06.04.1936
Neðri deild: 44. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

102. mál, alþýðutryggingar

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Það er alveg rangt, að menn eigi nokkurn rétt á ellistyrk, og áður en l. komu átti enginn rétt til hans. Og það hefir enginn tryggingu fyrir ellistyrk í fleiri ár í röð. Úthlutun hans fer eftir því, hvernig umsóknir liggja fyrir í hvert skipti. En þetta er lífeyrir, hvort sem örorkan stafar af veikindum, slysum eða elli. Ég vil því mælast til þess við hv. þdm., að þeir fari ekki að tefja málið með brtt., sem ég sé ekki, að sé nein ástæða til að afgr. á þessu þingi. Að sjálfsögðu verður, eins og ég áðan sagði, að athuga margt í l. á næsta þingi, eftir að l. hafa verið í framkvæmd um tíma. En það verður ekki þetta atriði, sem sérstaklega veldur örðugleikum. Hv. þm. V.-Sk. drap á það, að ríkisstj. hefði farið fram á það við sýslumenn að fremja ólöglegan verknað í undirbúningi undir framkvæmd alþýðutrygginganna. Þetta er nú tæplega rétt. Það er rétt, að ráðuneytið skrifaði sýslumönnum og óskaði, að þeir semdu skrá yfir gjaldendur til lífeyrissjóðs, sem gert var ráð fyrir 1. febr., þó að l. kæmu ekki í gildi fyrr en 1. apríl. En þetta voru aðeins tilmæli, sem allir undantekningarlaust hafa orðið við. Að gengið hafi verið á svig við l. með því að viðhafa þennan undirbúning og leggja til við sýslumenn að semja skrárnar þannig — því að það var ekki beint lagt fyrir þá — hygg ég sé í alla staði ofmælt.

Hv. þm. V.- Húnv. þarf ég litlu að svara. Hann var eitthvað að tala um stj. og að hneppa upp um sig buxunum — hans venjulega smekkvísi í ræðum hér á þingi. Þessi hv. þm. hefir sýnt það, að það er þýðingarlaust fyrir hann að hneppa upp um sig, því að það er ekki nema ferð og gangur.