17.04.1936
Efri deild: 50. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

19. mál, eyðing svartbaks

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég ætla ekki að fara að eyða tíma í að karpa lengi um þetta mál. Það var gert af kappi í hv. Nd. af mælskuríkari mönnum. Þessi hv. d. afgreiddi málið fljótt og samhljóð, og sendi það til Nd. Þar var málið tekið til athugunar, og lenti í talsverðu þófi um það, en endirinn varð sá, að aðeins smávægilegar breytingar voru gerðar á frv. Aðalbreyt. voru þær, að í staðinn fyrir að í 4. gr. stóð, þegar frv. fór héðan: „Sýslumaður ræður svartbaksskyttur“ o. s. frv., stendur nú: „Hreppsnefnd ræður svartbaksskyttur, hver fyrir sinn hrepp.“ Í 5. gr. voru sektarákvæðin lækkuð nokkuð, og 7. gr. var breytt þannig, að sektirnar, sem áður var ákveðið, að rynnu að 2/3 til uppljóstrunarmanna, en 1/3 til viðkomandi sveitarsjóðs, eiga nú allar að renna til sveitarsjóðanna. Sumar þessar breyt. eru frekar til baga að mínu áliti, en færa frv. nokkuð í áttina til óska þeirra manna sem heldur vilja halda verndarhendi yfir þessum fugli. Þó frv. komi svona frekar skemmt frá Nd., þá get ég eftir öllum atvikum gert mig ánægðan með það, og mun ekki gera till. um neinar breyt. á því, heldur óska, að það verði afgr. eins og það liggur fyrir. Ég veit, að hv. allshn. óskar ekki heldur eftir að fá málið til umsagnar nú.

Þessi afturgengna brtt., sem hv. 4. landsk. hefir vakið hér upp, átti eitthvað fjóra feður í Nd., en er nú hér eingetin af honum. Vonast ég til, að eins og hún á nú færri feðurna en áður, eins fái hún ennþá minna fylgi hér en í Nd.