04.03.1936
Efri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

19. mál, eyðing svartbaks

*Frsm. (Þorsteinn Briem):

Allshn. er á einu máli um það, að þau l., sem nú eru í gildi til verndar æðarvarpi fyrir ágangi og eyðileggingu, sem því stafar af svartbaknum eða veiðibjöllunni, séu algerlega ófullnægjandi. Það eru lagaákvæði frá 1892, sem gilda aðeins fyrir eitt hérað, eða sveitirnar kringum Breiðafjörð, og ná einungis til þess, að jarðarábúendum sé skylt að eyða svartbakseggjum í landi sínu, og, þó ekki nema þeir, sem varplönd eiga eða búa ekki fjær en í mílufjarlægð frá friðlýstu varplandi. Nú er vitað, að svartbakurinn verpir uppi í háfjöllum, þar sem mönnum er eigi fært að komast að hreiðri hans, og verður því eigi, þótt öll alúð sé við lögð, vargfugli þessum eytt með því einu að spilla eggjum hans. Þetta hefir reynslan sýnt, og þess vegna hefir ekki á seinni árum verið lögð alúð við að eyða honum á þennan hátt. Þess vegna var allshn. fylgjandi því frv., sem hv. þm. Dal. bar fram á síðasta þingi, og því fremur er n. því fylgjandi nú, þegar af því hafa verið sniðnir þeir aðalagnúar, sem þá þóttu á því, og er þar átt við ákvæði um að eyða þessari vargfuglstegund með eitrun. Allshn. gerði þá tilraun til að gera þau ákvæði mildari, en sá sér ekki fært að fella úr frv. öll ákvæði í þá átt, en nú hefir hv. flm. sjálfur fellt þau úr frv., og er n. sammála um, að frv. sé mannúðlegra í því formi, sem það nú hefir, og líklegra til framgangs. — Aðalbreyt. á því frv., sem nú liggur fyrir, og því, sem fram var borið á síðasta þingi, er í því fólgin, að öll ákvæði um að eyða þessari vargfuglstegund með eitrun eru felld burtu. Fyrst og fremst aðalákvæðið úr 1. gr., og svo þau ákv. 3. gr. og 5. gr., sem að því lutu. Jafnframt þessu eru nokkrar aðrar breyt. gerðar á frv., sérstaklega á 4. gr., þar sem talað er um skotmannalaun; er þeim hér hagað á annan hátt heldur en var í frv. því, sem hér lá fyrir á síðasta þingi og þá var afgr. frá þessari hv. d. Þá var gert ráð fyrir, að sýslusjóðir, sveitarsjóðir og ríkissjóður greiddu hver um sig 13 hluta, en nú er ætlazt til, að ríkissjóður greiði skotmannalaunin að hálfu, en sýslusjóðir og sveitarsjóðir ¼ hvor. Jafnframt er hámarksgreiðsla úr ríkissjóði hækkuð um helming, eða úr l0 aurum upp í 20 aura. Jafnvel þótt þessi breyt. sé nokkur útgjaldaauki fyrir ríkissjóð, þá er n. sammála um, að þetta séu svo mikilsverð lög, og svo arðvænlegur atvinnuvegur sé hér í veði, að þessi breyt. stefni í rétta átt. Þá hefir sú breyt. verið gerð á frv. frá því á síðasta þingi, að sektarákvæði 6. gr. hafa verið hækkuð, og í stað þess að þá var gert ráð fyrir, að sektirnar væru 20–200 krónur, er nú gert ráð fyrir, að þær verði 50–300 kr., og ákvæðin um eyðingu svartbakseggja eru sömuleiðis fyllri og víðtækari. Ennfremur er smávægileg breyt. á 7. gr. frá því, sem áður var. var þar svo til ætlazt, að sektarfé rynni að hálfu til uppljóstrunarmanns, en að hálfu til sveitarsjóðs. En í þessu frv. er svo fyrir mælt, að 2/3 renni til uppljóstrunarmanns og 1/3 til sveitarsjóðs.

N. hefir orðið sammála um það, að frv. athuguðu, að mæla með því, að það verði samþ. óbreytt.