06.03.1936
Efri deild: 17. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

19. mál, eyðing svartbaks

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég verð að segja, að þessi síðasta brtt., sem kom fram frá hæstv. fjmrh., kom mjög flatt upp á mig. Eins og tekið hefir verið fram í fyrri umr., þá er hér verið að bjarga atvinnuvegi, sem er kominn á fallanda fót vegna ásóknar af vargfugli. Hann er kominn svo, að það er víða ekki nema hálf dúntekja á við það, sem áður var, og einmitt vegna þess, hvað nú er orðið erfitt fyrir dúnframleiðendur, þá er nauðsynlegt að fá styrk frá því opinbera til aðstoðar við eyðingu þessa vargs, sem ásækir varpið. Í fyrra frv., sem ég flutti á síðasta þingi, þá var ætlazt til þess, að notað væri eitur, sem er miklu kostnaðarminna og gengur fljótlegar að varginum með því, og ef það útrýmingarmeðal væri notað, þá þyrfti ríkissjóður ekki að borga neitt fyrir þann fugl, sem þannig væri drepinn. Nú kom fram andúð gegn þessu útrýmingarmeðali, og þar sem andúð kom fram hér á þinginu gegn því að nota það meðal, sem er hagkvæmast, þá finnst mér rétt, þegar krafizt er sérstakra aðferða, að löggjafarvaldið styðji með dálitlu fjárframlagi að því að ryðja þessum vargi úr vegi. En með þessari brtt. er gjaldinu öllu smellt á sýslu- og hreppssjóðina. Ég verð að segja, að það getur verið virðingarvert af hæstv. fjmrh. að hugsa um ríkissjóðinn einan, en það er líka athugavert að pína bæði sýslu- og hreppssjóðina. Það hefir verið venja, að þegar sérstök héruð hafa orðið fyrir skakkaföllum, þá hefir landið allt hlaupið undir bagga til þess að hjálpa, en hér er héruðunum sjálfum ætlað að berjast einum móti þessum vargi. Og þetta verður dýrara, ef á, eins og leit út fyrir í vetur og ef til vill er á uppsiglingu núna, að takmarka vopnaburð manna. Það verða þá kannske eingöngu útvaldir stjórnarmenn, sem mega hafa þessi vopn, og verður þetta þá dýrara, ef þarf að ráða þá sérstaklega til þessa starfs. Þegar þetta er svona takmarkað á alla lund, þá finnst mér það ekki að ástæðulausu, að ríkið leggi dálítið til útrýmingarinnar, enda leit hv. allshn. sanngjarnlega og réttilega á þetta mál, og var hún sammála um, að þetta gjald skyldi vera, og geri ég ráð fyrir, og veit það líka fyrirfram, að hún muni ekki hvika frá því. Ég þarf ekki að eyða orðum að því að sýna, að það er eins og ríkið megi ekki styðja neitt nema það, sem kemur til góða vissum sýslum, og þá helzt Múlasýslum. (Fjmrh.: En hvernig er það með Dalasýslu?). Það var gott, að hæstv. ráðh. minntist á Dalasýslu, því ég verð að segja það, að ef hæstv. ráðh. hefir lagt sína köldu hönd á nokkra sýslu, þá er það sú sýsla. Það má í því sambandi fyrst nefna fé til vega, sem ekki var 6. hluti af fé því, er veita átti eftir till. vegamálastjóra til vegaframkvæmda, og nú þegar farið er fram i, að hún ásamt nokkrum öðrum héruðum fái dálítinn styrk til þess að verjast hinum fiðraða tvífætling, þá fær hún ekki hinn minnsta styrk.