06.04.1936
Neðri deild: 44. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

102. mál, alþýðutryggingar

*Gísli Sveinsson:

Ég skal ekki lengja þessar umr., sem eru einkennilega til komnar, eða bara fyrir þá sök, að hér liggur fyrir frv., sem þarf að ná framgangi nú þegar. En ég vil taka það fram, að mér finnst ófyrirsynju, að lögin um ellistyrktarsjóði gildi ekki, þar til þessi lög um alþýðutryggingar eru komin í gildi. Ég tel því ólöglegt það, sem hæstv. atvmrh. gerði, er hann sendi bréf til sýslumanna í jan. sl. og mælti þar fyrir um, að gerð yrði skrá fyrir gjaldskylda menn ettir þeim lögum, sem ekki voru komin í gildi og bæði mér og öðrum var kunnugt um, að varð ekki framkvæmt nema út í bláinn.

Þá var eitt atriði, sem hér hefir komið fram, að ætlazt var til, að þeir menn yrðu ekki aðnjótandi ellistyrks á þessu tímabili, sem eru á aldrinum 60–67 ára, en það var siður, að sama fólkið fengi ellistyrk ár eftir ár, og áttu menn á þessu reki rétt á að fá þennan styrk til 1. apríl. Eins og kunnugt er, átti þetta fólk rétt á að fá ellistyrk samkv. l. um ellistyrktarsjóði, og á heimtingu á að fá þann styrk. En nú er það komið fram, að hér er atriði, sem þarf úr að bæta. Og á framkvæmdin því að verða á ólöglegan hátt, þar sem á að setja þetta undir ákvæði um örorku, sem er algerlega óskiljanlegt. Er óviðkunnalegt, og í rauninni óhæfilegt, að framkvæma þannig lög, og þó sérstaklega, að slík fyrirskipun komi frá ráðh. Ég teldi betra og viðkunnanlegra að taka þau helztu atriði, sem þarf að breyta, nú þegar. Ég vildi beina því til hæstv. ráðh., hvort ekki sé hægt að koma inn nú um leið breytingu um þetta atriði.