06.04.1936
Efri deild: 44. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

102. mál, alþýðutryggingar

Magnús Guðmundsson:

Ég tek það fram, að ég tel frv. þetta réttmætt, og mun ég greiða atkv. með því. — Ég tók það fram í fyrra, að þessi gr. um lífeyrissjóð barnakennara og embættismanna væri óviðunandi. Mér skildist þá á hæstv. atvmrh., að hann ætlaði fyrir næsta þing að undirbúa og flytja brtt. um þetta, því að auðvitað er, að sú aðferð, sem ráðgerð er í l., er með öllu ófær. Embættismenn og barnakennarar hafa síðan 1929 safnað fé í sjóð með allþungum árlegum skatt á tekjur sínar, og svo á nú með einu pennastriki að fara að gera þessa sjóðsstofnun lítils virði með því að framselja hana annari stofnun. Þessi sjóður embættismanna mun nú vera orðinn um 1½ millj. kr., og er það eingöngu skattur af launum þessara manna, að undanteknum 50 þús. kr., sem ríkið lagði til sjóðsins í byrjun. Svo á að fara að taka þennan sjóð og láta hana renna inn í almennan ellitryggingarsjóð, sjóð, sem gefur miklu minna af sér en þessi sjóður gefur nú, eftir þeim reglum, sem um hann gilda. Ég get ekki ímyndað mér, að hæstv. ráðh. þurfi að spyrja þá menn, sem hér eiga hlut að máli um vilja þeirra, að hann þurfi að spyrja þá, hvort þeir vilji láta taka af sér sjóð, sem þeir hafa stofnað sér með miklu erfiði og þungum álögum.

Ég skil, að það muni liggja á að samþ. þetta frv., því að hætta er á því, að þeir menn, sem vantar fé og ekki eru komnir yfir aldurstakmarkið heimti aftur peninga þá, er þeir hafa lagt í sjóðinn, og er þá sjóðurinn ekki undir það búinn að inna af hendi allt það fé. Nokkrir hafa nú þegar farið fram á endurgreiðslu. Getur það stundum verið allmikið fé, sem menn eiga þannig inni, einkum ef þeir hafa lagt í sjóðinn allt frá 1920. Menn vilja margir gjarna fá peningana, jafnvel þó að þeir svipti sig með því ellitryggingum. En ég er á því, að það sé nokkuð stuttur frestur til 1. apríl, ef þing kemur saman 15. febr., og hefði verið varlegra að hafa frestinn nokkru lengri, t. d. til 1. maí eða 1. júní

Mér skildist á hæstv. ráðh. í fyrra, að honum væri ljóst, að í frv. væri rangt að farið. Nú skilst mér hann ætla að fara að spyrja aðilja þessa máls um álit þeirra, spyrja þá, hvort sér leyfist að gera það, sem í sjálfu sér er rangt. Anars veit ég ekki, hvernig hæstv. ráðh. ætlar að spyrja t. d. embættismennina. Ég veit ekki, hvort þeir hafa með sér samskonar félagsskap og barnakennarar. Mér er ekki kunnugt um, að slíkur félagsskapur sé lengur til. Auk þess held ég ekki, að þörf sé að spyrja embættismenn um þetta, því að gefið er, að þegar búið er að stofna 1½ millj. kr. sjóð, þá vilja þeir ekki taka hann og skella honum inn í annan sjóð, sem gefur miklu minni tryggingu en hinn.

Annars sakna ég þess, að hæstv. ráðh. skuli ekki leggja til að breyta fleiri atriðum í þessum lögum, því að honum var í fyrra bent á ýms atriði, sem þörf væri á að breyta, en ekki fékkst breyting á, að því er sagt var af því að of áliðið væri þingsins. Ég benti honum t. d. á það, að ekki væri tiltekinn neinn gjalddagi á ellistyrktarsjóðsgjaldinu, og það, að þeir menn, sem eru á aldrinum 60–67 ára, njóti ekki ellistyrks samkv. þessum l. nema þeir séu örorka. Nú heyrði ég í Nd. í dag, að hæstv. ráðh. ætlaði að bjarga þessu með því að telja örorkumenn alla þá, sem komnir eru yfir sextugt. En það fer í bága við l., sem segja, að menn geti ekki fengið styrk vegna elli fyrr en þeir eru 67 ára gamlir, og það getur ekki verið af öðru en því, að menn hafi ekki verið álitnir óvinnufærir fyrr en þetta.

En af því að mér er ljóst, að ekki þýðir að ræða um frekari breytingar á l. að þessu sinni, lýsi ég hér með yfir því, að ég mun greiða atkv. með frv.