06.03.1936
Efri deild: 17. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

19. mál, eyðing svartbaks

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég ætla ekki að lengja mikið umr. um þetta mál. En með því að hæstv. ráðh. var með almennum orðum að beina því að mér, að ég hafi verið skeleggur í fjvn. í því að eyða, en ekki í því að spara, þá verð ég að vísa þessu algerlega frá mér, nema þá að reynt sé að færa einhver rök fyrir því. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi ekki haft það til mín að segja í samvinnunni á síðasta þingi í fjvn., að ég tæki ekki þeim sparnaðartill., sem fram komu, og reyndi að stuðla að því að spara á fjárl. eftir því, sem hægt var, allt fram að þeim tíma, að hinir stóru skattar komu fram, og þegar maður sá, að ekki varð við neitt ráðið, þá sleppti maður taumhaldinu og hætti að skipta sér af því, hvort sparað var eða ekki. Ég vil fá að heyra það, hvort hæstv. ráðh. hefir verið að beina því til mín persónulega, að ég hafi verið einn af eyðsluseggjunum í fjvn. Ég kannast alls ekki við það. En eins og ég hefi haldið fram, þá finnst mér sanngjarnt, þegar einhver hnekkur kemur fyrir sérstök héruð, að þá hlaupi ríkið undir bagga. Það hefir gert það áður, þar sem sérstök héruð hafa orðið fyrir skakkaföllum, eins og var þegar jarðskjálfta- og ofviðrisskemmdirnar urðu fyrir norðan. Og þó að þetta sé ekki samskonar. þá held ég, að það sé réttmætt, að ríkið leggi til nokkurn hluta at kostnaðinum við að útrýma þessum vargi. Það má auðvitað deila um, hvað mikill hluti það eigi að vera, en ég tel sjálfsagt, að ríkissjóður láti einhvern hluta af hendi, og það því fremur sem það var samþ. á síðasta þingi í þessari hv. d., og vænti ég, að það verði einnig gert nú.