26.03.1936
Neðri deild: 34. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

19. mál, eyðing svartbaks

*Eiríkur Einarsson:

Ég skal ekki teygja úr þessum umræðum.

Því hefir verið lýst, og enda ætti það að vera á allra vitorði, hvílíkur vágestur svartbakurinn er og að hann gerir margfaldan skaða á við það litla gagn, sem hægt er að reikna einstaka mönnum af tilveru hans. Þess vegna er nauðsyn að útrýma þessum skaðræðisfugli, því það horfir til þjóðnytja, ef því yrði við komið. Annars var það ekki þetta, sem knúði mig til þess að láta álit mitt í ljós, heldur var það eitt fyrirkomulagsatriði í frv., sem gerir það vafasamt, hvort þessi ákvæði um útrýmingu fái notið sín eða ekki. Það er, að hér með þessu frv. er útrýmingar starfsemin gerð að heimild, þannig að sýslunefndum eða bæjarstjórnum er heimilað að gera samþykktir um útrýminguna eftir þeim aðferðum, sem frv. gerir ráð fyrir, og skal sú samþykki síðan fá staðfestingu ríkisstjórnar. — Nú skulum við segja, að þessi samþykkt hafi verið gerð í einu sýslufélagi sem er svartbaknum fjandsamlegt, en þá getur staðið svo á, að við hlið þess sé annað sýslufélag, sem ekkert skeytir um að gera slíka samþykkt. Við skulum t. d. taka héruð, þar sem stór á skilur á milli, eins og er um sýslumörk Árnes- og Rangárvallasýslu, og að samþykkt yrði gerð í Árnessýslu, en alls ekki í Rangárvallasýslu. Hver gæti orðið afleiðingin af því?

Ég held, að þegar farið yrði að iðka skothríð vegna verðlaunanna, þá gæti vel verið, að vel yrði tekið á móti fuglinum hinum megin af einstaka mönnum, sem e. t. v. hefði af honum einhverja gagnsemi, t. d. eggver. En það er alveg víst, að fugl þessi er ekki heyrnarlaus, né heldur það miklu heimskari en aðrir fuglar, að hann mundi flytja sig og fljúga þeim megin árinnar sem friðlýst væri. Svo er um allt líf, að það leitar friðar og öryggis fyrir þeim, er á það herja.

Ég játa fúslega, að ég er enginn sérfræðingur um lifnaðarháttu svartbaks, en ég vildi benda á þá hættu, sem mér finnst vera fyrir hendi, ef látið er ráðast, hvar þessar samþykktir eru gerðar, og gæti þá svo farið, að öll útrýming yrði handahóf. Svartbakurinn reikaði til undan skotunum, en kæmi aftur eftir 1–2 ár, líkt og fór þegar útrýma átti fjárkláðanum með allsherjar þrifaböðun, svo sem minnzt hefir verið á hér á stundum.

Ég ætla ekki að flytja neina brtt. um þetta, en vil að lokum segja það að hér gildir annaðhvort — eða, en ekkert kák, eins og sjást mun betur síðar, hvert stefnir, en allur er varinn góður. Ég mun svo láta frv. þetta afskiptalaust eða liggja milli hluta, en ef þetta ákvæði yrði fært í fastara horf af öðrum, þá mundi ég fúslega fylgja því.