07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

1. mál, fjárlög 1937

*Héðinn Valdimarsson:

Herra forseti! Góðir hlustendur! Það er ekki þörf á fyrir mig að taka upp hanzkann fyrir hæstv. ríkisstj. eða verja hennar málstað. Það hefir hún gert sjálf svo, að ekki er þörf á frekar. Ástæðan til þess, að ég tala hér í kvöld, er sú, að ræðumenn andstöðuflokka stj. minntust á mig í sambandi við tvö mál, og mun ég því sérstaklega snúa mér hér að þeim tveimur málum. Ég mun ekki taka sérstaklega fyrir það, sem fulltrúar Bændafl. hafa borið hér fram; eins og allir vita, er Bændafl. ekkert annað en taglhnýtingur Sjálfstfl. hér á þingi, og er því nægilegt að taka það til andsvara, sem hv. þm. Sjálfstfl. hafa borið fram.

Þau tvö mál, sem hv. þm. hafa minnzt á framkomu mína í sambandi við, eru olíuverðið og fisksalan. Nú er það vitanlegt, að ef ég hefði verið í Sjálfstfl. eða þó ekki hefði verið nema í Bændafl., þá hefðu ekki þm. þessara flokka gert olíuverzlunina að umtalsefni sérstaklega. Það hefir ekki orðið vart við, að þm. Sjálfstfl. hreyfðu því, hvernig verzlað er með almennar vörutegundir hér á landi. En vegna þess að þannig stendur á, að ég er á móti íhaldinu og vinn á móti því bæði í mínu kjördæmi og annarsstaðar þar, sem ég næ til í landinu, þá er veitzt að mér í sambandi við olíusöluna. Það, sem fundið er að, er eingöngu það, að olíuverðið sé of hátt, og því gæti ég í sjálfu sér svarað með örfáum orðum á mjög einfaldan hátt. Það verzlunarfyrirtæki, sem ég stend fyrir, ræður ekki olíuverðinu. Það hefir olíuna í umboðssölu, og þeir, sem verðinu ráða, eru hin erlendu firmu, sem olíuna selja hingað. Og svipað mun vera hátttað um önnur olíufélög, sem hér starfa. En þó ég losi mig á þennan hátt undan ákærunni um það, að olíuverðið sé of hátt af mínum völdum, þá þykir mér rétt, úr því þessu máli hefir á annað borð verið hreyft hér, að taka það til nokkuð nánari athugunar, sérstaklega að hvað miklu leyti þetta er rétt, sem haldið hefir verið fram. Þeir, sem þekkja til um verzlun í Danmörku, vita, að kol eru þar ? ódýrari heldur en hér. Borið saman við kolaverðið, væri því ekki undarlegt, þó olíuverðið væri talvert hærra hér en í Danmörku. Það mætti þykja líklegt, að sambærilegt hlutfall væri í olíuverðinu, en munurinn er lítill. Það talaði einhver um 10 au. verð pr. kg. í Danmörku, en ég hefi hér fyrir framan mig reikning yfir olíu, sem mótorbátur keypti þar um áramótin á 11,7 au. kg. Sé svo reiknað til viðbótar flutningsgjald og tollur, er verðið komið upp í 15,9 au. hér, í stað þess að það er að frádregnum afslætti við staðgreiðslu ekki nema 14,4 au. eða 1,5 au. lægra kg en almennt olíuverð er í Danmörku. Nú gæti skeð, að olían yrði ódýrari, ef hún væri flutt frá Danmörku í stærri sendingum. Þetta hefir verið reynt. Alfreð Ólsen hefir t. d. flutt olíu til Ísafjarðar, en það hefir sýnt sig, að kostnaðurinn hefir orðið svo mikill að verðið hefir þannig orðið heldur hærra. Loks mætti segja, að olían yrði ódýrari, ef hún væri flutt í heilum förmum.

Um það skal ég ekki segja, það yrði reynslan að sýna. En ég skal geta þess, að ég álít, að verðið gæti verið lægra, ef verzlunin væri rekin á réttan hátt. En á henni hafa verið miklir gallar. Olíufélögin hafa tapað um 2 millj. kr. á 3 árum vegna þess, að þau hafa lánað olíuna. Og eins og gengur, er reynt að ná því inn aftur með því að leggja það á. Nú er búið að breyta þessu á þann veg, að nú er eingöngu selt gegn staðgreiðslu, og þá ætti verðið að geta lækkað. En þá kemur til annar þröskuldur, sem er yfirfærslu örðugleikar, enda áttu félögin orðið á þriðju millj. kr. innifrosið hér í bönkunum. og sem vafi lék á um, hvort fengist flutt út. Áður en til verðlækkunar á olíunni kæmi, urðu félögin því að vita, hvort yfirfærslur fengjust. Það varð svo úr eftir fleiri mánaða þóf, að samkomulag náðist um, að olíufélögin lánuðu skuldaskilasjóði vélbátaeigenda mikinn hl. af þessu fé. Þetta hafa andstæðingarnir tekið upp sem árás á mig og stj., en ég tel það heppni fyrir mig að hafa getað hjálpað til við svo gott verk.

Þá hafa menn verið að segja, að benzíverðið sé að lækka. Ég skal ekki um það segja, hvort sú lækkun verður varanleg, hvort verðið heldur áfram að lækka eða hvort núverandi verð helzt. En hitt er sjáanlegt, að félagið „Nafta“ getur ekki fullnægt þörfum landsmanna um 16 þús. tn. af olíum og 5 þús. tn. af benzíni. Til þess þarf strax að reisa stóru geyma, og þarf því mikið fé og gott fyrirkomulag, ef vel á að sjá fyrir þörfum landsmanna. Ég vil í þessu sambandi fullyrða, að benzínverkfallið var ekki reist til þess að lækka benzínverðið, heldur aðeins af eigingjörnum og pólitískum ástæðum. Þeir, sem minnast benzínverkfallsins, muna, að því var eiginlega beitt gegn ríkisstj. og Dagsbrún.

Til frekari skýringar á þessu máli skal ég lesa hér upp kafla úr bréfi til mín frá h. f. Nafta. — Bréfið hljóðar svo:

NAFTA H F

Sölufélag fyrir rússneskar olíur og benzín. Reykjavík, 6. desember 1935.

Herra framkvæmdarstjóri Héðinn Valdimarsson, Reykjavík.

Með tilvísun til samtals þess, er Fritz Kjartansson hefir átt við yður í dag og í áframhaldi af bréfi hans til yðar, dags. l5. nóv. s. l., leyfum við okkur að gefa yður eftirfarandi tilboð:

H f Nafta kaupi af Olíuverzlun Íslands h f 500000 lítra af benzíni til afhendingar á tímubilinu frá áramótum 1935–1936 til 1. janúar 1937. — Kaupverðið sé 20 au. pr. lítra. flutt í dælustöð h f Nafta í Reykjavík eða áfyllt á tunnur, sem h,f Nafta leggur til, fluttar í port h f Nafta í Reykjavík.

Benzínið verði greitt yður jafnóðum og afhending þess fer fram eftir óskum h f Nafta, og getum við fallizt á það að greiða yður hinar daglegu úttektir eigi sjaldnar en vikulega. Til tryggingar skilvísri greiðslu hinna einstöku úttekta í samræmi við það, sem að ofan er sagt, gæti það komið til mála, að yður yrði afhentur tryggingarvíxill að upphæð kr. 5000, samþykktur af h f Nafta, en útgefinn af Magnúsi Bl. Jónsyni past. emer.

H/f Nafta mundi ekki flytja til landsins eða selja á tímabili þessu annað benzín en frá félagi yðar.

Benzínið yrði selt frá útsölustöðum hf Nafta í Reykjavík, Vestmannaeyjum, Keflavík, Hafnarfirði og Borgarnesi.

Um útsöluverðið viljum við taka það fram, að h f Nafta mundi á hverjum tíma haga söluverði sínu í samræmi við hið opinbera útsöluverð á benzíni hjá félagi yðar, þó þannig að núverandi 2 au. mismunur pr. lítra á hinum einstöku útsölustöðum mætti haldast, og mundi h f Nafta ekki slaka á nokkurn hátt frá því verði.

Að endingu viljum við geta þess, að svo framarlega sem þér óskið eftir því að taka við umboðinu fyrir Polish Petroleum Company, þá mundi Fritz Kjartansson gera ráðstafanir til þess, að það verði fært yfir á yður.

Ennfremur mun okkur vera óhætt að fullyrða, að rússneska olíumboðið hér á landi verði framvegis á valdi sömu manna, sem eru hluthafar í h f Nafta, þannig að það kæmi ekki til greina sem keppandi um markaðinn.

Með tilvísun til loforðs yðar um svar við þessari málaleitan væntum við heiðraðs svars yðar í byrjun næstu viku.

Virðigarfyllst

pr. pr. h f Nafta

Fritz Kjartansson. M. Sveinsson.

Þetta bréf sýnir nægilega skýrt, hvað legið hefir á bak við. Þessir menn gátu ekki fengið eins góð viðskiptakjör eins og það félag sem ég veiti forstöðu. Ég spurði Fritz Kjartansson, hvort hann réði við Einar Olgeirsson og sagði hann, að það væri ekki vandi, hann væri alveg í þeirra vasa.

Þá skal ég svara þeim, sem hafa verið að spyrja um hvort það væri ekki ennþá skoðun Alþfl., að það eigi að vera einkasala á olíunni. En þar eru fyrst nokkrir hlutir, sem þarf að athuga. Þó get ég strax sagt það að eigi að gera alvarlega tilraun til þess að lækka benzínverðið, þá verður það ekki gert nema með einkasölu, því olíufélögin, sem hafa milljarða hlutafé, geta vel um stundasakir selt undir verði. Þá þyrfti að byggja hér a. m. k. 8000 tn. tank og taka olíuna beint frá framleiðslulöndunum. t. d. Mexíkóflóa. Þá eru enn ótalin tvö höfuðskilyrði, sem hvorugu er hægt að fullnægja, eins og nú stendur. Annað er það að ná samböndum við olíufélag sem fullnægt gæti olíuþörf landsins, þó um Evrópustríð yrði að ræða. Og loks er það atriðið, sem ekki er minnst vert, að til þess að setja á stofn slíka einkasölu þyrfti a. m. k. um 6 millj. kr. í stofnfé og rekstrarfé. En meðan ekki er hægt að fullnægja þessum skilyrðum mætti gera ráðstafanir til þess að lækka verðið á annan hátt en hér er talað um.

Ég er sannfærður um, að Sjálfstfl. dettur ekki í hug að taka einkasölu á olíunni, og að þetta glamur þeirra er ekki annað en bomba frá þeirra hendi. A. m. k. var því ekkert hreyft meðan þeir Thórsbræður áttu 4 millj. kr. í hlutafé, í stað þess að nú skulda þeir 5millj. eða guð veit hvað. Þá gerðu þeir ekkert til þess að útvega olíu, en lofa því fyrst nú. Nema setning Ó. Th. í bankaráðið eigi að tryggja honum svo sem eina millj. kr. að láni í viðbót til olíukaupa.

Mun ég þá snúa mér að fisksölunmálum, þar sem tími minn er naumur, en ég verð að skýra nokkuð afstöðu fiskimálanefndar til Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda (S. Í. F.).

Í þessu sambandi vil ég einnig athuga dálítið. hvernig ástandið mundi vera í landinu, ef farið hefði verið að ráðum Sjálfstfl. og engin fiskimálanefnd verið skipuð, en í þess stað samþ. frv. frá hv. þm. G.-K. um fiskiráð.

Aðalinnihald þess frv. var þetta:

1. gr. Atvmrh. skipar í manna n., er nefnist fiskiráð. Skipar ráðh. form. n., en Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda, Félag íslenzkra atvinnurekenda, Alþýðusamband Íslands, Verzlunarráð Íslands, Samlag íslenzkra matjessíldarframleiðenda og Fiskifélag Íslands tilnefna sínu manninn hvert.

2. gr. Verkefni fiskiráðsins er að gera till. um breyttar og nýjar aðferðir um framleiðslu og sölu sjávarafurða, útvegun nýrra markaða og annað, sem lýtur að vexti og viðgangi sjávarútvegsins.

3. gr. Fiskiráðið á að senda atvmrh. og þeim aðiljum, er hlut eiga að máli, skýrslu um niðurstöðu rannsókna sinna og þær till., sem það svo gerir, og gera það sem í þess valdi stendur, til þess, að fá aðilja til að framkvæma till. Einnig á ráðið að senda ráðh. skýrslu um starfsemi sína eigi sjaldnar en á 6 mánaða fresti.

4. Kostnaður af störfum fiskiráðsins greiðist úr verðjöfnunar- og markaðsleitarsjóði fiskútflytjenda, eftir úrskurði ráðh.

Verkefni fiskiráðsins samkv. þessu frv. er því aðeins að safna skýrslum og gera till. Annað átti það ekki að gera, og hafði því ekki vald til nokkurra framkvæmda. En 1. um fiskimálanefnd eru reist á þeirri skoðun, að fiskimálunum hafi ekki verið vel stjórnað, og nauðsyn þess að finna þar nýjar leiðir. Hefir þar þegur verið hafizt handa, t. d. með karfavinnslu í samvinnu við síldarverksmiðjurnar, harðfisksverkun og herzlu ufsa. Eins og menn vita, gerði hv. þm. G.-K. lítið úr harðfiskinum og faldi, að það væri verið að breyta góðri vöru í verri. En þetta stafur aðeins af hans vanþekkingu. Norðmenn halda áfram herzlu fiskjar og telja markað fyrir hann eins góðan og á saltfiskinum. Í fyrra mun það hafa valdið nokkru um, hvað menn hertu lítið, að sumir trúðu enn á forystu Sjálfstfl. og fleipur Ólafs Thors, en þó aðallega, hve lítið var til af trönum. Það, sem hert var, seldist fyrir sæmilegt verð.

Þann stutta tíma, sem fiskimálanefnd er búin að starfa, hefir hún gert tilraunir með frystan fisk til Mið-Evrópu, og nú síðast með Steadyfarminn til Ameríku. Auk þess er nú byrjað að rannsaka möguleika fyrir hákarlaveiðum. Í þessum málum hefði fiskiráðið eða S. Í. F. ekkert gert.

Viðvíkjandi sendingu Steady-farmsins til Ameríku vil ég segja það, að við Kristján Einarsson var ekki talað eitt orð um að leita umboða fyrir frystan fisk fyrir hönd fiskimálanefndar sem ein hafði þó með þann fisk að gera. Það kom því n. mjög á óvart, þegar það upplýstist að hann er búinn að gefa mönnum vestra umboð fyrir fisk, sem S. Í. F. hefir ekkert leyfi til að verzla með. Það hefir einungis löggildingu til þess að verzla með saltfisk. Þó er einna undurlegast, þegar athuguð er aðferð Kristjáns Einarssonar við val á umboðsmönnum.

Um ferðalag Kr. E. til Kúbu er ókunnugt. En sá maður í New-York, sem hann gerir að aðalumboðsmanni fyrir Ameríku, var í 2 ár umboðsmaður síldareinkasölunnar án þess að finna nokkurn síldarmarkað. Þessi maður mun aldrei hafa selt fisk, a. m. k. ekki frystan. Þá finnur hann og gerir að umboðsmanni í Boston bróður manns, sem hafði skrifað S. Í. F., en aldrei verið svarað, því þar var aldrei skipt svo verkum, að hægt væri að vita, hver ætti að svara bréfum.

Síðan finnur Kr. E. tvo Íslendinga, sem hann gerir að einhverskonar undirumboðsmönnum í New-York. Svo þegar Kr. E. kemur heim og á að fara að segja fyrir um útbúnað og sendingu fiskjarins, er tvennt, sem hann segir vitlaust fyrir um. Annað er það, að hann notar vitlausan pappír, en kennir því svo um, að hann hafi ekki verið til. En það hefði átt að vera nægur tími til þess að útvega pappírinn, þar sem Kr. E. er búinn að vera 2 mánuði í landi, áður en farið er að frysta fiskinn, og því var ástæðan aðeins sú, að hann hafði ekki kynnt sér málið nógu vel.

Hitt atriðið var það, að hann skýrði ekki frá því, að svo er mælt fyrir, að merkja skuli á hvern kassa, að í þeim séu íslenzkar afurðir. Sé það ekki gert, getur það kostað 10 kr. refsitoll á hvern kassa. En þessu var bjargað við vegna þess, að Sigurður Jónasson var þar fyrir, þegar skipið kom.

Þegar svo Kr. E. kemur heim, neitar S. Í. F. allri samvinnu við fiskimálanefnd, en mun hafa ætlað að annast freðfiskssöluna sjálft. Og í stað þess að snúa sér með þetta til fiskimálanefndar. fer hann í einn starfsmann hennar og segir honum að frysta fiskinn fyrir S. Í. F., og starfsmanninum datt ekki í hug annað en fyrir því væri leyfi fiskimálanefndar. Þetta er meiri ósvífni en hægt er að lýsa. Þar er ofurkappið og metnaðurinn svo mikill, að ekkert hóf er á, og það jafnvel svo, að haft er í hótunum um að senda fiskinn, hvað sem líður landslögum.

Það, sem fiskimálanefnd segir er þetta: Úr því að við erum byrjaðir á því að vinna nýja markaði, viljum við halda því áfram, en ekki láta kasta því í okkur eftir á, þegar búið er að eyðileggja möguleikana.

Þá var skýrt svo frá, að búið væri að selja allan Steady-farminn fyrirfram. En það reyndist svo, að að nafninu til voru seld 40 tn. Að öðru leyti var kaupunum riftað vegna þess, að Kr. E. hafði gert ráð fyrir, að fiskurinn kæmi vestur í marzbyrjun, sem allir vissu, að ekki gat orðið, þar sem ekki var hægt að byrja frystingu fyrr en í marzbyrjun. Svo þegar kemur til fiskimálanefndar, segir hún, að skipið geti ekki komið vestur fyrr en 16.–20. marz. Þá símar Kr. E., að skipið komi 15.–20. marz. Svo þegar Steady kemur vestur um 20. marz, þá er svo fjarri því, að fiskurinn sé seldur, að þessi umboðsmaður, sem aldrei hafði selt frystan fisk, neitaði að taka við honum. Það er því svo fjarri, að umboðsmaður S. Í. F. seldi fiskinu, að það var einmitt Sigurður Jónasson, sem seldi hann, og það fyrir hærra verð, með því að fara til kaupendanna sjálfra.

Þetta er nú öll frægðarförin sem íhaldið er að dýrðast yfir og svo er verið að halda því fram, að þessir menn hafi unnið einhver stór afrek fyrir fiskmarkaðinn. Það má því segja, að fátt hafi verið nauðsynlegra en senda mann vestur til þess að athuga söluhorfur og sjá um, að ekki yrðu eingöngu notaðir sem umboðsmenn þeir, sem aldrei hafa við freðfisksölu fengizt. Enda er nú þegar búið að fá ágæt sambönd.

Eftir að S. Í. F. er búið að gera út í þessa frægðarför, heimtar það svo að fá að selja allan fiskinn.

Þá er verið að segja, að fiskimálanefnd gangi illa að selja. En hvernig gengur salan á saltfiskinum hjá S. Í. F.? Er ekki útistandandi og innifrosið hjá því á 4. millj. kr., án þess nokkuð sé um það talað? Þetta stafar af ýmsum óviðráðanlegum ástæðum, þó stj. hafi reynt að greiða fram úr því eftir því sem hún hefir getað. Ef rifja ætti upp, hvernig haldið hefir verið á fisksölumálunum á undanförnum árum, mundi margur spyrja: Hvernig stendur á því, að þeir fundu ekki markaðinn í Suður-Ameríku fyrr en á þessu ári? Og hvernig stendur á því, að þeir fundu ekki harðfisksmarkaðinn, þegar bezti harðfiskmarkaður heimsins var á Ítalíu rétt við nefið á þeim? Þó höfðu forgöngumenn fisksölunnar, a. m. k. á tímabili, nóga peninga. Að vísu mun freðfiskur einu sinni verið seldur til Barcelona, og tapast á honum ca. 500 þús. kr. Hvernig stóð á því, að þeim tilraunum var ekki haldið áfram? Það stafaði af því, að útgerðarmenn hafa tvennskonar ólíkra hagsmuna að gæta. Það eru aðallega mótorbátarnir, sem hafa hag af freðfisks- og harðfisksmarkaði, en þess njóta togararnir lítið, vegna þess að hjá þeim er veiðin langsóttari. Þess vegna var ekki hugsað um söluna.

Ég vil benda á út frá því, að verið er að tala um S. Í. F. sem stórveldi, að hér eru til tvö önnur sambönd, Alþýðusambandið með yfir 12 þús. félaga og S. Í. S. með fleiri þús. félaga. En hverjir eru það svo, sem stjórna S. Í. F.? Það sást vel á nýafstöðnum fundi þess. Þar fóru skrifstofumenn hjá Kveldúlfi, Alliance (Kr. Einarssyni) og Ólafi Proppé með á annað hundr. atkv., og með atkv. togaranna skapaði það yfirgnæfandi meiri hl. á fundinum. Það er því auðséð, hverjir ráða framkvæmdunum. En útgerðarmálunum ætti að vera stjórnað af sjómönnum og verkamönnum sjálfum með hag allrar alþýðu, sem af atvinnurekstrinum lifir, fyrir augum, en ekki af þeim mönnum, sem flestar millj. haft fengið að láni úr bönkunum.