20.03.1936
Neðri deild: 29. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

18. mál, útsvör

Bjarni Ásgeirsson:

Það var aðalefni síðustu ræðu hv. 8. landsk., frsm. n., að þessi gjöld, sem um er að ræða í brtt. minni, ættu samkv. eðli sínu að hvíla á þeim mönnum, sem leigja út land undir sumarbústaði, því það væri svo mikill hagur fyrir þá fjárhagslega að leigja slík lönd. Taldi hann, að blettir undir sumarbústaði væru leigðir fyrir 50–200 kr. Ég held, að þetta sé hrein og bein fjarstæða, nema því aðeins að einhver sérstök hlunnindi fylgi, eins og ég veit, að er um bústað hv. þm. sjálfs á Álafossi, þar sem hann fær heitt vatn. Undir slíkum kringumstæðum má vera, að leigan sé hærri heldur en ég minntist á, en algengast mun, að þessi gjöld séu 25–50 kr. Og ég er sannfærður um, að það er enginn ofhaldinn af þeirri leigu. Þetta er ekki aðeins leiga eftir þann litla blett, sem bústaðirnir standa á því þeim fylgir vitanlega ætíð mikill umgangur um lönd jarðareigandans. Ég er sannfærður um, að ef öll óþægindi eru tekin til greina hjá þeim sem hafa mikið af sumarbústöðum á landi sínu, þá er enginn ofhaldinn af þessari leigu. Enda veit ég ekki til, að yfirleitt sé sótzt eftir að leigja land undir sumarbústaði. Það er ekki gert af því viðkomandi menn álíti sér fjárhagslegan hagnað að því, heldur er það undir flestum kringumstæðum gert í greiðaskyni við þá, sem sumarbústaðina hafa. Mönnum finnst það sanngjarnt, sem og er, að þeir, sem vilja komast úr bæjunum yfir sumarið, fái land til að dvelja á, en að það sé leigt í gróðaskyni, er fjarri sanni, enda veit ég, að enginn hagur er að því að leigja land undir sumarbústaði fyrir slíkt gjald. Þess vegna sé ég ekki, að það sé að neinu leyti sanngjarnt að ætlast til, að þeir menn, sem lána þessa bletti, beri þessi gjöld fyrir viðkomandi menn. Hv. 2. þm. N.-M. benti á einn hrepp, þar sem svo væri komið, að þessir sumarbústaðir, sem hrepparnir hafa engar beinar tekjur af, hækkuðu gjaldið um 12%. Sjá menn því, að þó hér sé ekki um stórar upphæðir að ræða fyrir hvern mann, þá getur fátæk sveitarfélög munað um þetta.

Um það, að hér sé verið að smeygja inn litlafingri og á eftir komi svo, að farið verði að leggja útsvör á þá, sem eiga sumarbústaðina, er það að segja, að það er skýrt ákveðið í frv., að slíkt geti ekki komið til greina, og meðan svo er, er ekki ástæða til að búa til grýlur út af því.

Þeim, sem virðast till. minni samþ. í aðalatriðum, en hafa eitthvað út á formið að setja, vil ég segja það að ég vil heldur taka hana aftur til 3. umr. og ræða hana við þá heldur en að skrifl. brtt. komi þegar til atkv., og geri ég það hér með.