07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

1. mál, fjárlög 1937

*Þorsteinn Briem:

Herra forseti! Hæstv. forsrh. talaði um fjármálastjórn samsteypustjórnarinnar og sagði, að hún hefði verið með þeim endemum, að slíks væru engin dæmi.

Ég vil nú spyrja þau einu málsskjöl, sem geta sagt satt og rétt um þetta mál, og athuga það eina ár — 1933 —, sem hún sat að völdum. Við það eitt er hægt að miða, ef um þetta á að dæma óhlutdrægt. Hvernig verður svo svarið, ef við spyrjum þessi málsskjöl, sem eru fjárlög og landsreikningur fyrir árið 1933.

Ef við athugum landsreikninginn fyrir árið 1933, þá sýnir hann betri útkomu á rekstrarreikningi heldur en fjárlög fyrir það ár gera ráð fyrir. Á fjárlögunum er gert ráð fyrir að rekstrarhallinn verði 195 þús. kr., en landsreikningurinn sýnir 133 þús. kr. rekstrarhalla, eða 62 þús. kr. minni en gert er ráð fyrir á fjárlögum. M. ö. o. fjárhagsafkoman er 62 þús. krónum betri á landsreikningi heldur en gert er ráð fyrir á fjárlögum.

Ef við berum þetta svo saman við árið 1935, þá kemur það í ljós, að á árinu 1935 er útkoman á landsreikningi lakari heldur en gert er ráð fyrir á fjárlögum, og samt voru fjárlögin fyrir árið 1935 hæstu fjárlög, sem hér höfðu sézt, og þá fékk stj. 3 millj. kr. ágóða af vínsölu. —

Ég skal nú bera saman fjárlögin fyrir árið 1935 og það bráðabirgðaryfirlit, sem hæstv. fjmrh. hefir gefið um afkomu á því ári. Á fjárlögum fyrir árið 1935 var áætlaður rekstrarafgangur 650 þús. krónur, enda var þá búið að leggja á nýja skatta, sem námu mörgum millj. kr. Samkv. bráðabirgðayfirliti hæstv. fjmrh. er þessi tekjuafgangur ekki nema 500 þús. kr. þ. e. a. s.

150 þús. kr. minni en fjárlögin gera ráð fyrir, og má þó vænta þess að ekki bregði algerlega út frá þeirri venju, að landsreikningurinn sjálfur sýni meiri útgjöld heldur en hægt er að sýna á slíku bráðabirgðayfirliti. Það er sú viðtekna venja, sem varla verður útilokuð.

Hæstv. fjmrh. montaði af því í fyrra, að útgjöldin færu ekki fram úr áætlun,og á einum fundi, sem ég var á í fyrra, man ég eftir, að því var lýst yfir, að útgjöldin færu ekkert fram úr áætlun. Hann sagði, að það gæti verið, að þau færu svo sem 10 krónur fram úr áætlun. En hvernig fer? Samkvæmt bráðabirgðayfirliti hæstv. fjmrh. fara þau 2,2 millj. fram úr áætlun. Á árunum 1932–1935 fara þau ekki að meðaltali meira fram úr áætlun, þótt fjárlögin væru miklu lægri á þeim árum. Fjárlögin fyrir árið 1932 hljóðuðu upp á 10,5 millj., en útgjöldin urðu 12,3 millj. 1933 voru á fjárlögum áætluð 10,7 millj. kr. útgjöld en reyndust 13,6 millj. kr., og árið 1935 voru á fjárlögum 13,1 millj. kr., en útgjöldin urðu 15,3 millj. krónur samkvæmt því bráðabirgðayfirliti, sem hæstv. fjmrh. gaf, og geta væntanlega ekki lækkað frá því.

Hæstv. forsrh. þurfti, eins og vant er, að monta af einhverju, en þegar hann var að svara hv. þm. A.-Húnv., þá fann hann ekkert annað til að monta af en það, að hann hefði veitt styrk til frystihúsa. Hann hefir þá gleymt að það var ekki hann, sem veitti hann. Það var gert í minni tíð, og þessi styrkur nam um ½ millj. kr.

Kreppuhjálpin, sem lög voru sett um í tíð samsteypustjórnarinnar, nam alls 14 millj. kr., og það eru ekki dæmi til þess hér, að á einu ári hafi jafnmikið fé verið veitt til landbúnaðarins eins og árið 1933 af samsteypustjórninni, og engin stjórn hefir enn getað borið sig saman við hana um það efni.

Hæstv. forsrh. þorði ekki að tala um loforð framsóknarmanna um hagnað á mjólkursölunni. Hann þorði ekki að segja, að viss hluti bænda hefði tapað 105 þús. kr. og annar hluti þeirra grætt 75 þús. kr. Hann hefir þar með viðurkennt það sem ég sagði að árangur mjólkursölulaganna hefir orðið tilfærsla á verði á milli bænda, en ekki ágóði í heild.

Um brauðbúðir sósíalista hrakti hann ekkert af því, sem ég sagði í þeirri skýrslu, sem ég gaf og sem var fyrir 3 mánuði ágúst–október 1935, en hann kom með skýrslu frá yfirstandandi ári, sem ekkert tekur til þeirrar skýrslu sem ég gaf.

Um kjötið sannaði ég að bændur hefðu ekki haft neinn hagnað af kjötsölulögum. nema verðjöfnunarsjóðsgjaldið. Aðrar þær tölur, sem t. d. hv. 2. þm. N.-M. hefir verið með, eru villandi.

Ég hefi áður sýnt það að í mjólkurlögunum gömlu var farið eftir till. frá ráðamönnum tveggja stærstu mjólkurbúanna, og þarf ég ekki að bæta neinu við það.

Hæstv. forsrh. þorði ekki að fara út í það, sem ég sagði um það, hve dagsverkin í vega- og brúargerðum hefðu verið miklu færri á árinu 1935 heldur en 1933. Hann álasaði mér fyrir að ég sagði, að ég hefði samkvæmt heimild tekið lán til vega- og brúargerða, en það kom einkum til góðs fyrir Austfirði að opnaður var bílvegur

héðan austu til Seyðisfjarðar og Reyðarfjarðar. Hann ásakaði mig fyrir þessa hjálp við Austfirðinga og fyrir hjálp við Rangvellinga með brýr á Þverá og Markarfljót, en það eru einmitt þessar brýr, sem hv. þm. S.-Þ. hefir verið að hæla Páli Zóphóníassyni og Sveinbirni Högnasyni fyrir, svo mér sýnist, að hæstv. ráðh. ætti að hætta að álasa mér fyrir þær.

Sama má segja um Árnessýslu, hún hefir líka haft mjög gott af þessu láni.

Þá vitnaði hæstv. forsrh. í gerðabók Framsfl. og sagði, að þar væri engin ályktun um gengismálið bókuð. En það er hægt að kynnu sér hug manna á annan veg en með því að lesa ályktanir í gerðabókum.

Hæstv. forsrh. sagði, að við bændaflokksmenn værum pólitískt dauðir. Hann hefir nú sagt það í 2 ár, að Bændafl. væri dauður, en hann lifir nú samt, og hann heldur áfram að vaxa og dafna, og hann yfirvinnur Framsfl. Framsóknarmenn eru líka alltaf með lífið í lúkunum út af því að Bændafl. er að vaxa, Framsfl. þjáist af stöðugri pólitískri móðursýki, þegar hann hugsar til Bændafl. Tíminn spann langan lopa út af því, að hv. þm. V.-Húnv. hefði sézt á tali við hv. 4. landsk. og jafnvel við hv. 2. þm. Reykv. En nú nýlega hefir hann fengið annað umræðuefni. Það spratt af því, að hv. þm. V.-Húnv. háði hér nokkra orðasennu við þá bræður, hv. þm. Snæf. og hv. þm. G.-K. Hv. þm. V.-Húnv. hélt allfast á sínu máli eins og hann er vanur, og vildu þeir þá vega að honum með því vopninu, sem þeir hugðu þá í svipinn, að bezt mundi bita, og báru það fram, að nokkrir sjálfstæðismenn mundu hafa veitt honum fylgi við síðustu kosningar og að hann ætti það þeim að þakka, að hann hefði náð kosningu. En hv. þm. V.-Húnv. á það ekki Sjálfstfl. að þakka, að hann var kosinn, fremur en hann á það Framsfl. að þakka. hve margir framsóknarmenn kusu hann, þeir kusu hann af því, að þeir vildu fylgja Bændafl. Tímaflokkurinn er að sjá það, að sífellt fleiri og fleiri hallast að Bændafl., því hann heldur fram þeirri gömlu stefnu Framsfl., sem flestir hinir svo kölluðu framsóknarmenn eru nú frá gengnir og orðnir annaðhvort sósíalistar eða kommúnistar. Margir falla líka frá Framsfl. af því, að hann hefir hv. þm. S.-Þ. innanborðs, og á meðan ekki var til annar sveitaflokkur en sá, sem hýsti hv. þm. S.-Þ., þá þóttust þeir menn hvergi geta verið annarsstaðar en í Sjálfstfl. En strax og risinn. var upp jónasarlaus Framsfl. — þ. e. Bændafl., sem ekki vildi láta sósíalista og kommúnista knésetja sig, þá vildu þessir menn ganga í hann og styðja hann, og úr hópi þessara manna kom Bændafl. mjög mikið fylgi til viðbótar við það aðalfylgi, sem hann hefir og komið er úr gamla Framsfl., sem fögnuðu því þegar þeir sáu að gamli flokkurinn þeirra var orðinu fylgihnöttur annars flokks, að þá skyldi rísa upp nýr Bændafl. Flokkur, sem vildi halda gömlu stefnunni og ekki léti hafa sig að leiksoppi af sósíalistum eða rússneskum ráðstjórnarflukkum. Þeir voru margir, sem fögnuðu því, að það reis upp flokkur, sem þorir að berjast til beggja handa og fylgja góðum málum, hvaðan sem þau koma. Flokkur, sem vill, að bændur dreifi ekki kröftum sínum heldur snúi saman bökum í sameiginlegri sókn og vörn, og þessum flokki eykst sífellt lið. Menn koma frá hægri og fá vinstri og safnast undir merki hans því þeir finna, að gömlu flokkarnir eru búnir að lifa sitt fegursta, og þá fyrst og fremst Framsfl., sem nú siglir í kjölfar sósíalista og kommúnista með hv. þm. S.-Þ. við hún. Þessi götótti gunnfáni segir illa til litarins, enda er sagt, að það sé heppilegast að flagga honum ekki ofar en í hálfa stöng.