26.03.1936
Neðri deild: 34. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

19. mál, eyðing svartbaks

Bjarni Ásgeirsson:

Ég sé nú, að vargfuglinn hefir fengið virðulegan verjanda, þar sem hv. 8. landsk. er, og er hann víst þar í samræmi við meiri hl. allshn. En ég er hræddur um, að hvernig sem á það er litið, þá hafi þeir valið sér vafasaman málstað. Aðaltilgangurinn með þessu frv. er vitanlega sá, að reyna að útrýma þessum versta vágesti okkar skemmtilegasta og þjóðlegasta atvinnuvegar, æðarvarpsins. Æðardúnninn er einhver tryggasta útflutningsvara þjóðarinnur. — Það er því gróði fyrir okkur, ef við getum aukið varplöndin í landinu og fengið þar með ætíð vissan gjaldeyri fyrir þessa vörutegund. Það er víst, að þó að við gætum aukið svartbakinn, sem væri auðvitað einstökum mönnum til hagsbóta, þá verður hann aldrei útflutningsvara. Hv. þm. lagði mikla áherzlu á það, að þær aðferðir við útrýmingu veiðibjöllunnar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, væru ómannúðlegar. Það má kannske segja, að það sé yfirleiti ómannúðlegt að útrýma hvaða lifandi kvikindi, sem er, sérstaklega þeim, sem hafa heitt blóð. En ég veit ekki betur en það sé óhikað beitt eitrun við rottuna, og ég efast um, að hún sé tilfinningaminni heldur en svartbakur, og þó að frsm. þyki hún ógeðsleg, þá efast ég um, að mér þyki hún ógeðslegri en svartbakur. — Ég skal svo snúa mér að einstökum brtt. n. — 1. brtt. er um að banna að eyða svartbakinum um varptímann. Nú er það vitað, að svartbakurinn verpir um líkt leyti og æðarfuglinn, og það er einmitt um varptímann, sem svartbakurinn gerir mestan usla, því þá þarf hann mesta fæðu, þegar hann er að koma ungunum upp. Mér þykir því skörin fara að færast upp bekkinn, ef ætlazt er til, að menn horfi á það þegjandi, að hann rífi í sig unglömb og æðarfugl, án þess að mega senda honum kúlu. Mér finnst að ef ekki á á annað borð að snúa þessu frv. upp í friðunarfrv. fyrir svartbakinn, þá sé leyft að eyða honum á öllum tíma árs, og ekki sízt á þeim tíma, sem hann er aðgangsharðastur. Um eitrunina skal ég taka það fram, að ég vil láta mönnum vera heimilt að eitra, ef þeir skoða það nauðsynlegt og hagkvæmt. Ég álít ekkert meiri hættu á að eitra fyrir svartbak heldur en fyrir t. d. refi. Ef á að banna að eitra fyrir svartbak, álít ég réttast að banna að eitra fyrir hvaða skepnu sem er. Það en enginn mælikvarði á aðferðina í mínum augum, hvort dýrið er minna eða stærra. Svartbakurinn á ekkert meiri tilverurétt heldur en lúsin, þó hann sé stærri. Hv. þm. var að tala um, að af því gæti stafað hætta mönnum og skepnum, ef eitrað væri fyrir veiðibjöllur. Það mun vera venja, að þegar eitrað er, þá er það auglýst á viðkomandi stöðum og varað við að hirða þessar skepnur. Ég geri ráð fyrir, að ef eitrað væri fyrir þessa fugla, yrði það gert í útskerjum eða eyjum, þar sem önnur dýr komast ekki að því. Ég vil leyfa mér sem gamall varpmaður og kunningi veiðibjöllunnar, og svo sem dýravinur, með tilliti til, hversu svartbakurinn er mikill vargur fyrir önnur dýr, að leggja til, að brtt. n. verði felldar og frv. samþ. óbreytt.