26.03.1936
Neðri deild: 34. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

19. mál, eyðing svartbaks

*Sigurður Einarsson:

Hv. 8. landsk. eyddi miklum hluta af þessari ræðu sinni til að tala gegn því, að eitrað yrði fyrir svartbak, enda þótt það sé hvergi fyrirskipað í frv. eins og það liggur fyrir. Talaði hann fastlega móti þessari aðferð, enda þótt alls ekki sé gert ráð fyrir, að hún skuli notuð. Og svo mikil hefir umhyggjusemi hv. allshn. verið fyrir þessum fugli, að hún vill beinlínis banna þessa aðferð, og hún vill ganga lengra, því hún vill banna að drepa svartbakinn um varptímann, sem þýðir sama sem að friða hann næstum algerlega.

Ræða hv. 8. landsk. verkaði á mig eins og hún væri flutt frá fagurfræðilegu sjónarmiði, en frá sjónarmiði bændanna, sem búa á varplöndum, er ekkert fagurfræðilegt í þessu atriði, heldur hagsmunaleg þýðing. Frv. þetta er flutt fyrir áskoranir fjölda bænda. Mér er kunnugt um, að fjöldi bænda við norðanverðan Breiðafjörð telur sjálfsagt að drepa þennan fugl, vegna þess hvílíkt tjón hann bakar á varpi þeirra í eyjunum. Og ég get fullvissað hv. allshn. um, að þessir bændur bera eins vel skyn á að gæta sinna þörfu húsdýra, hunda og katta, og hv. allshn., þegar hún situr hér í sínu herbergi og ræðir þessi mál. Og eins og hv. þm. Mýr. tók fram, þá eru margir staðir í varplöndum þeirra, þar sem hægt er að koma fyrir eitrinu án þess að skaði hljótist af fyrir önnur dýr. Ég hefi því leyft mér að bera fram brtt. við brtt. n., 1. lið, þar sem ég er því andvígur að þessi fugl sé friðaður um varptímann, og það eru í sjálfu sér ákaflega léttvæg rök gegn þessu frv. að velta vöngum yfir þeirri hrellanlegu meðferð, sem svartbakurinn eigi að sæta, því eins og færð hafa verið rök fyrir, er hann hreinasta morðvél á alla minni fugla. Ég veit ekki, hvað er satt í því, sem hv. frsm. allshn. sagði, að hann geti grandað 2 þús. æðarfuglaungum, en bændurnir við Breiðafjörð hafa sagt mér, að þegar æðarkollurnar koma með unga sína á flot veikburða og varnarlitla, þá komi svartbakurinn, hvolfi sér yfir hópinn og bókstaflega tíni þá upp, svo að til algerðrar auðnar horfir í varplöndunum.

Eins og menn vita, er ákaflega örðugt að byggja þessar eyjar, sem sumar hverjar eru í byggð, en það, sem gerir þær byggilegar, eru hlunnindin, dúntekja og selveiði, og ef þessi hlunnindi eru ekki vernduð, þá má gera ráð fyrir, að fólkið gefist upp við að búa þarna og flytjist burtu. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að ef hv. allshn. ætti þess kost að sjá og þekkja af reynslunni, hvernig svartbakurinn fer að herja varplöndin, þá mundi henni renna meir til rifja af því þetta eru nú viðkvæmir menn — þær þjáningar, sem svartbakurinn skapar öðrum fuglum, heldur en tortíming hans.

Það er alveg rétt, sem tekið hefir verið fram, að þó ekki sé hægt að mæla eitruninni bót, þá má nota hana við fleiri en eina dýrategund, en nú er hún notuð til útrýmingar dýrum, sem valda óþægindum; af því rotturnar angra Reykvíkinga, og allir, sem hér búa, telja þær til óþæginda, líka þeir Reykvíkingar í hv. allshn., sem standa að svartbaksfriðuninni, þá þykir þeim sjálfsagt að útrýma rottum með eitri en þó verður ekki við fljótlega athugun ljóst, hvort viðskilnaður rottunnar við þennan heim er kvalaminni en svartbaksins eftir sömu aðferð. En eins og Reykvíkingar líta á rotturnar, líta bændurnir á svartbakinn. Það má vel vera, að einstaka menn hafi tekjur af eggjum svartbaksins, en það mun hverfandi á móts við gagnið af æðarfuglinum, en það gagn vex ekki, og helzt ekki einu sinni við, ef ungviðið nær ekki að vaxa upp. Það hafa bændur og aðrir kunnugir menn sagt mér, að stórmunur sé á, hve nú er miklu minna af ungum fugli, geldfugli, en var fyrir fáum árum, og hafa þó engir harðindavetur verið undanfarið, svo fuglinn félli af þeim ástæðum. Ég vildi benda hv. d. á, að ég skoða það sem réttast og mannrænulegast að fella 1. brtt. hv. allshn., og ber að skoða mína till. sem varatill.

Ég vil líka benda á, að nokkrir bændur norður í Þingeyjarsýslu urðu fyrir því, að jarðir þeirra spilltust af flóðum, og þótti sjálfsagt að hjálpa þeim; þess vegna þykir hér undarlegt, ef ætti að fara að telja eftir að hjálpa bændum gegn svartbaknum.

Þá þótti hv. frsm. skrítið og vildi gera úr því gaman, að menn kæmu með svartbaksnef til ríkisféhirðis til að krefja verðlauna, en ég veit ekki betur en þeir hafi vandasamari störf með höndum en þetta og ekki haft orð á til gamans.