28.03.1936
Neðri deild: 36. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

19. mál, eyðing svartbaks

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Ég skal játa, að ég sló ýmsu í nokkurt gaman í minni ræðu að því gefna tilefni, hvernig hver þm. á fætur öðrum stóð upp og ræddi þetta mál, og þótti mér varla vert að svara því öðruvísi.

Það er margtekið fram af mér, að það er alls ekki tilgangur allshn. að varna á nokkurn hátt, að þessi fugl sé drepinn. Meiri hl. hefir hinsvegar komizt að þeirri niðurstöðu, að dráp hans eigi ekki að fara fram með eitri. Ég hefi í því sambandi bent á samþykkt Dýraverndunarfélags Íslands frá 13. marz 1936 gegn þessu frv. Og þó að hv. þm. Ak. hafi hneykslazt á því, að nokkurt tillit skuli tekið til þess, sem aðrir segja um þetta mál, sérstaklega þó stjórn dýraverndunarfélagsins, þá hygg ég, að þetta sé þó sá félagsskapur, sem enginn maður þarf að bera kinnroða fyrir að vera eitthvað við riðinn. Ég hygg, að sá félagsskapur vilji með alúð leita eftir því, hvað er réttlátt, hvað er mannúðlegt, hvað er sæmilegt í meðferð dýra. Og ég veit, að sá félagsskapur hefir gert mjög mikið gagn bæði beint og óbeint, með hjúkrun og aðhlynningu dýra, og ekki síður með því að koma börnum og unglingum í skilning um það, að þeir eigi ekki að fara illa með dýr. Og ég fæ ekki séð, að það eigi meiri rétt á sér að gefa fugli seigdrepandi eitur og láta hann flögra og velkjast marga daga dauðsjúkan heldur en t. d. að pikka reiðskjóta sinn með títuprónum til þess að koma honum betur áfram. Ég finn ekki, að svartbakurinn eigi minni kröfu á, að hann sé ekki eltur af eiturvörgum. Hitt er annað mál, hvort má sín meira, nauðsyn þess að vernda búskap varpeigenda, eða nauðsyn þess að drepa ekki fuglinn á hrottalegan hátt. Það er nokkurt matsatriði. Og n. vill ekki setja neitt í veginn fyrir það, að fuglinn sé skotinn. Hún getur aðeins ekki gengið inn á að viðhafa þessa aðferð, sem öllum siðuðum mönnum er ósæmileg. Því fer svo fjarri, að það séu rök í þessu máli, þegar minnzt er á rottueitrun, því að það eru engar aðrar skepnur í hættu fyrir þeirri eitrun, ekki einu sinni kötturinn, sem étur rottuna með eitrinu í. Allt annað mál er með fuglana, þar sem bæði saklausir og sekir verða fyrir eitrinu. Mér er sagt, að fjöldi hunda hafi á hverju ári drepizt af eitri, meðan eitrað var fyrir refi. Og meira að segja fór eitrun fram með þeim hætti áður, að dýrið, sem notað var fyrir agn, var sjálft látið deyja af eitri, og hafði þá blóðið auðvitað flutt eitrið um allan líkama þess, svo að agnið varð áhrifameira.

Hv. þm. V.-Sk. sagði, að eitrunin færi fram fjarri bæjum. Misjafnlega fjarri, meðal annars niður við sjó, bæði á eyjum á Breiðafirði og á landi, bæði fjarri og nærri bæjum, eftir því hvernig varplandið liggur. Það er ekki hægt að koma með neinar öryggisráðstafanir gegn því, að þessi eitrun verði öðrum dýrum að grandi.

Hv. þm. skildi ekki, hvers vegna n. gerði till. um, að 6. gr. félli niður. Það skiptir ákaflega litlu máli, hvort gr. stendur eða ekki. Það, sem fyrir n. vakti, er, að hún taldi, að í 2. og 3. gr. frv. væri nægileg heimild til þess að setja áákveðna reglugerð, og það hygg ég sé. Ráðh. getur aðeins sett ákvæði í reglugerð.

Allar hinar mörgu tilvitnanir hv. þm. í ákvæði eldri löggjafar, að viss hluti sektar renni til uppljóstrunarmanns, hafa engin áhrif á mig. Mér finnst það óeðlilegt, að verið sé að ýta undir, að menn komi með kærur og klaganir á nágranna sína, til þess að geta snapað sér nokkrar krónur. Það hefir aldrei þótt kostur á manni að vera lepja og slúðra og kæra nágranna sína. Löggjöfin á ekki að ala á slíku. Ef almenningur hefir ekki sjálfur tilfinningu fyrir því að halda lögin, þá finnst mér engar sterkar stoðir renna undir framkvæmd l. með slíkum fyrirheitum um ákveðinn hluta sektar í vasa uppljóstrunarmanns. Mér finnst bezt fara á því, að nema slík ákvæði burt úr löggjöfinni, en bæta ekki fleirum inn.

Að lokum vil ég endurtaka, að þeir, sem álíta, að meiri hl. n. sjái ekki nauðsyn á að drepa fuglinn, þeir misskilja n. Það eina atriði, sem vakir fyrir n., er að drepa hann ekki á eins ómannúðlegan hátt eins og í frv. er gert ráð fyrir. Hinsvegar get ég fyrir mitt leyti fallizt á að nema burt það ákvæði, að svartbakurinn sé friðaður um varptímann, og mun þess vegna greiða atkv. með brtt. hv. 6. þm. Reykv., en að sjálfsögðu á móti brtt. hv. 9. landsk. um að fella ákvæðið um eitrunina burt.