06.04.1936
Neðri deild: 44. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

102. mál, alþýðutryggingar

*Gísli Sveinsson:

Aðeins út af orðum hæstv. ráðh. Það var tilkynnt í símskeyti til sýslumanna, að l. um tryggingar yrðu framkvæmd, en ekki ellistyrktarsjóðsl., og það var á þeim tíma meðan ellistyrktarsjóðsl. giltu. Og þær athafnir, sem gerðar eru á þeim árstíma, var tilkynnt, að mættu ekki eiga sér stað, heldur yrði að breyta þeim undirbúningi undir hin l. Þetta taldi ég rangt, og sjálfsagt fleiri. Það varð að fyrirskipa oddvitum að gera þetta, framkvæma undirhúning ekki gildandi 1. samkv., heldur samkv. l., sem ekki voru í gildi.

Það er skýrt tekið fram í ellistyrktarsjóðsl., að allir þeir, sem komnir eru yfir sextugt, eigi rétt til að fá ellistyrk og koma til greina við úthlutun, svo sem 1. ákveða. Það er ekki rétt hjá hæstv. ráðh., að þeir hafi ekki réttinn. Hitt er rétt, að menn hafa enga tryggingu fyrir því þetta og þetta árið að fá ellistyrk; en rétturinn er til.

Nú er með þessum l. sagt, að þessir menn hafi engan rétt til að koma til greina, hvorki samkv. eldri ákvæðum né nýrri ákvæðum í lífeyrissjóðslögunum nýju; svo að þeir eru búnir að vera. Það er líka verið að tala um að bjarga þeim með örorku. Veit ég ekki, undir hvaða ákvæði þeir eiga að koma, líklega gr., sem hann las upp og hljóðar um þá, sem ekki eru færir um að vinna fyrir sér. En það er kunnugt, að eins og gengur víða, geta menn unnið fyrir sér á þessum aldri. Ellistyrksveiting hefir og færzt nokkuð í það horf, að þeim væri veitt, sem verst eru settir og ástæður á heimili einna lakastar. Margt annað kemur til greina, en menn þurfa alls ekki að vera örorka. Enda gera l. sjálf ráð fyrir því, að þeir, sem orðnir eru 67 ára, séu upp til hópa á örorkulífeyri, en það gefur að skilja, að ekki eru nærri allir þessir menn öryrkjar. Hvernig ráðh. vill framkvæma þetta, verður hann sjálfur að bera ábyrgð á; ef hann vill gera það á ólöglegan hátt, þá verður hann líka að bera ábyrgð þar á. Ég hefi bent á, að eðlilegast sé að setja bráðabirgðaákvæði.