17.04.1936
Efri deild: 50. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

19. mál, eyðing svartbaks

*Pétur Magnússon:

Af því þetta er fyrsta hitamálið, sem kemur fyrir d. á þessu þingi, kann ég ekki við að sitja þegjandi undir umr. Annars eru það orð hæstv. ráðh., sem gefa mér tilefni til þess að beina til hans fyrirspurn. Ef hv. þm. Dal. skyldi fá sýslumanninn í Dalasýslu til þess að telja sýslunefndina á að gera samþykkt um þá eyðingaraðferð að klippa niður blikk eða brjóta niður brennivínsflöskur, væntanlega tómar, og láta svartbakinn éta, — hvort mundi þá hæstv. ráðh. telja sér skylt að samþykkja slíka reglugerð? Ég efast ekki um, að slík eyðingaraðferð mundi brjóta í bága við almenn landslög, jafnvel hegningarlögin, svo ég er sannfærður um, að hæstv. ráðh. mundi neita að staðfesta slíka samþykkt, þegar af þeirri ástæðu, að bannað er að kvelja dýr að óþörfu.