4–5 millj. krónu.

Við þessu hrópa nú ráðherrarnir hver í kapp við annan, að Sjálfstfl. meini ekkert með þessu, eins og bezt sjáist á því, að hann hafi engar sparnaðartillögur gert. Við þessu er nú í fyrsta lagi það að segja, að þetta eru vísvitandi ósannindi. Sjálfstfl. bar fram sjálfstæðar sparnaðartillögur á þinginu 1934, að upphæð 600–700þús. króna. En stjórnin lét fella þær. Og á þinginu í fyrra átti Sjálfstfl. sinn þátt í sparnaðartillögum, sem námu meir en millj. króna, og enn í ár er samvinna boðin. Með þessu innir flokkurinn af hendi þær ströngustu kröfur, sem hægt er að gera til stjórnarandstæðinga. Hitt er ekki annað en hugsunarlaust fleipur, að krefjast þess, að við tökum beinlínis á okkur skyldur og hlutverk fjármálaráðherra, en allir viti bornir menn vita að það er á herjum tíma fjmrh., sem á að eiga uppástungurnar að því, hvar á að spara og það vegna þess, að ríkisstj. hefir bolmagn til að lögfest, sparnaðinn, hvað svo sem andstæðingarnir segja, en andstæðingarnir hinsvegar geta ekkert lögfest í þessum efnum án ríkisstj., og eiga þess vegna á hættu að taka á sig óvinsældirnar, sem alltaf hljóta að fylgja slíkum tillögum, án þess að ná því, sem að er stílað, þ. e. a. s. sjálfum sparnaðinum.

Út af ummælum mínum um skattahækkunina sagði hæstv. atvmrh., að ég væri einstaklega ómerkilegur maður og óráðvandur í meðferð talna, svo engu orði mætti trúa, sem ég segði, og ráðh. bætti við, svo ég noti hans eigin orð, „fæstir ljúga meir en helming, en Ólafur Thors lætur sér ekki nægja minni en fimmfalda lygina.“ Mér verður sjálfsagt virt til vorkunnar, þó ég vandi ráðherranum síður kveðjurnar en ég er vanur, en ég skal þó hafa það umfram bann, að ég skal fara rétt með staðreyndir. Rök ráðh. fyrir þessu voru þau, að úr því að tekjur ríkissjóðs á árinu 1934 hefðu verið, eins og hann sagði, l4,5 millj., en á árinu 1935 ekki nema 13–l5,7 millj., þá sýndi það og sannaði, að ekki hefðu verið lagðir á þjóðina nýir skattar, sem næmu 4–5 millj. króna, heldur aðeins 1 milljón til 1200 þús. Ég veit vel, að ráðh. er ekki svo vitgrannur, að hann skilji ekki, hvar blekkingarnar liggja í slíkri rökfærslu, og mig undrar, að hann skuli sýna hv. þingheimi þá fyrirlitningu að halda, að slík rök megi bjóða. Að tekjur ríkissjóðs hafa ekki hækkað meira en þetta, stafar auðvitað ekki af því, að þessir nýju skattar hafi ekki verið lögfestir, heldur af hinu að þrátt fyrir það, að búið er að lögfesta nýja skatta upp á 4–5 millj., þá fær ríkissjóður ekki meira en 1 millj. króna meira en árið áður, vegna þess að almenningur er svo aðþrengdur, að hann verður að neita sér um nokkurn hluta þeirrar tollvöru, sem hann áður hafði notað. Ef þessi rök ráðh. stæðust, þá myndu þau náttúrlega nægja ríkisstj. til efnda á fyrirheitunum um að létta tollum af nauðsynjum. Ráðh. þyrfti þá ekki annað en snúa sér til fátæks fjölskyldumanns og geta honum það heilræði að hætta að eta og drekka, a. m. k. alla aðflutta nauðsynjavöru, því með því móti er tollunum létt af hans nauðsynjum, þrátt fyrir hina nýju skatta, ef hann neitar sér um nauðsynjarnar. Ég hefi hér handbæra sundurliðun á þeim nýju sköttum, sem lagðir hafa verið á þjóðina á þessum 2 árum og eru nær 5 millj. en 4, og ég myndi lesa þau öll upp og skýra þau, ef ég þyrfti þess. En hæstv. fjmrh. hefir tekið af mér ómakið, því honum tókst nú ekki lánlegar í blekkingunum í þetta skiptið en svo, að þegar hann var búinn að tyggja upp þessi tyllirök atvmrh., þá endaði hann á því að segja, að ef sjálfstæðismenn hefðu ráðið, og þar af leiðandi engir nýir skattar verið lagðir á þjóðina,þá hefðu tekjur ríkissjóðs í fyrra ekki orðið 15,5 millj., heldur aðeins 11,5 millj. En hvaðan koma þá þessar 4 mill.? Hefir þeim rignt af himnum ofan? Eða eru þær kannske „skenking“frá Dönum til atvmrh.; eða hafa þær komið eins og þjófur úr heiðskíru lofti, eins og 2. þm. N.-M., Páll Zóphóníasson, mundi orða það? Nei, þær eru með lagaheimild í hinni nýju tollalöggjöf, tíndar saman eyrir fyrir eyri, úr buddu fátæks almennings, sem blóðskattur af hverjum þeim munnbita, sem ofan í fólkið fer, og þetta er svo augljóst, að ég framt að því skammast mín fyrir, að ráðh. íslenzku þjóðarinnar skuli leyfa sér að gera tilraunir til þess að þræta fyrir það.

Hitt má fremur skilja að þeir í vandræðum sínum reyni að hanga í því, að a. m. k. ekki allar þessar 5 millj. séu teknar af nauðynjum, eitthvað sé þó lekið með öðrum hætti. En einnig þetta haldreipi er fúið, og það sést þá líka af málsvörninni, að þeim er þetta ljóst. Atvmrh. sagði, að það væri að sumu leyti satt, að tollarnir hefðu hækkað, en það væri alveg á móti sínum vilja. Fjmrh. hirti sneiðina, því úr því að svikin voru framin á móti vilja atvmrh., hlaut það að vera samkv. vilja fjmrh. Og hann hagaði þá líka vörn sinni þar eftir, því hann neitaði algerlega, að tollarnir hefðu hækkað á nokkrum nauðsynjavörum, eða a. m. k. væru allar brýnustu nauðsynjar undanþegnar. Einnig þetta er ekki aðeins rangt, heldur og af augljós ósannindi til þess að vera hættuleg öðrum en þeim, sem þau við hefir, því auk þess sem búið er að skattleggja nær alla flutninga fólksins í landinu, þá er líka búið svona meðal annars að tvíhækka tolla á vefnaðarvöru og skófatnaði, fyrst um 10–20%, og síðan um mörg %, kaffi og sykurtollurinn stórhækkaður, og lagt svokallað viðskiptagjald á þær allra nauðsynlegustu vörur, t. d. fæðu almennings og notaþarfir framleiðslunnar. En þar að auki kemur svo hitt, sem ég sannaði í ræðu minni í gær með alveg óhrekjanlegum rökum, að sjálfur tekju- og eignarskatturinn, sem lagður var á háu tekjurnar, yfirfærðist á notaþarfir almennings, eins og sést bezt á frumv. þeirra Jónasar Guðmundssonar, Bernharðs Stefánssonar og Magnúsar Guðmundssonar, sem fer fram á, að tekjumissir bæjarsjóða út af eignarskattinum fáist bættur með heimild til að leggja nýja skatta á nauðsynjar og notaþarfir. Og það er náttúrlega ekkert annað en rakafals, þegar þessu til afsönnunar er verið að tala um, að notaþarfir t. d. Reykjavíkurbæjar vaxi vegna þrenginganna, og þess vegna þurfi nú þessa nýju skatta, því að þó að það sé að vísu rétt, að notaþarfir Rvíkur hafi vaxið og útgjöld bæjarsjóðs aukizt, ekki aðeins vegna hinnar öru fólksfjölgunar, heldur og vegna þess, að stjórnmálastefna ríkisstj. hefir komið æ fleirum og fleirum á hreppinn. — þó að þetta að vísu sé rétt, þá raskar það ekkert hinu, að ef ríkið hefði ekki seilzt ofan í buddu þeirra, er meðalárstekjur hafa og þar umfram, þá hefði bærinn auðvitað getað tekið meira af þessum mönnum og þess vegna ekki þurft að leggja þessa nýju skatta á nauðsynjar almennings og notaþarfirnar.

Ég skal þá að lukum víkja að atvmrh. og fiskimálunum. Ráðh. varði allöngum tíma til að verja afbrot sín í sambandi við gerðir og gerræði fiskimálanefndar. Hv. 6. þm. Reykv., Sigurður Kristjánsson hefir nú veitt ráðh. alveg maklega hirtingu fyrir orð hans og verk í þessum efnum, en þó get ég ekki stillt mig um að bæta þar nokkru við. Það hlægir mig að hlýða á raup ráðh. í sambandi við lögin um fiskimálanefnd, sem samþ. voru á Alþingi 1934. Helzt var svo að skilja, sem ráðh. teldi, að fisksölusambandið setti líf sitt þeim lögum að launa, en sjálfur væri ráðh. faðir lagasetningarinnar, og þá einskonar afi fisksölusambandsins, og mætti þá telja það vel ættað. En sannleikurinn í málinu er sá, að eftir að fisksölusambandið hafði starfað á fullkomlega frjálsum grundvelli í 3 ár, og með þeirri starfsemi sinni beinlínis forðað þjóðfélaginn frá hruni, þá réðust stjórnarliðar á Alþingi 1934 með ruddalegum yfirgangi inn í þessi frjálsu samtök, og tóku með lögunum um fiskimálanefnd öll réttindi af útvegsmönnum til sölu sinnar eigin framleiðsluvöru. Enginn þekkir betur þennan sannleika en einmitt þessi hæstv. ráðh., en framhjá honum ætlaði hann að komast, með því að skýra frá, eins og hann orðaði það, að hann hefði með bráðabirgðalögum gert smávægilega breytingu á þessari lagasetningu. En hvaða smávægilega breyting var nú þetta? Breytingin var sú, að eftir löggjöfinni hafði fiskimálanefnd öll yfirráð yfir saltfiskssölunni, en fyrir hina smávægilegu bráðabirgðabreytingu fékk fisksölusambandið öll yfirráðin. Og hæstv. ráðh. sagði, að ef vandinn í fisksölumálunum væri ekki annar en sá, að lægja ofsann í Héðinn Valdimarssyni og efla dáð hans sjálfs, þá skyldi ekki á honum standa. Ég tek þessu tilboði. Ég bið hann um að lægja ofsann í Héðni Valdimarssyni og herða sjálfur upp hugann, þó ekki væri nema stutta stund, manna sig upp og gera aðra smávægilega breytingu á lögunum um fiskimálanefnd, sem færir yfirráðin yfir freðfiskinum og harðfiskinum frá fiskimálanefnd og yfir til fisksölusambandsins, á sama hátt sem hann, með smávægilegri breytingu færði yfirráðin yfir saltfiskinum milli þessara aðila. Geri ráðh. þetta, þá mun hann sanna að við þurfum a. m. k. ekki að kvíða því að annað eins hneyksli eins og för Sigurðar Jónassonar, og yfirleitt afskipti Héðins Valdimarssonar af freðfisksölunni í Norður-Ameríku, þurfi oftar að spilla afkomuskilyrðum þjóðarinnar.

Ég skil, að ráðh. reyni að afsaka fiskimálanefnd, en ég skil ekki, að hann skyldi reyna að gera það eins og hann gerði. Það er að vísu rétt, að lögin heimila ráðh. að fá fiskimálanefndinni í hendur alla framkvæmd um sölu ákveðinna sjávarafurða, en það er ekkert í lögunum, sem fyrirskipar þetta, og alveg fjarri öllum sanni og mikið verra en vitlaust að leyfa sér að staðhæfa, að nefnd, sem hefir handa á milli milljón krónur af ríkisfé, í því skyni að tryggja, að troðnar verði nýjar slóðir í þessum efnum, að slíkri nefnd beri, eða öllu heldur, að slíkri nefnd sé heimilt að leggja stein í götu nokkurs þess aðila, sem líkur getur leitt að því, að hann hafi einhverja möguleika til þess að inna af hendi þetta verkefni. En það, sem nú hefir skeð, og það sem ráðh. er að stritast við að verja, er hvorki meira eða minna en það, að fiskimálanefnd leyfir sér að taka fyrir kverkarnar á þessum aðila, sem sjálfkjörinn er til að fást við þetta verkefni, ekki aðeins af því, að hann er fjölfróðastur um alla möguleika á þessu sviði, heldur einnig af því, að hann er lýðræðislega réttkjörinn til forustu um sölu sjávarafurðanna, einmitt af útvegsmönnum sjálfum. Svona fáránlega vitleysu getur Héðinn Valdimarsson gert í ofstopa, ofmetnaði og hroka, en það afsakar ekkert hitt að ráðh., sem er sér til armæðu búinn að horfa á þetta undarlega fyrirbrigði nú um alllanga hríð, skuli taka sér fyrir hendur að verja það fyrir dómstóli þjóðarinnar, þvert ofan í betri vitund.

Og þá færðist nú skörin upp í bekkinn, þegar ráðh. á 60. mínútu ræðu sinnar ætlaði sér að bæta fyrir hinar 59 með því að belgja sig upp með ógurlegum rembingi og hvalablæstri yfir þeim fáheyrða og alveg einsdæma ódrengskap, sem fiskimálanefndinni væri nú sýndur, þar sem verið væri að gagnrýna gerðir hennar, og það, eins og ráðh. sagði, meðan ekki einu sinni væri útséð um, hvort salan tækist í Ameríku. En mætti mér leyfast að stinga títuprjóni í belginn og minna ráðh. á, að eftir að sölusambandið, fyrir tilstilli Kristjáns Einarssonar, var búið að tengja fyrstu böndin þar vestra, en áður en reynslan var búin að treysta þau, var það fiskimálanefndin sjálf, sem sendi Sigurð Jónasson vestur, til þess þar að bera út þann boðskap að allt, sem Kristján Einarsson hefði sagt um völd og verkefni sölusambandsins, væru ósannindi hans, sem ekkert væri ábyggjandi, því að því færi svo fjarri, að sölusambandið mætti selja freðfisk, eins og Kristján Einarsson hefði sagt, að það mætti ekki einu sinni selja saltfisk. Við þessa iðju hefir umboðsmaður fiskimálanefndar dvalið í mánaðartíma í Ameríku, og þó að honum hafi ekki tekizt að losa Íslendinga við fiskinn, sem hann átti að selja, þá er hann víst kominn langt á leið með að losa fisksölusambandið við mannorðið og æruna, með óhróðrinum, sem hann hefir borið út um það og Íslendinga, við a. m. k. fyrstu uppskeruna af þessum nýja markaði. Mætti ég í allri kurteisi ráðleggja þessum hæstv. ráðh. að minnast ekki á drengskap í sambandi við viðskipti fiskimálanefndar og fisksölusambandsins.

Ég lýk svo þessari ádeilu minni á ráðh. út af þeim firrum, sem hann hafði í frammi í sambandi við fisksölumálin, með því, að vekja athygli hans á, að það bar fullmikið á því í ræðu hans, að einhver ég, sem var atvinnumálaráðherra Haraldur Guðmundsson, hann ályktaði, hann teldi og hann ákvæði, að svona og svona skyldi það vera. Flestir telja nefnilega, að það séu aðrir en hæstv. ráðh., sem þarna eiga að ákveða. Í fyrsta lagi af því, að þeir hafa þekkingu umfram hann, og í öðru lagi af því, að þeir eiga sjálfir alla afkomu sína undir því, hvernig til tekst, en það eru útvegsmenn í landinu. Þeir hafa nú nýverið lokið fundi sínum, þar sem mættir voru umboðsmenn nær allra hinna íslenzku útvegsmanna, og þeir kröfðust þess, með nær 80% af öllu atkvæðamagninu, að fiskimálanefnd yrði lögð niður, en yfirráðin fengin fisksölusambandinu. Gegn svo ákveðnum, yfirlýstum meirihlutavilja er ekki hægt fyrir neinn ráðh. að rísa, og eftir að þessi vilji er orðinn kunnur, þá er tilgangslaust fyrir ráðh. að vera að segja frá, hvað hann sjálfur ályktar, af því að það skiptir svo litlu máli. Ríkisstj. telur sig vilja vernda lýðræðið í landinu. Við skulum bíða átekta og sjá, hvað reynslan segir, því neiti ráðh. að verða við þeirri kröfu, sem 4/5 hlutar útvegsmannanna í landinu bera fram, þá er það ekki lýðræði, heldur verra en einræði, því það er hreint gerræði.

Ég hefi þá hrakið firrur beggja ráðherranna, svo þar stendur ekkert eftir, og legg nú óhræddur undir dóm alls þingheims, hvort það er ég, sem farið hefi með fleipur, eða hvort það er hæstv. fjmrh., sem það hefir gert. Hvort það er ég, sem er einstaklega ómerkilegur, eða hvort það e. t. v. skyldi vera hæstv. atvmrh. sjálfur. Hvort það eru mín orð, sem ekki er að treysta eða hans. Hvort það er ég, sem „lýg meira en helming,“ svo að ég noti ráðherraleg orð hans sjálfs, eða hann sjálfur.