27.03.1936
Neðri deild: 35. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

19. mál, eyðing svartbaks

*Guðbrandur Ísberg:

Það er að bera í bakkafullan lækinn að auka mikið við þær umr., sem hafa farið fram um þetta litla frv.

Frv. er kallað frv. til l. um eyðingu svartbaks, og er skýrt frá því í frv., í hvern hátt er ætlazt til, að honum sé eytt. Nú hefir hv. allshn. borið fram ýmsar brtt. við þetta frv., en einni brtt. hefir hún þó gleymt, og það er brtt. við fyrirsögn frv., því frá því að vera frv. til 1. um eyðingu svartbaks, hefir hv. allshn. nú með brtt. sínum komið því í það horf að verða frv. til l. um friðun svartbaks. Það er vitað, að þessi vargfugl er ekki drepinn á öðrum tíma en um varptímann, eða frá því snemma á vorin og fram í júnímánuð, það er mér kunnugt, því ég hefi átt heima þar, sem hann er.

Það hefir verið betri á það af öðrum hv. dm., hve nytsamur þessi fugl er, sem svartbakurinn einkum eyðir, og á annan skaða, sem svartbakurinn gerir, svo sem dráp unglamba og eyðileggingu á veiði, þ. e. a. s. eyðingu á ungviði lax og silungs. Nú er það till. hv. allshn. sérstaklega að banna að eyða svartbaki með eitrun, en frv. gefur ekkert tilefni til ákvæðis um þetta. Það er látið algerlega hlutlaust í þessu frv. Í því frv., sem um þetta efni var flutt á síðasta þingi, var farið fram á, að það mætti eyða honum með eitri, en nú hefir því ákvæði verið kippt í burtu, og þess vegna engin ástæða til að vera að rifja það upp á nokkurn hátt eða setja sérstakt ákvæði gegn því. Ég vil annars taka það fram, að ég get verið fylgjandi 2., 3. og 5. brtt. allshn., sem sé að hreppsnefnd ráði svartbaksskyttur, en ekki sýslumaður, og í öðru lagi, að sektirnar færist niður úr 50–500 kr. í 10–100 kr., og í þriðja lagi, að sektirnar renni til hlutaðeigandi sveitarsjóðs. Hinsvegar er ég því ekki samþykkur, að 6. gr. falli burt, sem skyldar menn til að eyða eggjum svartbaksins. Ef nokkuð á að verða ágengt í því að eyða þessum ránfugli, ætti sízt að amast við því, að eggjum hans sé eytt. Tæplega þarf að bera kvíðboga fyrir því, að þau kveljist svo mikið, að frá mannúðar sjónarmiði sé það ámælisvert. — Annars er ég hissa á því, að hv. allshn. skuli sjá sér það fært að taka svartbakinn svo upp á arma sína sem hún gerir með brtt. sínum. Það verður að viðurkennast, að samkvæmt óbreyttum l. er svartbakurinn friðlaus fugl allt árið vegna þess, hver vargur hann er. Það verður að draga þá ályktun út af afstöðu hv. alshn. til málsins, að hún hafi orðið fyrir svo sterkum utanaðkomandi áhrifum, að hún hafi ekki athugað málið nægilega vel. Það er líka vitað hvaðan þessi áhrif hafa komið. Svokallað Dýraverndunarfélag Íslands hefir ekki linnt látum með að nurla þessum ránfugli bót og fá hann friðaðan. Um þetta dýraverndunarfélag er að vísu ekki nema gott eitt að segja, að svo miklu leyti, sem það starfar samkvæmt skynsamlegu viti. En það hefir viljað brenna við, að í það hefir safnazt ýmislegt fólk, sem svo langt hefir gengið, að engu lífi mætti eyða, hversu mikill vargur sem það væri fyrir aðrar lífsverur. Þessar hysterísku konur hafa gert félaginu og starfsemi þess skaða — það gildir einu, hvort heldur þær klæðast í kvenmannsföt eða karlmanna — og þær hafa nú haft alveg furðuleg áhrif á hv. allshn.

Ég vil nú vænta þess, að hv. allshn. falli frá villu síns vegar og hætti að sporna við því, að svartbakurinn yrði drepinn á varptímanum, og bera þannig fram vörn fyrir þennan varg, sem lifir á lífum annara og vinnur tjón unglömbum, veiði og varpi. — Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég vænti þess, að brtt. hv. allshn., og þá sérstaklega sú fyrsta, verði felldar.