17.04.1936
Efri deild: 50. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

19. mál, eyðing svartbaks

Þorsteinn Þorsteinsson:

Mér heyrist á hv. 4. landsk., að prentarinn væri kominn ofarlega í hann aftur. Hann er að líta hér yfir, hvernig hans fyrrverandi samverkamenn inna starf sitt af hendi, og sér, að eitt a hefir eitthvað aflagazt eða ekki orðið eins greinilegt eins og vera ber. Hann um það. Ég held nú samt, að hv. þm. misskilji ekki þetta orð að neinu leyti og geti lesið það eins og það á að vera.

Hv. 4. landsk. talaði um, að sumir hv. þm. tækju þetta mál svo hátíðlega og væru heitir fyrir því. En mér finnst satt að segja þessi hv. þm. ekki hefur fyrir því að lesa frv. rétt. Hann talaði tvívegis um það, að hreppsnefndir færu að setja samþykktir um eyðingu svartbaks. Ég veit ekki, hvar það stendur. Í frv. er talað um, að sýslunefndir og bæjarstjórnir geti gert þetta. Það virðist því fljótaskrift á lestri frv. hjá hv. þm.; hann hefir bara fengið þetta fóstur frá þeim í Nd. til þess að bera það hér fram, að því er virðist án þess að setja sig rækilega inn í málið. En hvað sem líður þessum grimmúðlegu eyðingaraðferðum, þá finnst mér, að á meðan hv. þm. á trúbróður sinn í ríkisstj., hæstv. núv. atvmrh., þurfi hann ekki að óttast, að farið verði að setja í samþykktir, sem hann á að yfirlesa og staðfesta, grimmdarfullar eyðingaraðferðir fram yfir það, sem tíðkast um önnur samskonar dýr. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég treysti hæstv. atvmrh. mjög sæmilega til þess að líta eftir, að ekki séu framin lögbrot í þessu efni. Að með frv. í heild sé verið að gera einhverja ógurlegri árás á þetta fuglstetur heldur en áður hefir heyrzt um, er ekki annað en fjarstæða. Hér er aðeins leyft, að sýslunefndir setji samþ. um eyðingu svartbaks, sem svo er skotið til stjórnatráðsins til afhugunar og staðfestingar. Það er hvergi talað um sérstakar drápsaðferðir í þessu frv., nema hvað gert er ráð fyrir að ráða svartbaksskyttur til þess að skjóta fuglinn og veita verðlaun fyrir. Þetta er aðalákvæði frv. um dráp vargfuglsins, en svo hafa menn verið að vekja upp hálfgerða drauga í sambandi við þetta, segja, að þetta mundi verð, svona og svona. Þó svo færi, að farið yrði að setja einhverjar eitursamþykktir gegn svartbaknum, yrði það ekki verra en hefir verið eftir gildandi lögum, þar sem hver einstakur maður getur eitrað þar, sem honum sýnist, og er það vitanlega hættulegra heldur en að gera þetta á skipulegan hátt. Ég hélt eftir anda hv. 4. landsk., að hann mundi ekki hafa á móti skipulagningu á þessu sviði fremur en öðrum. Þarna horfir skipulagningin líklega til bóta, en þá hendir það ólán hv. þm. að snúast öfugur gegn henni.