25.03.1936
Neðri deild: 33. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

18. mál, útsvör

*Gísli Sveinsson:

Ég kann ekki við það, að þessi umr. fari svo, að ekki sé bent á fáein atriði, sem hér koma mjög til greina. Það er þó ekki út af sjálfu frv. og ákvæðum þess, eins og þau eru, heldur út af brtt. þeim, sem fram hafa komið og fluttar eru á þskj. 104 af hv. þm. Mýr., og svo brtt. þar við á þskj. 195 frá hv. 2. þm. N.-M. Mér er ekki vel ljóst, hvernig á því stendur, að þessir hv. þm., aðallega þó hv. þm. Mýr., sem að því er virðist hefir fengið stuðning hv. 1. þm. Árn., sem er í þeirri n., sem fjallaði um málið, fara þessa leið, ef fyrir þeim vakir það eitt að koma samræmi á með þann mælikvarða, sem viðhafður er, þegar jafnað er niður sýslusjóðsgjaldi í sveitum og héruðum. Mér skilst, að það, sem er þeim þyrnir í augum, sé það, að það er svo komið á örfáum stöðum, þó aðeins í námunda við höfuðstaðinn, og þá væntanlega aðeins sunnanlands, að það eru nokkrar fasteignir, sem eru taldar með í þeirri undirstöðu, sem höfð er til þess að jafna niður sýslusjóðsgjaldi í hverri sýslu. Eins og hv. þm. er kunnugt, þá er 1/3 hluta sýslusjóðsgjaldsins í héruðum jafnað niður á sveitirnar eftir samanlögðu skattamati fasteigna í hverjum hreppi. Þetta er að vísu mælikvarði, sem er tekinn að nokkru leyti af því, að það er ekki annur handbærri til þess að miða við, 1/3 hluta er jafnað niður eftir tölu verkfærra manna og loks eftir skuldlausum eignum og tekjum manna, sem eru taldar saman. Ef það eitt vakir fyrir hv. þm. að leiðrétta það misræmi, sem gæti komið fram milli hreppanna innan sömu sýslu að því er snertir þennan 1/3 hluta, þá er það ekki rétta leiðin að koma með brtt. við útsvarslögin, því þau koma ekki þessu máli við. Hér er aðeins um það að ræða að breyta þessu með þeim hætti að gera breyt. á sveitarstjórnarlögunum með viðauka við þau, eða 44. gr. þeirra l., sem einmitt ákveður þennan mælikvarða. En ef það er hinsvegar tilætlunin hjá þeim að fara inn á þá breyt. að leggja gjöld og útsvör á þessa menn, sem ekki eiga þar heimili, og útsvarslögin leyfa því ekki, að lagt sé á í hreppunum, fyrir þá skuld eina, að þeir eiga þar sumarbústaði, sem þeir eru aðeins í nokkra mánuði eða jafnvel nokkrar vikur á sumrin, þá tel ég það óhæfu að ætla sér að brjóta þannig í bága við tilgang útsvarslagana, og smeygja þessu atriði inn, sem getur haft víðtækari afleiðingar en þessir hv. þm. vilja gefa í skyn. En það er það, að meiri hl. sveitarstj. fengi með þessu vald til þess að jafna niður útsvörum á menn úr kaupstað, sem eins og kunnugt er myndi verða mjög þægilegt fyrir sveitirnar, og myndu þær þá ekki þyrma þessum mönnum um of. Útsvarslögin segja, eins og kunnugt er, að það á að leggja á mann þar, sem hann á lögheimili, og þar á hann yfirleitt að greiðu sitt útsvar, og annarsstaðar ekki. Hér eru gerðar undantekningar, en þær eru ákveðnar og allar á einn veg. Það er sem sé í 8. gr., þar sem undantekningarnar eru, að það megi leggja á gjöld á fleiri stöðum en einum. Nú er tilgangur flm. till. að bæta við þessa liði, sem þar eru taldir, og skjóta þessu þar inn, en tilgangur útsvarslaganna með þessar undantekningar er sá, að það er því aðeins hægt að gera þetta, að maður eigi eignir, sem eru arðbærar. Nú tel ég ekki, að það sé svo ástatt um sumarbústaðina. Ef svo væri mundu þeir jafnvel geta komizt undir ákvæði núgildandi laga. En ég tel ekki, að það hafi verið tilgangur laganna að taka gjald af slíkum eignum, sem eingöngu eru praktiskt talað til útgjalda fyrir eigandann, en engan veginn til þess að gefa arð, því að menn hafa sitt húsnæði annarsstaðar og bæta þessu við ef þeir þykjast hafa efni á eða telja nauðsynlegt sínu fólki að komast undir bert loft í sveit einhvern tíma yfir sumarið. Að vísu er ákveðið svo, að ef menn hafa lögheimili á fleiri stöðum, megi leggja á þá á hverjum stað, en það er hið eina, sem vikið er frá þeirri meginreglu, að ef leggja á á menn annarsstaðar en þar, sem þrír hafa fast heimili, þá verði menn að hafa þar einhvern arð. Þetta væri líka sjálfsagt, ef maður ætti lögheimili á fleirum en einum stað, eða kæmi til með að dvelja svo lengi, að hann yrði að telja til heimilis á viðkomandi stað.

Það væri raunar eðlilegt, að brtt. hv. 2. þm. N.- M. væri tekin til greina, ef málið á annað borð væri tekið inn á þessa braut, sem ég tel þó ekki rétt. Þessi brtt. við brtt. er það réttari, að hún tekur af allan vafa um það, hvað hér er verið að tala um. Hitt hlyti að leiða til málaferla og úrskurða, þegar farið væri að eltast við framandi menn, þó þeir dveldu tíma og tíma í þessum bústöðum. Hv. þm. Mýr. vill hafa þetta eitthvað óákveðið, því að svo geti farið, að þetta verði ekki eingöngu sumarbústaðir, þeir geti t. d. verið leigðir út heila vetur. En þá kemur viðkomandi maður til með að verða gjaldskyldur sem heimilisfastur á þeim stað. — En ef þetta er tilgangurinn, sem ég vil trúa, aðeins að jafna til milli hreppa með því að gera mælikvarðann, sem greitt er eftir, réttari, þá ætti að gera það með viðauka við sveitarstjórnarlögin, þannig að áður en jafnað væri niður sýslusjóðsgjaldinu, væri dregið frá fasteignamati fasteigna hvers hrepps matsverð sumarbústaða utanhreppsmanna. Þetta væri ekkert óeðlilegt, og væri ekki verið að hlífa þessum mönnum neitt með því, því að þeir borga fasteignaskatt og eignaskatt af þessum byggingum sínum, sitt á hvorum stað að vísu, og svo loks sýsluvegasjóðsgjald, þar sem sýsluvegasjóðssamþykktir eru. Það er enganveginn tilætlunin með þessu sýslusjóðsgjaldi, að það eigi að geta lagzt á nokkurn mann, sem ekki á heima í sýslunni. Hitt er aðeins mælikvarði á það, hvernig gjaldið skuli skiptast á hreppana, með öðrum orðum, útkoman er hin sama eins og er, gjaldið kemur niður á mönnum innan sýslunnar; sumarbústaðirnir geta aðeins orðið til þess, að það komi misjafnlega niður á hreppana. Það er því ekkert rangt við það, að eignir þessara manna, sem eiga heima í kaupstöðunum, séu dregnar út úr mælikvarðanum fyrir skiptingu sýslusjóðsgjaldsins. Þeir inna af hendi öll sín skil vegna eigna sinna, ein, og vera ber. Það er áreiðanlega tekið fullt tillit til þess, sem menn eiga, þegar jafnað er niður útsvörum, t. d. hér í Reykjavík, hvar sem það er. Þess vegna er sú leið ekki réttlát að breyta útsvarslögunum á þennan hátt; það á ekki að leggja á þessa menn á þessum stöðum. En hitt nær tilganginum, ef hann er sá óeigingjarni aðeins að leiðrétta mælikvarðann, ef slíkur viðauki er settur við sveitarstjórnarlögin frá 1927.

Ég vænti, að hv. dm. taki þessari aths. á tilhlýðilegan hátt og fari ekki að samþ. till., sem brýtur þannig í bága við tilgang útsvarslaganna og er algerlega óréttmæt, þegar tilganginum má ná með öðrum miklu réttri hætti.