28.03.1936
Neðri deild: 36. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

19. mál, eyðing svartbaks

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Það er nú með hálfum huga, að ég stend upp til að tala í alvöru, eftir hina ágætu frammistöðu hv. frsm. allshn. — Mér skilst, að hv. þm. sé alveg sama, hvernig þetta mál veltist, eða það lítur svo út, ef dæma skal eftir því, hvernig hann talar, að hann vilji aðeins úr þessu máli gera glens eða halló. En það er of mikil alvara bak við ákvæði frv til þess, að gefið sé tilefni til að fara með eintómt glens eða gaman.

Ég skal þá víkja að þeirri brtt., sem helzt er ágreiningur um. Skal þess þá fyrst getið, að frv. þetta er komið gegnum Ed., og er komið í það horf, sem sú deild gat sætt sig við, og sem ég get ekki ímyndað mér annað en meiri hluti Nd. geti gengið inn á. Almenningur í ýmsum — og óhætt að segja langflestum — sveitum landsins fer fram á, að fugli þessum sé eytt, og mér skilst, að í rauninni séu allir þm. á einu máli um það, eu greini aðeins á um leiðir. Hv. allshn. hefir ekki aðgætt það, að með þessari brtt. setur hún svartbakinn heldur ofar öðrum fuglum. Ef fuglar eru ekki friðaðir þá er leyfilegt að drepa þá, en um svartbakinn áttu að gilda sterkari ákvæði; með frv. þessu var ætlazt til þess, að róttækum aðgerðum yrði beitt til útrýmingar honum, sem sé að hann yrði hvarvetna réttdræpur, sem sé, hann yrði skotinn, hvar sem væri, og notaðar yrðu aðrar aðferðir, sem samkomulag næðist um innan héraðs og ríkisstjórnin leyfði, eins og t. d. eitrun.

Brtt. allshn. eyða alveg þessum tilgangi. Þar er gengið út frá að banna að eyða honum um varptímann, þó ekki sé heppilegri tími til eyðingarinnar, og hættulegasti tími hvað snertir fjölgun fuglsins.

Hugsandi mönnum hlýtur að vera það ljóst, að ef fuglinn á að vera réttdræpur, eins og stendur í l. gr., og eins og allir virðast sammála um, þá er öfugur tilgangur í því ákvæði að friða bann um varptímann, enda fullar líkur til, að þá mundi þetta éta sig upp, ef honum yrði leyft að unga út, og getur því svo farið, að eyðingin yrði þá alls engin. Þess vegna tel ég, að 1. gr. frv. beri að samþ. eins og hún er og það verði að eyða fuglunum um varptímann, að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þetta ákvæði, en vík þá að því, að ég sé enga ástæðu til að undanþiggja svartbakinn því að verða drepinn með eitri, þar sem það er ekki heldur beinlínis ákveðið, að honum skuli eya með eitri. Menn hneykslast dálítið á þessu, og þó sérstaklega þeir, sem teljast í dýraverndunarfélaginu og hv. allshn., þó að amtmanninum undanteknum, þ. e. þeim hv. þm., sem hefir lýst öðru yfir, — en eins og bent hefir verið á þá er eitrað í húsum inni fyrir rottur, og stafar af því hætta fyrir aðrar skepnur; samt virðast allir með því og engir mótfallnir.

Svo virðist sem menn hafi gleymt því, að það er eitrað fyrir refi. Það hefir verið, er og verður eitrað fyrir þá, og af því hefir enginn skaði hlotizt, nema einstaka hundur hefir drepizt, og svo hrafninn. Ég er þessu nákunnugur, því að eitrað hefir verið í Skaftafellssýslu, og þótt borga sig, þar sem refunum hefir verið útrýmt, þó einstaka hundur hafi drepizt. En nú er refurinn kominn aftur, sennilega flökkurefur, sloppinn úr haldi, og mun eitrið því verða tekið upp aftur, hvernig sem gengur með það nú, þar sem framleiðsla þess er orðin misjöfn og sumt vikið eða ekki gott.

Af því að yðar refum með eitri stafar sáralítil hætta, þar sem allajafnan er eitrað langt frá bæjum.

Nú skilst mér, að eitrun fyrir svartbak fari fram langt frá bæjum, ef sýslu- eða hreppsnefndir samþ. þá aðferð, og er vitað, að þessi aðferð mun verða notuð með sérstakri varúð og allri aðgætni undir öllum kringumstæðum, og er mér því óskiljanlegt, ef af þessari eitrun mundi stafa frekari hætta en af eitrun fyrir refina. Er óskiljanlegt, að af því geti stafað nein hætta framar en hefir viðgengizt. Ég vil leggja til, að felldir verði báðir málsl., sem n. vill bæta aftan við 1. gr., að banna að eyða svartbaknum um varptímann og banna að eyða honum með eitri.

Þá er brtt. við 4. gr. frá n., þar sem lagt er til, að hreppsnefnd ráði svartbaksskyttur, hver fyrir sinn hrepp.

Frá hæstv. fjmrh. er svo till. um það, að þetta tillag úr ríkissjóði skuli ekki greiðast, heldur skuli kostnaður við skotmenn greiðast úr sýslusjóði og sveitarsjóði. Þó að maður sé ekki beint á móti því, að ríkissjóður komi til skjala í slíkum tilfellum, þá er þess að gæta, að þetta er ekki vanalegt. Undir líkum kringumstæðum, t. d. um eyðingu dýra, eru það sýslu- og sveitarsjóðir, sem borga, og það er afskaplega eðlilegt. Því ætti þá ríkissjóður að borga fyrir svartbakinn? Ég tel það ekki eftir héruðunum, enda eðlilegast, að þau borgi. — Og það er sérstaklega varhugavert með allri virðingu fyrir öllum hreppum — að fela þeim að ráða þessu eins og þeir vilja. Ég tel, að sýslumaður eigi að ráða skyttur, ef þurfa þykir, og þar eð sýslumaður er umboðsmaður ríkisvaldsins, sé nokkur trygging fyrir því, að hann ráði ekki neitt að óþörfu. Þess vegna tel ég, að ef till. ráðh. er ekki samþ., þá eigi að fella till. allshn. um, að hreppsn. taki þetta í sínar hendur.

Um lækkun sektar ætla ég ekkert að segja; læt það ákvæði hlutlaust. En um 4. brtt., við 6. gr., þá skil ég ekki tilgang hennar. Það er eitt af því alsjálfsagðasta að eyða eggjunum, og hélt ég, að enginn karl eða kona vildi banna þessa eggjatöku. En annars er þetta bara gamalt ákvæði, þó að það verði tekið upp nú, 6. gr. á að standa.

Þá er komið að síðustu brtt. frá n., sem sé um það, að allar sektir renni í sveitarsjóð. Hefir n. haft það mjög á hornum sér, að viss hluti af sektarfénu renni til uppljóstrunarmanns. En hér er sami tilgangurinn og í allri annari löggjöf, að örva til þess, að l. sé hlýtt, og hefir verið talinn vísari árangur í framkvæmdinni, ef allir legðust á eitt og heldur væri hlynnt að þeim, sem gengju vel fram í því, að l. væru haletin; þess vegna ætti að standa í þessum l., eins og svo mörgum öðrum, að hluti af sektarfé rynni til uppljóstrunarmanns; hér er 1/3 og 2/3 í samræmi við það, sem víða er í l., sumsstaðar er það helmingur. Þetta er því svo langt frá því að vera óvanalegt, að það er í öllum l., sem fjalla um líkt efni, svo að ég skil ekki, hvað hv. allshn. vill vera að setja sig á háan hest og telja þetta óviðeigandi. Ég skal henda á, að í l. um selaskot á Breiðafirði frá 1925 er þetta ákvæði um 2/3 til uppljóstrunarmanns látið halda sér, í l. um friðun fugla og eggja frá 1913, l. um friðun æðarfugls sama ár, einnig í l. um eyðingu svartbakseggja frá 1892. Í fuglasamþykkt í Vestmannaeyjum frá 1894 er helmingur til uppljóstrunarmanns, einnig í l. um friðun lax frá 1886, einnig í l. um auðkenni á eitruðum rjúpum frá 1895, sömuleiðis í l. um friðun héra frá 1914. — allsstaðar helmingur. Í l. um ófriðun sels frá 1912 er gefið frjálst að ákveða í samþykkt, hve mikið af sekt renni til uppljóstrunarmanns. Undantekningarlaust hefir löggjöfin fyrr og síðar haft þessi ákvæði, og alveg með réttu, til þess að herða á að tilgangur l. náist sem bezt.

Eins og ég gat um áðan, er ég á móti því, að hreppar ráði skyttur, ef þeim skal borga úr ríkissjóði; það er nú svo, að það er að jafnaði ekki farið eins varlega í kostnaðarsakir, ef í hlut á einhver opinber sjóður, reikningar gerðir ríflegir o. s. frv. En í sveit hverri og sýslu hafa forráðamenn nokkur tök á málinu, að ekki sé eytt í neinn óþarfa, t. d. ekki ráðnir skotmenn, nema brýn þörf sé.

Af þessu leiðir, að till. á þskj. 216, að málsl. við 1. gr., um að eitrun sé hönnuð, falli burt, er ekki næg. Ég tel, að öll brtt. n. eigi að falla. Alveg sama er að segja um brtt. hv. 6. þm. Reykv. á þskj. 243, þar sem hann vill orða alla till. þannig, að aðeins sé bannað að eitra. Því að það er svo komið, að e. t. v. dugar ekkert nema eitrun, — það verður að segja það eins og það er. Mannúðarhugmyndir manna eru auðvitað yfirleitt á rökum byggðar og lofsverðar, en hinu er ekki að leyna, að til er ofsi í dýraverndun, sem ekki á rétt á sér. Þess þarf jafnan að gæta, að stilla öllu þess háttar í hóf og gera ekkert ófyrirsynju né með nokkrum hroðaskap.